01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. minni hl. samgmn. (Sveinn Ólafsson):

Jeg mun láta mjer nægja að halda mjer við þær brtt., sem jeg að einhverju leyti er riðinn við, þó að jeg hinsvegar komi nærri till. annara háttv. þm. Jafnframt mun jeg sneiða hjá því að taka þátt í því eldhúsdagstilhaldi, sem hæstv. fjrh. boðaði. Tel jeg komin fram af hendi annara hv. þm. svör við því. Þó er það eitt atriði, sem jeg vildi benda á í því sambandi. Hæstv. fjrh. tók það rjettilega fram, að orsakarinnar til hins ömurlega fjárhagsástands, sem þjóðin nú býr við, væri að leita í ljettúð undanfarinna þinga. Það er ómögulegt að neita því, að svo er að vissu leyti, þótt hver einstakur þingmaður kunni að hafa afsökun fyrir sig. Þegar farið er að athuga þetta nánar, þá kemur það í ljós, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að ræturnar til þessa liggja víða. Og því er slíkur dómur, sem kveðinn var upp af hæstv. fjrh., fyrst og fremst gegn þeim þingflokki, er fjölmennastur hefir verið undanfarin ár. Þykir mjer því hæstv. fjrh. vera farinn að höggva nokkuð nærri flokksbræðrum sínum, sem fjölmennastir hafa verið þingflokka oftast undanfarið. Þarf jeg ekki að fara lengra inn á þetta, en jeg vildi aðeins benda á það, að þegar slíkur dómur er kveðinn upp, þá er rjett að gæta allrar varúðar, svo ekki falli dómarinn á eigin bragði.

Þá vildi jeg næst víkja að till., sem fram er komin viðvíkjandi strandferðunum, og þá með sjerstöku tilliti til flóabátaferðanna. Hefir verið minst nokkuð ítarlega á þetta af hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem, er frsm. meiri hl. nefndarinnar. Það vildi svo til, að jeg var ekki viðstaddur meðan hann talaði, svo að jeg heyrði ekki nema lítinn hluta af ræðu hans. Í sjálfu sjer sakar það ekki mikið. Nefndin var klofin í málinu og höfum við hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) komið fram með okkar álit á þskj. 260. Viljum við takmarka styrkinn sem mest, eins og aðrar fjárveitingar, sem hægt er að takmarka, og halda okkur við þær 60 þús. kr., sem stjórnin hefir lagt til að veittar yrðu. Við erum sannfærðir um, að hægt er að bæta úr hinni brýnustu þörf með þessari fjárhæð, ef fjenu er haganlega skift. Teljum við rjett, að landsstjórnin úthlutaði þessum styrk, í stað þess að binda fyrirfram ákveðnar upphæðir við ákveðna báta, sem gengju eins og hingað til hefir átt sjer stað. Og geri stjórnin það þá með hliðsjón af samgönguþörfum þeim, sem að kalla hvert sinn. Við minni hl. eins og meiri hl. nefndarinnar lítum svo á, að ferðunum eigi að öðru leyti að haga eftir tillögum sveitarstjórna þeirra hjeraða, er ferðanna njóta. Það hefir verið fundið að því af ýmsum háttv. þdm., að till. okkar minnihlutamanna um skiftingu styrksins taki ekki nægilegt tillit til þarfa sumra hjeraða. En þess verður að gæta, að með þessari takmörkuðu fjárhæð verður alstaðar að draga úr ferðum, og þess vegna verður hjer að líta á hlutföllin, en ekki upphæðina. Hjer er heldur ekki að ræða um till. til þingsins, heldur bendingar til stjórnarinnar um skiftinguna. Það vill svo til, að við hv. 2. þm. N.-M. erum ekki alveg sammála um þessar bendingar, og mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni. En þar sem tveir hv. þm. hafa tekið það fram, að styrkur sá, sem við ætluðum til Faxaflóabátsins, sje of lítill, 18 þús. kr., þá vildi jeg minna á það, að árin 1918 og 1919 var sama upphæð veitt, og árið 1920 og 1921 voru veittar 20 þús. kr. Áður var upphæðin til þessara ferða aðeins 12 þús. kr. Það er ekki fyr en nú síðustu árin, að þetta geypifje hefir verið veitt til ferða á þessu svæði, og kemur það til af því, eins og áður hefir verið tekið fram, að til ferðanna hefir verið fengið óhentugra skip en áður var notað. Fram til 1919 var „Ingólfur“ flóabátur á þessu svæði og síðan „Skjöldur“. Voru það miklu hentugri skip. Þau voru minni, en fullnægðu þó alveg þörfinni. Álít jeg, að hjer hafi að nauðsynjalausu verið varið alt of miklu af flóabátastyrknum fyrir óhentugt skip, einmitt þar, sem ferðirnar ættu að komast næst því að borga sig. Virðist mjer sjálfsagt að bæta úr þessu með því að fá minna og hentugra skip. Annars legg jeg litla áherslu á, hvað ofan á verður í þessu, en tek það fram, að jeg vil ekki stuðla að því með atkvæði

