16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg hefi leyft mjer að bera hjer fram brtt., sem er í því fólgin, að reyna að fleyta Eimskipafjelaginu yfir þessi örðugleikaár með því að gefa því gjaldfrest á útsvörum þess. Jeg hefi hugsað mjer þetta þann hátt, að fjelagið gefi út á gjalddaga skuldabrjef með 6% vöxtum, er nánar sje ákveðið um, hvenær verði leyst inn.

Til dæmis eru lagðar 5000 kr. á fjelagið þetta ár, og ef það skiftist niður á 10 ár, verður það tiltölulega mjög lítil fjárhæð, sem fjelagið þarf að greiða á hverju ári. Fjelagið fær þannig gjaldfrest þau árin, sem búist er við, að því muni verða erfiðust. Hygg jeg, að hv. þm., sem nú hafa fengið brtt. mínar, muni þegar geta áttað sig á því, að þær benda á miklu sanngjarnari leið heldur en þá, að takmarka útsvarsálagninguna eða kippa henni burt með öllu. Eimskipafjelagið fær þann frest, sem það þarf, en bæjarsjóður Reykjavíkur missir einskis í.

Í brtt. er jafnframt ákveðið, að fjelaginu sje heimilt að greiða útsvar sitt á þennan hátt, og er það því ekki skylt að gera það. Fjelagið gæti þá eftir vild greitt útsvarið á venjulegum gjalddaga eða neytt þessarar heimildar.

Þá er á sama þskj. varatill., sem er svipaðs eðlis. Hún er á þá leið, að á árunum 1925–1928, að þeim báðum meðtöldum, skuli Eimskipafjelaginu heimilt að greiða aukaútsvar sitt til bæjarsjóðs Reykjavíkur með hlutabrjefum fjelagsins. Ennfremur er þar ákveðið, að bæjarsjóði skuli skylt að taka við hlutabrjefunum með nafnverði.

Ef aðaltillagan verður samþykt, er fjelaginu sett í sjálfsvald, hvort það notar rjett sinn til þess að fá greiðslufrest á útsvarinu eða greiðir það í gjalddaga, en verði varatillagan samþykt, liggur það undir aðalfund fjelagsins, hvort arður er greiddur af hlutafjenu, svo að sú tillaga er öllu aðgengilegri fyrir fjelagið. Aðaltillagan tryggir bæjarsjóði hæfilegt útsvar, þó að hann fái það ekki greitt strax, heldur hafi á vöxtum um nokkur ár.

Jeg vænti þess, að hv. deild geti gengið að annarihvorri brtt.