01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Kjartansson:

Jeg verð að fara nokkrum orðum um eina brtt. á þskj. 261, um sjúkraskýli og læknabústaði, sem jeg ásamt öðrum hv. þdm. hefi leyft mjer að flytja. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa komið fram 6 beiðnir um styrk til sjúkraskýla, og hefir hv. fjvn. aðeins mælt með styrk til eins. Jeg veit að hv. þdm. áttu erfitt með að gera upp á milli þessara beiðna, enda er það vonlegt. Nú er það sýnt, að ómögulegt verður að veita fullan styrk til þeirra allra, en eitthvað mun þó ríkissjóður verða að leggja hjer af mörkum. Jeg mæltist þess vegna til þess við 2. umr. við hv. fjvn., að hún sæi sjer fært að taka till. sína út af dagskrá, með því að þeir þdm., sem höfðu brtt. í sömu átt, gerðu það sama. Ætlun mín og annara hv. þdm. var svo að koma með brtt. um eina heildarupphæð við 3. umr., sem þannig skyldi verja, að fleirum en einu læknishjeraði væri gefinn kostur á að koma upp hjá sjer skýlum. En þetta náði ekki fram að ganga. Till. komu til atkv. og voru þær ýmist feldar eða teknar aftur.

Nú veit jeg, að öllum hv. deildarmönnum er það ljóst, að það er brýn nauðsyn fyrir þessi læknishjeruð að geta sem fyrst komið upp sjúkraskýlum, og því hefi jeg og 3 aðrir af hv. deildarmönnum borið fram þessa brtt. á þskj. 261, um 20 þús. kr. styrk til sjúkraskýla. Ætlumst við flm. til þess, að stjórnin úthluti styrk þessum til þeirra læknishjeraða, sem þörfin, að dómi heilbrigðisstjórnarinnar, er brýnust, og undirbúningur í hjeraði hinsvegar fullnægjandi. Það er og jafnframt ætlun okkar, að styrknum til hvers sjúkraskýlis verði skift niður á 2–3 ár, þannig að hvert um sig hafi eftir þann tíma fengið þann styrk, sem venja er að veita, — það er 1/3 kostnaðar.

Með þessu er þeim læknishjeruðum, sem brýnust er nauðsyn á sjúkraskýlum, gert mögulegt að koma þeim upp, ef þau eru fær um að kljúfa þá fjárhagsörðugleika, sem því fylgja, að þau fá ekki allan styrkinn strax. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vona, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja það.

Jeg á ekki aðrar brtt. hjer, en út af styrknum til íslenskra stúdenta, sem nám stunda erlendis, vildi jeg beina þeim tilmælum til hæstv. stjórnar, að hún hreyfi því við íslensku lögjafnaðarnefndarmennina næst er nefndin kemur saman, að þeir fari þess á leit við Dani, hvort þeir muni ekki vera fáanlegir til að veita úr sáttmálasjóði þeirra nokkurn námsstyrk íslenskum stúdentum þeim, sem nám stunda erlendis eða við Kaupmannahafnarháskóla. Mjer er vel kunnugt um, að hagur þessara stúdenta er mjög bágborinn. Jeg geri varla ráð fyrir því, að fjárveiting þaðan mundi ná út fyrir Hafnarháskóla, en það gerir ekkert til. Jeg er viss um, að margir góðir Íslendingar eiga eftir að stunda nám við Hafnarháskóla, eins og að undanförnu. Jeg veit til þess, að í hinum nýja stúdentagarði í Höfn var ætlast til þess, að eitt herbergið væri handa íslenskum stúdent. Og jeg veit, að þeim, sem þar eiga að ráða, er ljúft að styrkja íslenska stúdenta áfram.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að styrk til flóabáta. Mjer virðist kenna ósamræmis í þessu máli hjá samgmn., og jafnvel fjvn., þó jeg vilji ekki ásaka hana, heldur aðallega samgmn., fyrir það, hvernig fer með styrk þennan. Jeg minnist þess, að jeg hefi lesið umr. um það frá síðasta þingi, þegar verið var að jafna niður styrk til strandferða og flóabáta. Samgmn. var þá í vafa, hvernig ætti að úthluta styrknum, því menn bjuggust við, að alt fyrirkomulagið mundi breytast þegar Esja kæmi og tæki við strandferðunum. Bjóst nefndin við því, að 75 þús. kr. veiting, sem var sett í fjárlagafrv. til flóabáta, mundi reynast of lág, en reynslan yrði að skera úr því, að hverjum notum Esja kæmi í þessu efni, því þá var svo til ætlast, að Esja tæki allar smáhafnir, svo sem hægt væri, en flóabátastyrkurinn fjelli þar niður. — Nú virðist svo sem hv. fjvn. taki vel í það að hækka styrkinn til Esju. Jeg hefi ekkert við það að athuga, því jeg er sannfærður um, að sú áætlun, að hún skuli fá einar 100 þús. kr., nær ekki nokkurri átt. — En ef þingið sjer sjer fært að styrkja strandferðaskipið Esju — því þá ekki að styrkja aðra strandferðabáta, svo þeir sjái sjer fært að halda áfram? Jeg get sagt það um bátinn Skaftfelling, sem jeg ber helst fyrir brjósti, að stjórn hans sjer sjer alls ekki fært að halda þeim ferðum uppi, sem hann hefir að undanförnu annast, með þeim styrk, sem honum er nú ætlaður af samgöngumálanefnd. Þessi bátur hefir áður haft 18500 kr. og auk þess hafa 2 þús. krónur verið veittar sjerstaklega til flutninga á Rangársand. En nú á báturinn ekki að fá nema 12500 kr. og hafa svo að auki ferðirnar á Rangársand án sjerstakrar borgunar. Nú er það vitanlegt, að það svæði, sem Skaftfellingur á að sigla til, eru hafnlausir sandar, og verður oft að bíða vikum saman eftir leiði upp að söndunum. Það stendur því alveg sjerstaklega á um þennan bát. Það er ómögulegt að fækka ferðunum, því flutningakrafan er eðlilega afarmikil. Og það er ómögulegt að ætlast til þess, að báturinn taki að sjer aukaferðir á Rangársand, þegar styrkurinn er um leið lækkaður nærri um helming.

