02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

132. mál, Leyningur

Bjarni Jónsson:

Hjer á Alþingi hafa oft komið fram sterkar raddir um, að hætt yrði sölu þjóðjarða. En svo hefir atvikast, að engin formleg till. hefir verið samþykt, en stjórnin hefir vitað það, að fullur helmingur þingmanna á síðustu þingum hefir verið sölunni mótfallinn. Nú hefir hæstv. atvrh. getið þess, að haldið verði áfram þjóðjarðasölu sem áður.

En það er yfirsjón af þinginu að stöðva ekki þessa sölu. „Hæg er leið til ....“ o. s. frv., og áður en menn vita vitund af, stendur ríkissjóður uppi eignalaus. Eru nú seldar gjafverði fasteignir hans, og vita þó menn, að slíkar eignir eru allra eigna tryggastar. Er það alls ekki rjett, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) segir, að þar eð hjer sje um að ræða að selja bæjarfjelagi jörð, þá sje engin hætta á ferðum, og í raun og veru komi þessi sala alls ekki við stefnu manna í málinu alment. En jeg lít svo á, að hvert einstakt tilfelli sje mikilsvert. Í hvert sinn, sem stöðvuð er sala, er landinu unnið gagn — og í hvert sinn, sem sala er framkvæmd, er landinu unnið tjón. Þarf jeg ekki að orðlengja um þetta frekar, og er jeg sammála hv. 2. þm. Reykv. (JBald). En jeg vildi benda á annað í sambandi við þetta mál.

Það er kunnugt, að hv. Nd. hefir mjög gert sjer far um að spara fje landssjóðs, en hefir aftur á móti gengið ærið nærri landsmönnum, t. d. þar sem hún hefir svo að segja svift íslenska námsmenn við erlenda háskóla öllum styrk. En þess ber að gæta, að þeir, sem eiga þessa drengi, eru ekki síður landsmenn en Siglfirðingar. Það væri því hæfileg kóróna á verk hv. deildar að gefa nú Siglfirðingum eina af fasteignum ríkisins. Jeg er ekkert á móti fólkinu. Það er duglegt fólk og hefir aflað mikils fjár úr sjónum. En Siglfirðingar og aðrir síldveiðamenn hafa reynst landinu og búaliðum hættulegir keppinautar — og ekki munu þeir þótt hafa neinir útverðir íslenskrar menningar norður þar í síldveiðastöðvunum. Jeg ætla ekki frekar að rekast í því, en mjer finst óþarfi að gefa Siglfirðingum jarðeignir ríkisins. Jeg segi „gefa“, því að jeg veit það, að ef að vanda lætur, verður jörðin seld við gjafverði og langt fyrir neðan sannvirði. Má þó búast við því, að þessi jörð verði ríkissjóði dýrmæt eign, er stundir líða, þar sem hún liggur að bæ, er vex óðfluga. Þætti mjer ekki undarlegt, þó að fram kæmi frv. um að selja Vestmannaeyjar, sem munu vera dýrmætasti blettur á landi hjer. Er það hraparlegt glapræði að stefna svo fram í þessum málum, sem gert hefir verið. Sje jeg ekki, að Siglfirðingum sje ekki fært að leigja jörðina, semja fyrst við prest þann, sem nú ræður henni, og þá er hans missir við, mun opin leið að samningum á nýjan leik. Er það ekki nema sanngjarnt, að Siglfirðingar borgi allháa leigu, og mun það ekki verða tilfinnanlegt, þar sem margir eru gjaldendur og ekki kemur þungt niður á hverjum einstökum. En ekki tel jeg ráðlegt að leigja jörðina lengur en til 5 eða 10 ára í senn, þar sem við því má búast, að hún hækki í verði, eftir því sem bærinn stækkar. Fyndist mjer það allkynlegt, ef þeir hinir sömu þingmenn, er viljað hafa fyrir sakir sparnaðar skerða háskóla vorn og hæstarjett og koma ruglingi á utanríkismál vor, vildu nú gefa arðberandi ríkiseignir með öllu að þarflausu.