16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Sigurjón Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um, að sjerstök ástæða væri til að gagnrýna þau frv., sem fjölda þm. væri smalað saman utan um. Jeg veit ekki, til hverra hann talaði þetta, en hjer kemur fram sem oftar, að hv. þm. þykist einn vita og einn vera á rjettri leið. Mjer er ekki ljóst, hverjir eiga þá sneið, að þeir hafi látið ginna sig til þess að fylgja frv. í upphafi.

Jeg skal leyfa mjer að minna á, að það var ekki rjett farið með, er hv. þm. sagði við 2. umr., að útsvar fjelagsins hefði verið að meðaltali 8,7% af gróða þess. Þetta er rangt, eins og sýnt var fram á við 2. umr., því að það verður ekki talið hreinn gróði, sem er hreinn rekstrarafgangur, meðan ekki er dregið frá fyrir fyrningu skipa og annara eigna. Það verður að gera fyrst, áður en talað er um hagnað af rekstrinum, þó að ekki sje tekið tillit til vaxta af því fje, sem fjelagið hefir með höndum og starfar fyrir.