16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Allsherjarnefnd hefir klofnað í þessu máli. Minni hl., sem í eru tveir þingmenn Reykvíkinga, leggur til, að frv. sje felt. Meiri hl. er á því, að rjett sje að samþykkja frv., þó með nokkrum breytingum, sem hann leggur til að gerðar verði, svo sem sjest á þskj. 391.

Jeg hygg, að ef um nokkurt fyrirtæki hjer á landi má segja, að það sje óskabarn þjóðarinnar, þá sje það Eimskipafjelag Íslands. Hluti í fjelaginu eiga menn úti um alt land, og hafa þeir ekki lagt fje sitt fram til þess að græða á því, heldur til þess að styðja þjóðþrifafyrirtæki. Nú á þetta fjelag, sem á svona mikil ítök í hugum allra landsmanna, við mikla fjárhagsörðugleika að stríða, að sumu leyti vegna hinna erfiðu tíma, en að sumu leyti af því, að það gerir meira en keppinautar þess til þess að fullnægja þörfum landsmanna, og stendur því ver að vígi í samkepninni.

Meiri hl. lítur því þannig á, að rjettmætt sje að styðja fjelagið á þann hátt, sem farið er fram á í frv. Þetta hefir ekki mætt mótstöðu er kemur til þess að undanþiggja fjelagið skattgreiðslu til ríkissjóðs. Það er eingöngu með tilliti til þess tekjumissis, sem bæjarsjóður Reykjavíkur yrði fyrir, sem 2 hv. nefndarmenn hafa gert ágreining, að minsta kosti kom annað ekki fram í nefndinni.

Það er að vísu rjett, að verði þetta frv. samþykt óbreytt, mun bæjarsjóður Reykjavíkur missa nokkurs í, en jeg hygg Reykjavíkurbæ, eins og landið í heild sinni, hafa svo mikinn hag af því, að Eimskipafjelaginu vegni vel, að hann hefði getað sætt sig við þetta þennan tiltekna tíma. Því að hjer er ekki farið fram á skattfrelsi til handa fjelaginu í framtíðinni, heldur um ákveðið stutt árabil. Þó hefir meiri hl. eftir atvikum getað fallist á breytingar, er miða að því að draga úr því tjóni, sem bæjarsjóður Reykjavíkur biði við samþykt frv. eins og það er flutt.

Í fyrsta lagi leggur meiri hl. það til, að fjelagið verði ekki að neinu leyti undanþegið gjöldum til bæjarins þetta ár, sem nú er að líða. Um þetta atriði vil jeg taka fram, að nefndarmenn þeir, sem eiga heima í Reykjavík, kváðu búið að leggja útsvar á fjelagið fyrir þetta ár. Við hinir rengdum það auðvitað ekki, og það var með tilliti til þess, sem við fjellumst á þessa brtt., að við litum svo á, að ekki væri rjett að breyta útsvari, sem þegar hefir verið lagt á lögum samkvæmt. Þó skal jeg taka það fram, að jeg hefi nú heyrt því fleygt, að þetta sje ekki rjett; útsvarið hafi ekki verið lagt á. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki kynt mjer þetta svo, að jeg geti staðhæft, hvort sannara er. En sje útsvarið ekki ákveðið nú, sje jeg enga ástæðu til að halda þessari brtt. fram.

Þá er hin brtt. meiri hl., sem er í sjálfu sjer stærri, að fjelagið sje ekki með öllu undanþegið gjaldi í bæjarsjóð, heldur greiði til hans 5% af hreinum ágóða, eins og hv. deild hefir samþykt um verslunarfyrirtæki ríkisins. Jeg get búist við, að hv. flutningsmönnum hafi gramist, þegar þeir sáu þessa brtt., en ástæðan til þess, að hún er flutt af meiri hl., er sú, að þetta er ákveðið beinlínis í samráði við stjórn Eimskipafjelags Íslands. Vænti jeg þess, að hv. flm. geti sætt sig við brtt., þegar þeir vita þetta.

Ef þessi brtt. yrði samþykt, álít jeg, að Reykjavíkurbær missi tiltölulega svo lítils, að menn geti horfið frá því að leggja á móti frv. af þeim ástæðum, og hinsvegar eigum vjer, er viljum unna fjelaginu sem bests hlutar, að geta gengið að þessu, þar sem það er í samræmi við vilja fjelagsstjórnarinnar. Þetta er miðlunartillaga, sem allir ættu að geta fallist á, og væri skemtilegast, ef frv. gæti gengið friðsamlega og sem fljótast í gegnum þingið. Samkvæmt brjefi borgarstjóra til nefndarinnar hefir útsvar fjelagsins síðustu ár verið að meðaltali 8,7% af hreinum ágóða þess. Þetta er því nokkur lækkun, er gæti komið fjelaginu vel, en hinsvegar ekki svo mikil, að hallað sje stórvægilega á Reykjavíkurbæ.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vona, að hv. deild geti fallist á þessar brtt. og samþykki frv. með þeim.