16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Björn Líndal:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) fanst það einkennilegt, að jeg skyldi nota tækifærið til þess lítillega að áminna stjórn Eimskipafjelags Íslands. Það er líklega af því, hve ógjarnt honum er sjálfum að halda sjer við efnið, að honum finst þetta óviðeigandi. En auðvitað er ástæðulaust fyrir hann að segja þetta. Að mínum dómi er hagur fjelagsins nú svona bágborinn fyrst og fremst sakir þess, að því hefir ekki verið hyggilega stjórnað. Og Reykjavík hefir sjerstaklega hagnast á einu versta glappaskotinu, sem stjórnin hefir gert. Það er húsbyggingin hjer í Reykjavík.

Hvað snertir traust á mönnum, þá ber þess að gæta, að enginn er jafnvígur til allra verka. Jeg get treyst manni fullkomlega til þess að hafa á hendi fjármálastjórn ríkisins, þótt hann sje ekki mjög vel til þess fallinn að stjórna gufuskipafjelagi. Þannig treysti jeg háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) manna best til þess að standa fyrir brauðgerð. En manna verst treysti jeg honum til þess að fara með vandamál þjóðarinnar á Alþingi. Hvað snertir vexti af hlutafje fjelagsins, þá þykir mjer sanngjarnara, að jeg fái vextina af mínum hlutum í minn vasa heldur en þeir renni til hv. 2. þm. Reykv.

Það er líka einkennileg kredda, að ekki megi tala um hag fjelagsins. Reikningar þess liggja fyrir prentaðir, og hefir aldrei verið farið í neina launkofa með þá, svo það er engin ástæða til þess að þegja um þá. En jeg skil mætavel afstöðu hv. 2. þm. Reykv. Hann mun vera riðinn við fjelagsskap, sem ógjarnan má tala margt um. (JBald: Hvaða fjelagsskapur er það?). Jeg get til dæmis nefnt kaupfjelög hjer í bænum.

Hvað viðvíkur sanngirninni, þá stend jeg enn við það, að fjelagið hefir ekki grætt svo mikið undanfarið, að það hafi verið sanngjarnt að leggja á það útsvar. Gróði þess hefir verið pappírsgróði. Fjárhagur þess nú sýnir best, hve mikill hann hefir verið í raun og veru. Hjer er lagður á tvöfaldur skattur. Við, sem eigum hluti í Eimskipafjelaginu, borgum af þeim eignarskatt. Og svo er lagt á þá hjer, þótt þeir sjeu raunar ekki annað en pappír, sem gefur Reykjavík einni tekjur. Annars þætti mjer gaman að heyra, hvað háttv. 2. þm. Reykv. mundi segja, ef jeg eða aðrir kæmu með frv. um það, að leggja mætti útsvar á Eimskipafjelagið á öllum höfnum. En jeg verð að segja það, að ef gera á Eimskipafjelagið að mjólkurkú fyrir Reykjavík, þá er það full sanngirniskrafa, að mitt kjördæmi fái líka hæfilegan sopa af þeirri mjólk. Akureyri hefir ekkert síður lagt af mörkum til stofnunar Eimskipafjelagsins heldur en Reykjavík, í hlutfalli við fólksfjölda. Og þar eru líka greidd miklu lægri hafnar- og bryggjugjöld en hjer.

Annars þýðir ekki að tala frekar um þetta. Það má þrátta um það endalaust, hvort útsvar sje sanngjarnt eða ekki. En það er altaf ósanngjarnt, að mínum dómi, þegar svo illa er ástatt sem hjer. Og ekki síst þegar þess er gætt, að sú upphæð, sem Reykjavík hefir tekið af fjelaginu í aukaútsvörum, gæti jafnað, eða a. m. k. lagað, halla fjelagsins. En sú upphæð mun nú vera 340 þús. kr.