mínu, að veitt verði meira fje til þessara ferða en áður var nefnt, eða 60 þús. kr. alls, og engri átt nær, að helmingur upphæðarinnar gangi til þessa eina báts á Faxaflóa.

Þá vil jeg leyfa mjer að víkja að till. þeim, sem jeg er við riðinn á þskj. 261. Þær eru ekki margar eða miklar að fyrirferð. Jeg legg til, að tillag til akfærra sýsluvega verði hækkað úr 10 þús. kr. upp í 15 þús. kr. Við 2. umr. fjárlaganna var borin fram till. um hækkun upp í 20 þús. kr., en feld. Jeg hefi því farið hjer meðalveginn.

Svo sem kunnugt er, eru í fjárlagafrv. því, er fyrir liggur, niður feldar flestar eða allar fjárveitingar til vegalagninga; aðeins gert ráð fyrir takmörkuðu viðhaldi. Mjer finst það mjög illa farið, að ríkissjóður skuli ekki geta að minsta kosti mætt þeim hjeruðum, sem hafa mikla þörf á bættum sýsluvegum, en vilja leggja til helming kostnaðar á móti ríkissjóði til brýnustu viðgerðar. Mjer skilst, að með 10 þús. kr. verði ekki hægt að mæta mörgum sýslufjelögum þannig. Jeg vil minna á það, að vegamálastjóri hefir gert ráð fyrir, að af 40 þús. kr., sem veittar eru í fjárlögum þessa árs til akfærra sýsluvega, verði varið 15 þús. kr. til þeirra, en 25 þús. kr. sparaðar ásamt öðru veittu vegafje, sem nú er ætlast til, að ekki verði notað á þessu ári. Jeg vænti þess, að hv. deild láti ekki þann annars svo virðingarverða sparnað, sem fyrir henni vakir, verða til fyrirstöðu þessari litlu till. Það er ekki annað en hvatning til hjeraðanna til að koma einhverjum framkvæmdum á þar, sem þörfin er allra brýnust, og vitanlega verður upphæðin ekki greidd nema jafnmikið kæmi á móti frá sýslufjelögunum.

