01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1925

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi ekki tafið þessar umræður um fjárlögin og mun ekki heldur gera það nú. Jeg hefi ekki heldur borið fram neinar fjárbeiðnir fyrir mitt kjördæmi. Ekki þó svo að skilja, að þar sje ekki þörf fyrir fje til umbóta, heldur er mjer það ljóst, að fjárhagur ríkisins leyfir slíkt ekki.

En þrátt fyrir þetta get jeg ekki setið þegjandi hjá, þegar jeg get ekki betur sjeð en að mínu kjördæmi sje sýnt ranglæti, og síst þegar það er sá hluti þess, er fyrir slíku verður, sem síst má við því. Í áliti samgmn. á þskj. 240, þar sem nefndin gerir till. um, hvernig skift skuli styrk til flóabáta, þá er ekki nefndur styrkur til ferða til Grímseyjar, sem þó hefir áður verið veittur. Nú vil jeg spyrja hv. samgmn., hvort það sje meining hennar, að þessi styrkur skuli falla niður. Ennfremur vil jeg spyrja hæstv. atvrh. (MG), hvort hann búist ekki við að veita þennan styrk á yfirstandandi ári af fje því, sem veitt er til flóabáta, og sömuleiðis árið 1925. Því jeg skil svo till. samgmn., að þær sjeu aðeins bendingar til hæstv. stjórnar, en bindi hana ekki. Það er komið undir svörum hæstv. atvrh., hvort gerð verður tilraun til þess að fá þennan styrk hækkaðan í Ed., með tilliti til þess, sem jeg hefi nú talað um, því hjeðan af er það of seint hjer í deildinni að koma með brtt. til þess að fá styrkinn til flóabáta hækkaðan. Í tilefni af þessu vil jeg gefa þá skýringu, að þeim mönnum, sem búa í Grímsey, er bráðnauðsynlegt að hafa þessar ferðir. Þær eru eiginlega eina sambandið, sem þeir hafa við umheiminn. Og þessar ferðir, þó ekki sjeu margar, verða þeir að hafa vegna staðhátta og sjerstakra kringumstæðna á vissum tímum, í júní og september.

Póstbáturinn, sem gengur um Eyjafjörð og kostaður er af póstsjóði, með því hann kemur í stað landpóstanna, sem áður gengu út með firðinum, getur ekki komið í stað flóabáts, enda ekki ætlaður til þess. Sú upphæð, sem mundi þurfa til þess að halda uppi þessum nauðsynlegu ferðum í júní og september — 2 í júní og 2 í september — er ekki há. Eftir bestu heimildum verð jeg að telja, að kannske mætti komast af með 800 kr. í þessu skyni. Og þegar þess er gætt, hvað lífsbaráttan þarna norður í íshafinu hlýtur að vera erfið þessum mönnum, þá get jeg ekki annað skilið en þessi málaleitun fái góðar undirtektir, þó ekki verði sjeð, að hv. samgmn. hafi ætlast til þess, að það fengi framgang. Jeg mun svo ekki tala meir um þetta atriði fyr en jeg hefi fengið svör hæstv. atvrh.

En úr því að jeg hefi kvatt mjer hljóðs, þá vil jeg minnast á eina brtt. á þskj. 261, sem jeg flyt ásamt hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), þar sem farið er fram á 2500 kr. til lækninga á fjárkláða. Hv. 1. þm. S,- M. (SvÓ) taldi allar fjárveitingar í þessu skyni óþarfar og nóg að líta eftir hinum lögskipuðu þrifaböðunum. Jeg get ekki fallist á þetta. En jeg held, að reynslan hafi sýnt, að ekki þurfi stórfje til þess að halda fjárkláðanum í skefjum, og til þess hygg jeg, að þessi upphæð nægi. 20 þús. kr. er langt of mikið, nema ef gera ætti einhverjar miklu víðtækari ráðstafanir en áður hafa verið gerðar.

Um till. annara hv. þdm. skal jeg ekki tala, og heldur ekki um frv. í heild sinni eins og það liggur nú fyrir. Þó vil jeg víkja að einu atriði frá almennu sjónarmiði. Hjer liggja fyrir beiðnir frá þrem hreppum um lán og jafnvel styrki til þess að standast sveitarþyngsli, sem á þeim hvíla. Í fyrra fjekk einn hreppur slíkt lán, en nú koma þrír og biðja um það sama. Jeg ætla ekki að fara langt út í þetta mál, en jeg held, að mjer sje óhætt að segja það, að fari þingið út á þá braut, að ábyrgjast fjárhæðir fyrir hina og þessa hreppa, til þess að standast sveitarþyngsli, þá verða það ekki 3 hreppar næsta ár, sem fara fram á slíkt, heldur 30. Jeg hefi orðið var við það, að þau sveitarfjelög eru mörg, sem ekki finst þau geta risið undir fátækraframfærslunni. Ráðin til þess að bæta úr þessu held jeg, að sjeu ekki þau, að ríkið fari að ganga í ábyrgðir. Álít jeg, að til þurfi öruggari ráð. Og að því mun reka, að ekki sje annað fært en taka til rækilegrar athugunar fátækralögin í heild sinni. En eins og jeg hefi sagt, held jeg, að varasamt sje að sinna kröfum hreppanna, því að áður en varir er lítill snjókökkur orðinn að flóði. Vildi jeg biðja hv. þm. að athuga það. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) spurði að því, hvað fyrir lægi, þegar hrepparnir hefðu mist alt sitt gjaldþol. Þegar svo er komið, er ástandið orðið ískyggilegt. En þó held jeg, að fyrst liggi fyrir, lögum samkvæmt, að hrepparnir leiti hver til sinnar sýslu. Sjeu svo sýslufjelögin það illa stödd, að þau geti ekki hjálpað, þá er auðvitað ekki um annað að gera en leita til ríkisins; en fyrst er sýslufjelagið.

Jeg fer svo mörgum orðum um þetta, af því að jeg þekki nokkuð til hættunnar. Jeg veit um sveitarfjelög, sem hafa verið komin á fremsta hlunn með að biðjast hjálpar. Og enginn þarf að hugsa til, að hjer verði staðar numið. Að fleiri koma á eftir, er eins víst og að 2 og 2 eru 4. Og hvernig á þá að gera upp á milli um það, hverjum á að synja og hverjum ekki? Alt öðru máli er að gegna, þó að ríkið gangi í ábyrgðir fyrir sveitarfjelög fyrir upphæðum, sem verja á til þarflegra og arðvænlegra fyrirtækja. Jeg sje ekkert sjerstakt á móti því, ef vel er um það búið.