02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg átti tal við stjórn Landsbankans um þetta frv., og jeg skýrði frá því við meðferð málsins í hv. Nd. og tel mjer rjett og skylt að skýra frá áliti bankastjórnarinnar hjer í þessari hv. deild, og það er á þá leið, að bankinn telur sjer ekki fært nú sem stendur að gera það, sem honum er ætlað með þessu frv. Jeg hefi að vísu ekki haft mikið tækifæri til að kynna mjer þau atriði, sem þetta álit bankastjórnarinnar er bygt á, en jeg hefi þó fulla ástæðu til að ætla, að þetta álit bankastjórnarinnar sje rjett.

Það er til þess ætlast, að þessi lán sjeu veitt af venjulegu sparisjóðsfje bankans, og lánin eiga að vera til óvenjulega langs tíma, svo að jeg hygg, að þótt nóg fje væri til í bankanum, þá væri önnur leið heppilegri, sem sje sú leið, að fje til slíkra lána væri fengið með sölu skuldabrjefa, sem væri ætlaður jafnlangur umferðartími og lánin eiga að vera veitt til. Jeg vil geta um þetta nú, svo það komi engum á óvart, þótt þessi lög kæmu ekki til framkvæmda þegar í stað, þó þau væru samþykt nú. Svo getur vel farið, að þau komi ekki til framkvæmda fyrst um sinn. En það má þó vel vera, að ástæður geti breyst svo vegna góðs árferðis, að bankanum verði þetta fært. En mjer finst stjórn bankans verða að hafa úrslitavald um, hvort bankinn sje þess megnugur að takast þetta á hendur eða ekki, og jeg hygg, að hvaða stjórn, sem væri, teldi varhugavert að skipa bankanum að taka upp slíka starfsemi sem þessa, nema því aðeins, að hann teldi sjer það fært.