Þá á jeg ásamt hv. 1. þm. N.-M. (H- Stef) á sömu atkvæðaskrá till. í tveim liðum. Fyrri helmingurinn fer fram á ábyrgð frá ríkissjóði fyrir hugsanlegu láni, sem dúkaverksmiðjufyrirtæki austanlands kynni að fá, ef það tækist að draga saman með söfnun 3/5 parta af stofnkostnaði. Samskonar till. lá fyrir við 2. umr., en fór fram á 200 þús. kr., en þessi fer fram á aðeins 180 þús. Að vísu var hin fyrri feld, mig minnir með 14:10 atkv. En menn úr hv. fjvn. bentu mjer á það, að nefndin hefði talið vanta ákvæði í till. um endurtryggingu gagnvart ríkissjóði. Til þess að mæta óskum hv. nefndar um þetta, höfum við flutningsmenn tekið upp ákvæði í þessa átt í þessa till.; þ. e. a. s. við gerum ráð fyrir, að það verði á valdi hæstv. stjórnar, hvaða endurtryggingar hún krefst. Annars tek jeg það fram, eins og við 2. umr., að til þessarar ábyrgðar kemur því aðeins, að Austfirðingar sjái sjer fært að safna svo miklu fje, að það nægi að 73 til fyrirtækisins. En slík heimild fyrir ábyrgð gefur mönnum eðlilega í þessum hjeruðum sterka hvöt til að leggja sem allra mest af mörkum og keppa fast að takmarkinu. Nú þegar eru loforð til fyrir 80 þús. kr. og áreiðanlega mikill áhugi að bæta við. En árferði hlýtur að ráða, og örðugleikar síðustu ára hafa átt ógnar mikinn þátt í því, að ekki var meira að gert. Hitt hefir líka valdið nokkru um, að síðasta þing kipti að sjer hendi um stuðning með láni eða ábyrgð, svo að áhuginn, sem hafði glæðst við fyrirheit þingsins 1922 um 50000 kr. lán, hlaut af dofna. Hjer er ekki farið fram á neina fjárveitingu, lán eða glæfralega ábyrgð án tryggingar frá öðrum hliðum. Ekki heldur er beðið um stuðning til þess að koma á fót minniháttar kembivjelum. Um það tel jeg hjeruðin einfær. Myndi jeg þó telja það stórum lakara, ef ráðist yrði í að koma upp slíkum minniháttar verkvjelum, sem aðeins gætu bætt úr þörfinni í svip og aðeins að nokkru leyti. Með því væri eytt fje frá hinu fyrirtækinu, sem koma þarf og koma hlýtur. Jeg benti á það við 2. umr., að það fje, sem goldið er á 2–3 árum úr tveim austustu sýslum landsins fyrir ullarvinnu í Noregi, myndi langdrægt nægja til að reisa vandaða dúkaverksmiðju á Austurlandi.

Þá skal jeg víkja að b-lið till. Þar er farið fram á heimild fyrir ábyrgð á 10 þús. kr. láni handa Norðfjarðarhreppi. Hv. fjvn. treystist heldur ekki til að taka upp þessa ábyrgðarheimild. Jeg sendi henni erindi um þetta ásamt skýrslu frá hreppsnefnd Norðfjarðarhrepps. En hv. fjvn. varð svo mikið um þetta, að hún rjeðist á Bessastaðahrepp, sem eftir till. hennar við 2. umr. var búinn að fá viðurkenningu fyrir 15 þús. kr. lánsábyrgð, og fellir eða afturkallar þá till. Þetta var óvænt tiltæki hjá hv. nefnd, jafnvel þó hún sæi sjer ekki fært að mæla með ábyrgðarheimild fyrir Norðfjarðarhrepp, og virðist mjer hjer aftan að siðum farið.

Það liggur nærri að spyrja: Hvað ætlar hið háa Alþingi að taka til bragðs, þegar hrepparnir hver af öðrum neyðast til að leita þannig hjálpar í neyð? Mundi ráðið að svara með órökstuddri neitun? Í fyrra tók þingið að sjer illa stæðan hrepp, Gerðahrepp í Gullbringusýslu, og það er í mesta máta undarlegt, ef það ætlar að hafna tilmælum og óskum annara hreppa; sem sjálfsagt eru álíka illa staddir. Það er ómögulegt að neita því, að skylda hvílir á ríkissjóði að varna hallæri, og hjer er um hallærislán að ræða. Hreppsnefnd Norðfjarðarhrepps fer í raun og veru ekki fram á lán, heldur styrk. Upplýst er líka, að ástandið er svo slæmt, að hreppurinn geti alls ekki bjargast af til vors. Veit jeg, að það mun rjett vera, þó jeg hafi ekki treyst mjer til að koma með styrkbeiðni honum til handa, vitandi fyrirfram, að hún mundi ekki fá áheyrn. Þess vegna vildum við flutningsmenn reyna þessa leið, því með henni er hægt að bæta úr augnabliksþörf, hvað sem kann á eftir að fara.