Jeg veit ekki hvernig samgmn. ætti að fara að því að gera till. um úthlutun á styrk til flóabáta, þar sem fjárveitingin er ekki nema nál. 20 þús. kr., enda hefir hún ekki sjeð sjer það fært ennþá. Jeg býst við, að hún sendi málið frá sjer til hæstv. stjórnar. En jeg skil ekkert í því, að samgmn. og eins hæstv. atvrh. skuli ekki hafa komið hjer með róttækar brtt. Það er bersýnilegt, að þessar ferðir hljóta að leggjast niður, ef ekki fæst meiri styrkur til þeirra. Jeg vona, að til þess þurfi ekki að koma. Það yrði mjög bagalegt fyrir báðar Skaftafellssýslur og nokkurn hluta Rangárvallasýslu. — Viðvíkjandi athugasemd háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um Skaftfelling og ferðir hans á Rangársand, vil jeg taka það fram, að það hefir verið venja, að ef hann hefir ekki getað skilað flutningnum á ákvörðunarstað, en orðið að losa í Vestmannaeyjum, þá er það föst venja, að hann flytur hann síðar endurgjaldslaust á áætlunarstað. Meira að segja hefir Skaftfellingur orðið að kosta aukagjald við uppskipun og geymslu og útskipun aftur á þessum vörum. Jeg hefi sjerstaklega gert þetta atriði að umtalsefni, svo þdm. skilji, hve hjer stendur sjerstaklega á og hver nauðsyn sje á því, að þessum ferðum verði haldið áfram.

Áður en jeg lýk máli mínu, vil jeg fara örfáum orðum um 2 brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef) við 18. gr. Jeg finn sjerstaka ástæðu til þess að minnast á þessar tillögur, vegna þess að þessi hv. þm. (HStef) talaði um þær með sjerstakri röggsemi. Og röggsemin er í því fólgin, að taka dýrtíðaruppbót af fátækum ekkjum. Þessi hv. þm. hefir sýnt mikla röggsemi í því fyrst og fremst að flytja þessar till. og með því að leggja sjerstaklega áherslu á þær, svo að hann krefst nafnakalls við atkvæðagreiðsluna. Mjer virðist hv. þm. of harðbrjósta með þessum till. sínum, þar sem hjer er um örsmáar upphæðir að ræða, mest til fátækra ekkna. Nafnakallið vona jeg, að enginn hv. þdm. óttist, þegar kemur til atkvæðagreiðslunnar.

Annars furðar mig dálítið á framkomu þessa hv. þm., þegar hún er borin saman við framkomu hans í öðru máli. Frv. kom fram um lækkun þingfararkaups alþingismanna, og frv. þetta hefir nú verið afgreitt frá fjárhagsnefnd, sem þessi hv. þm. á sæti í. Það virðist ekki vera hægt að skilja nál. það, sem hann hefir skrifað undir, öðruvísi en að hann telji ekki hægt að afnema dýrtíðaruppbótina þar, nema jafnframt að hækka fastakaupið. Ennfremur sá þessi sami hv. þm. sjer ekki fært þar að setja hámark á ferðakostnað, er þingmenn fengju greiddan úr ríkissjóði. Nú vill hann taka dýrtíðaruppbótina af þessum fátæku einstæðingum, og þar með lækka þeirra lágu laun. Þetta er ekki rjett vel samrýmanlegt. Rjettara hefði verið að taka ákveðna liði í 18. gr., en ekki láta ná til allra, síst til ekknanna. Og jeg vorkenni þessum hv. þm. (HStef) fyrir að hafa flutt slíka tillögu, þó hann hinsvegar hafi ekki sjeð sjer fært að takmarka ferðakostnað sinn og annara hv. alþingismanna. — Jeg vona, að hv. deild fylgi ekki þessari till. og hiki ekki við nafnakallið, en segi nei.