15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Ágúst Flygenring:

. Það stendur í greinargerðinni fyrir þessu frv., og er auk þess öllum vitanlegt, að þetta frv. er borið fram samkvæmt ósk Sjóvátryggingarfjelags Íslands, sem greiðir allhátt útsvar í bæjarsjóð, en hin fjelögin, keppinautar þess, eru laus við þessa kvöð. En þó að þetta frv. verði nú samþykt, er óvíst, að það bæti í nokkru hag Sjóvátryggingarfjelags Íslands. Verstu keppinautar þess eru ensk fjelög, sem hafa samstarf mikið sín á milli um tryggingar allar á fiskiveiðaflota Breta, en hjá þessum ensku vátryggingarfjelögum er og togaraflotinn íslenski endurtrygður. Þetta eru að vísu keppinautar íslenska fjelagsins og næst alls ekki til þeirra að því er útsvarsálagningu snertir, en auk þess er íslenska fjelagið í viðskiftum við þá um endurtryggingar. Íslenska fjelagið starfar á líkum grundvelli og samvinnufjelög að því er endurtryggingar snertir, en þeir, sem endurtrygt er hjá, eru öflugar erlendar bankastofnanir. Auk þessa eru hjer mörg önnur erlend fjelög, sem starfa hjer án þess að hafa hjer umboðsmenn og taka allar endurtryggingar íslenska fjelagsins; því þó að Sjóvátryggingarfjelag Íslands sje alinnlent fjelag, getur það ekki tekið á sig sjálft nema lítinn hluta af áhættunni við vátryggingarnar, en það mun alls ekki vera hægt að ná í neitt af þessum fjelögum til að leggja á þau útsvar. Þá efast jeg og um, að hægt sje t. d. að ná í þau fjelög, 4 eða 5, sem Trolle & Rothe eru umboðsmenn fyrir. Þau neita því, að þau hafi hjer umboðsmenn, en þau endurtryggja hjer öll, auk þess sem þau starfa og sem brunabótafjelög, sum af þeim. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir og bent á það, að ef lögð yrðu há útsvör á starfandi brunabótafjelög hjer, mundi það koma hart niður á okkur sjálfum í hækkuðum iðgjöldum. Fjelagið Danske Lloyd hefir hjer búsettan umboðsmann, og mætti því að vísu ná til þess, en öll hin fjelögin, sem jeg hefi nefnt, starfa hjer bak við tjöldin. Frv. þetta nær því alls ekki tilgangi sínum; það nær ekki til þeirra, sem helst skyldi ná í, og er því hætta á, að það yrði misrjetti úr, ef það yrði samþykt.