11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Frsm. (Magnús Jónsson):

„Ekki veldur sá, er varar“, má segja um hæstv. fjrh. (JÞ). En jeg get látið hann og aðra hv. þm. vita, að jeg hefi fyrir hönd nefndarinnar leitað upplýsinga um þetta mál hjá tveimur af bestu lögfræðingum þessa bæjar. Töldu þeir á þessu alls enga örðugleika. Annars hefi jeg ekkert við það að athuga, að nefndin haldi áfram að leita sjer upplýsinga til 2. umr. En eins og jeg hefi sagt, töldu þessir lögfræðingar ekkert á móti því, að þessi erlendu fjelög yrðu gerð útsvarsskyld. Má t. d. benda á það, að fjelög eins og þau, sem Trolle & Rothe eru umboðsmenn fyrir, þurfa ekkert útsvar að gjalda, en innlent fjelag, sem ekki fer með peningana út úr landinu, verður að gjalda mikið fje í bæjarsjóð. Um það, að ástæða sje til að ætla, að fjelögin hækki iðgjöld sín, sje jeg ekki, að menn þurfi að vera hræddir, þar sem útsvörin verða auðvitað lögð á með fullri sanngirni. Standi fjelag höllum fæti, verður útsvarið auðvitað minna en ef rekstur þess er í blóma. Annars hefi jeg ekkert á móti því, að borgarstjóri segi álit sitt um málið, en mjer finst þó rjett að tefja það sem allra minst að unt er. Get jeg ekki sjeð, að bæjarsjóður sje svo vel stæður, að hann hafi ástæðu til að slá hendinni á móti tekjum, sem bygðar eru á fullri sanngirni og með tilliti til venju þeirrar, sem er ríkjandi um skattstofna bæjar- og sveitarfjelaga.