16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. Ak. (BL) byrjaði ræðu sína mjög hátíðlega. En síðan fór hann að tala um, að það, sem jeg hefði sagt, mundi láta mjög vel í eyrum kjósenda minna, og ljet orð falla í þá átt, að jeg hefði verið að halda kjósendaræðu. Jeg verð nú að segja það, að þegar það fer saman að tala fyrir góðu máli og fyrir kjósendur, þá sje það vel farið. Og jeg óska, að hv. þm. Ak. megi einhverntíma sanna þetta. Annars gekk ræðu hv. þm. Ak. mest út á það að gagnrýna stjórn Eimskipafjelagsins. Það getur vel verið, að stjórn fjelagsins hafi gert skyssur. En á Reykjavík að gjalda þess? Annars eiga slíkar ávítur að koma fram á aðalfundi fjelagsins. Jeg efast um, að hann muni þar vilja standa við öll orð sín um stjórnina. Að minsta kosti hefir hann nú sýnt, að hann treystir þeim mönnum, sem stjórn fjelagsins hafa skipað, til þess að fara með önnur ennþá stærri mál. Þannig kemur Jón Þorláksson, sem háttv. þm. Ak. ásamt sínum flokksbræðum hefir nú gert að fjármálaráðherra, í stjórn Eimskipafjelagsins árið 1917. Árið 1918 er hann enn í stjórn fjelagsins og sömuleiðis Eggert Claessen bankastjóri. Árin 1919, 1920, 1921 og 1922 eru svo þessir menn í stjórn fjelagsins. Jeg skil því ekki almennilega þessi mótmæli háttv. þm. Ak. gegn stjórn Eimskipafjelagsins, þar sem hann hefir þó sýnt, að hann ber hið fylsta traust til þessara manna. Það getur ómögulega verið alvara hans, að bærinn eigi að borga allar skyssur þessara manna. Það mætti alveg eins heimta, að bærinn borgaði allar skyssur, sem núverandi landsstjórn, eða einhverjir aðrir hjer í Reykjavík, kunna einhverntíma að gera.

Jeg skil það vel, að hv. þm. Ak. þótti lítill ágóði Eimskipafjelagsins, og finst því hart, að fjelagið skuli þurfa að greiða útsvar hjer til bæjarins. Háttv. þm. vill auðvitað fá sem hæsta vexti af hlutafje sínu. En jeg held, að hann sje svo kunnugur starfsemi bæjar- og sveitarfjelaga, að hann viti, að það er talsvert algengt, að menn borgi útsvar, þótt þeir hafi ekki miklar tekjur og niðurstaðan af atvinnurekstri þeirra sje ekki sem best; en þá er lagt á ástæður og efni. Jeg skil mætavel gremju hv. þm. (BL) yfir því, að geta ekki klipt úr sína vaxtamiða og lagt verð þeirra í bankann eða jörð sína. En það nær engri átt að leggja öll óhöpp af illri stjórn Eimskipafjelagsins á bæinn. Reykjavíkurbær hefir sýnt það, að hann vill fjelaginu vel, enda hefir hann gert því betur til en nokkrum öðrum hjer í bænum. Þannig ljet bærinn fjelaginu í tje lóð á uppfyllingunni við höfnina, á allra besta stað, þar sem engum öðrum hefir verið seld lóð. Bærinn á því enga sök á því, þótt fjelaginu hafi gengið miður vel.

En annars vil jeg taka undir það, sem hjer hefir verið drepið á, að fjelaginu er bjarnargreiði gerður með öðrum eins ummælum og fallið hafa hjer við þessa umræðu. Það er beinlínis háskalegt að vera að tala hjer um það, hve illa fjelagið standi og hve því sje stjórnað illa. Það er alveg óvíst, að það þoli þetta illa umtal, ef það virkilega er illa statt, sem jeg vil alls ekki taka undir.

Annars gerir þetta, sem hv. þm. Ak. nú hefir sagt, það nokkuð vafasamt, hvort rjett sje að styrkja Eimskipafjelagið, ef það yrði til þess að halda uppi far- og farmgjöldum hjer við land. Það hlýtur að þurfa meira fje en þessar 20–30 þús. kr. til þess að lækka þau gjöld. Það er alls ekki víst, að fjelaginu verði það svo mikil fjeþúfa, þótt það verði undanþegið útsvari. Keppinautar þess kunna að færa sjer það í nyt til þess að ófrægja fjelagið og vekja ótrú á því með því að segja, að verið sje að undanskilja það skatti af því það sje svo illa statt. Og takist það, að vekja slíka tortrygni, þá getur það orðið til mikils fjárhagslegs tjóns fyrir fjelagið.