Svo sem skýrsla hreppsnefndar ber með sjer, eru þessi vandræði hreppsins, fátækt og skuldir, fyrst og fremst afleiðing af því, að hreppurinn hefir orðið að taka á móti fjölskyldum, sem komið hafa úr fiskiþorpunum hjer syðra. Ein fjölskylda t. d., sem dvalið hefir tiltölulega langan tíma í Hafnarfirði, hefir bakað þessum fámenna hreppi yfir 7 þús. kr. útgjöld á tæpum 2 árum. Kaupstaðirnir hjer sunnanlands eiga ekki hvað minstan þátt í því, að fátæk sveitarfjelög eru að gefast upp. Örbirgðin, sem þarna stendur fyrir hvers manns dyrum, stafar að miklu leyti af heimsendingu þurfamanna frá fiskiverunum við Faxaflóa, Vestmannaeyjum og fleiri stöðum. Þetta er sá menningarlegi og efnalegi stuðningur, sem útvegurinn í þessum fiskihverfum veitir sveitunum, sem alið hafa upp fólkið handa honum.

Eftir að hafa sjeð till. háttv. fjvn., hefi jeg ekki mikla von um stuðning frá henni við þessa till. Jeg ætla samt að hleypa henni undir atkvæði og sjá hvað setur. Ef hún verður ekki samþykt, mætti hún þó verða til þess að vekja hv. þingmenn til umhugsunar um það, hvað gera skuli, ef margir hreppar kalla á hjálp og verða gjaldþrota. Er þetta allkröftug áminning um það að takmarka þau útgjöld ríkissjóðs, sem viðráðanleg eru, og demba ekki her manns og hverskyns stofnunum að þarflitlu á ríkissjóð, með þeim formála, að alt sje það í almenningsþarfir. Ef til vill verður á næsta þingi að framkvæma alvarlegan niðurskurð á þessháttar fjárveitingum, sem engan þm. hefir enn órað fyrir, og verja fjenu til fátækraframfærslu.

Þessir þrír hreppar, sem jeg nefndi, Norðfjarðarhreppur, Bessastaða og Gerða, eru ekki einir um hituna. Mjer er kunnugt um nokkra fleiri hreppa, sem leitað hafa hófanna um stuðning þingsins, og aðra, sem bíða byrjar um það. Það er vandalítið að geta sjer til, hvernig fer fyrir þessum hreppum, ef sama árferði helst, ef krónan lækkar, dýrtíðin eykst og afurðasalan rýrnar, eins og vænta má eftir þeim ráðstöfunum, sem þingið hefir enn þá gert og sem að mjög litlu leyti stefna að gengishækkun.

Fleiri orðum þarf jeg ekki að eyða að till. mínum. En að lokum skal jeg minnast á 31. till. hv. fjvn. Hún leggur til, að 10 þús. kr. verði veittar til fjárkláðalækninga. Önnur till. hefir komið fram um að veita til þessara lækninga aðeins 2500 kr. Mun jeg greiða atkvæði móti þeim báðum. Af margra ára reynslu er jeg sannfærður um það, að ástæðulaust er að óttast fjárkláðann, ef nægilegt eftirlit er haft af hálfu hins opinbera með þrifaböðunum, og þær ræktar samviskusamlega. Um þetta má vísa til reynslu Skota, sem eru þaulvanir fjárræktarmenn. Þeir hafa aldrei útrýmt fjárkláða eða getað það, en leggja svo mikla stund á þrifaböðun fjárins, að nær aldrei verður kláðans vart. Hygg jeg því, að þessi liður mætti falla burt úr fjárlögunum, og væri ef til vill ástæða til að veita heldur fje til eftirlitsins, sem áreiðanlega er víða ljelegt.