Þá var hv. þm. Ak. að tala um það, að þingmenn Reykjavíkur vildu hlynna sem mest að bænum, og mintist á fiskiveiðasjóðinn á því sambandi. Í því máli á hæstv. landsstjórn þá sönnu sök, að bærinn fjekk lán af þeim sjóði. Fyrst og fremst núverandi hæstv. forsrh. (JM), sem hv. þm. (BL) styður, og sömuleiðis hæstv. atvrh. (MG). Hv. þm. Ak. ætti því að beina ásökunum sínum í þessu efni til þeirra, en ekki að þm. Reykv.

Loks taldi hv. þm. þetta svo mikið sanngirnismál. Jeg sje nú ekki sanngirnina í því að taka einn gjaldanda út úr og undanskilja hann rjettmætum skatti. Það er a. m. k. ekki sanngjarnt gagnvart bæjarfjélaginu. Það er vitanlega rangt hjá honum, að samvinnufjelögin sjeu skattfrjáls.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) sagði, að sjer hefði komið ræða mín á óvart, og hann hefði heldur kosið, að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefði flutt slíka ræðu. En hafi honum komið mín ræða á óvart, þá var jeg ekki síður undrandi, er jeg heyrði ræðu sjálfs hans; einkum þó, er hann fór að tala um samvinnufjelögin. Ef hann vill nú fara að nota sömu rökin og hv. þm. Ak., þá fæ jeg ekki betur sjeð en hann slái niður öllum þeim röksemdum, sem bæði hann og aðrir hafa fram fært fyrir því, að samvinnufjelögin skuli vera undanþegin útsvörum. Fyrirkomulag þeirra er alt annað en fyrirkomulag Eimskipafjelagsins. Menn ganga í fjelag annaðhvort til þess að kaupa nauðsynjar sínar í sameiningu eða til þess að selja afurðir sínar. Og það er viðurkent um allan heim, að um slíkan fjelagsskap skuli aðrar reglur gilda hvað álögur snertir heldur en önnur fjelög. Annars sje jeg ekki, að mjer byrji að verja samvinnulöggjöfina fyrir hv. 2. þm. Eyf. Jeg ætlast til þess, að flokksbræður hans komi fyrir hann vitinu. En þó vil jeg að lokum segja það, að það kemur ekkert ósamræmi fram hjá mjer í því, þótt jeg greiddi atkvæði með samvinnulögunum, en sje nú á móti þessu frv.

Það var eiginlega ekki annað nýtt í ræðu hv. 2. þm. Eyf. Hitt var búið að margsegja áður. Hann sagði, að með þessu frv. ætti að varna því, að Reykjavíkurbær sýndi Eimskipafjelaginu ranglæti. En hann verður fyrst að sanna það, að bærinn hafi sýnt ranglæti í álögum sínum. Nú hefi jeg sannað, að bæjarstjórn hefir sýnt fjelaginu meiri lipurð og velvild en öðrum stofnunum, bæði hvað snertir að veita því sem besta aðstöðu í bænum og á annan hátt. Skattprósentan, sem fjelagið greiðir, ca. 8,7%, er síst of hátt. Jeg hefi ekki við hendina niðurjöfnunarskrá bæjarins, en jeg veit það, að sú skattprósenta, sem jeg greiði til bæjar, er hærri en fjelaginu hefir verið gert að greiða, og eru mín laun þó smáræði hjá þeim tekjufjárhæðum, sem um að ræða hjá Eimskipafjelaginu. Jeg veit til þess, að lagt hefir verið 10% á marga einstaklinga, sem ekki hafa meiri tekjur en svo, að þeir komast sæmilega af. Svo ef leggja ætti á Eimskipafjelagið eftir sama skattstiga, þá ætti það raunar að greiða miklu meira. Þá er það líka vitanlega rjett að miða skattinn við þann ágóða, sem sýndur er á reikningi fjelagsins. Það kemur ekkert málinu við, hvað hluthafafundur gerir við þann ágóða. Eftir aðalfund er ágóðinn enginn; þá er búið að ráðstafa honum á ýmsa lund. Hv. þm. Ak. er þá búinn að fá sína vexti. Hitt hefir gengið til þess að mæta verðrýrnun eða verið fært yfir á næsta ár, og ekkert er þá eftir. Svo ef þannig væri farið að, fengi ríkið ekki neitt í sína skatta hjá hlutafjelögum.

Jeg hefi nú svarað, að jeg held, öllu því, sem fram hefir komið og máli skiftir. Um rekstur fjelagsins og stjórn geta hv. þm. talað á aðalfundi fjelagsins og fundið að skyssum stjórnarinnar við bana sjálfa. Reykjavíkurbær á þar enga sök.