15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg tók í fyrri ræðu minni fram flest af því, sem þörf var á, og greiddi úr ýmsum atriðum, sem vafi hafði helst leikið á um. En út af þeim umræðum, sem síðan hafa orðið, finn jeg ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir.

Það mun rjett, sem háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) sagði, að með þessu frv. yrði varla náð til allra, sem þörf væri á, en svo er jafnan með löggjöf sem þessa, að hún verður tæpast gerð svo úr garði, að einhverjir geti ekki smogið úr greipum hennar, og má vel vera, að með leppmensku og öðrum slíkum brögðum geti einhverjir komið sjer undan að greiða það, sem þeim ber að gjalda. Sýnir það, að löggjöfin er ekki nógu sterk. En þó sú yrði raunin á, þá er þó enginn vafi á því, að mikill fengur yrði að þessari löggjöf. Nú er það svo, að vátryggingarstarfsemin er stórt og mikið kerfi. Sjóvátryggingarfjelag Íslands verður t. d. að endurtryggja hjá erlendum fjelögum, svo nokkur hluti iðgjaldanna rennur út úr landinu, en nokkuð jafnar það sig upp með iðgjöldum erlendra fjelaga, sem endurtryggja hjá því, En þessi endurtryggingarstarfsemi er alstaðar skattfrjáls. Á hinn bóginn er enginn efi á því, að það var mjög þarft að stofna Sjóvátryggingarfjelag Íslands, eins og það var t. d. að sínu leyti þarft að stofna Eimskipafjelag Íslands. Og öll slík viðleitni, sem miðar að því að ná sem mestu af slíkri starfsemi úr höndum útlendinga á innlendar hendur, er fyllilega þess verð, að að henni sje hlynt.

Hv. sami þm. gat þess líka, að t. d. Trolle & Rothe myndu neita því, að þeir hefðu umboðsmenn hjer. En hjer er ekki um nema tvent að velja, að fjelagið sje innlent, og er þá ekkert hægra en að ná til þess, eða það hafi löggilta umboðsmenn, sem þá er skilyrði fyrir, að það megi starfa hjer, samkv. lögum 1913. Þetta haggar því ekki neitt, sem frv. flytur, að leggja skatt á aðalumboð þeirra.

Þá hefir hæstv. fjrh. ekki ennþá getað sannfærst, þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir viturra manna og fróðra á þessu sviði. Og þó jeg sjálfur hafi kannske ekki mikið vit á þessum málum, eins og mjer virtist hann vera að gefa í skyn, þá hefi jeg þó ráðfært mig og borið mig saman við menn, sem mikla þekkingu hafa á þessum efnum, svo jeg gat hugsað, að álit þeirra mundi nema burtu helstu efasemdirnar, sem hann gengur með. Hjelt jeg ekki, að hann færi að fjandskapast við málið, heldur hitt, að hann hugsaði sem svo, að ekki veldur sá er varar, eins og hann líka tók fram. En ummæli hans hafa einmitt gefið mjer ástæðu til að rannsaka þetta mál ítarlegar en ella, og við það hefi jeg ennþá betur sannfærst um það, að í alla staði sje rjett til þess stofnað.

Hæstv. fjrh. las upp brjef frá borgarstjóra Reykjavíkur. Vel má vera, að það hafi verið af brögðum gert, að bera mál þetta undir hann. Eins og kunnugt er, hefir borgarstjórinn undanfarið staðið í samningum við erlend vátryggingarfjelög, en undir slíkum kringumstæðum verða menn allra hræddastir og halda gjarnan að alt, sem gert er, verði til þess að spilla fyrir samningum þeirra. Hæstv. fjrh. sagði líka, að svarið hefði orðið alveg eins og hann hefði búist við. Annars leikur mjer ekki neinn hugur á að fara frekar út í þetta brjef; þrátt fyrir skörulegan lestur hæstv. ráðherra, þá held jeg, að enginn hafi getað komið auga á neitt í því, sem afsannaði það, sem jeg hefi sagt. Hinsvegar lýsti það helst einhverjum huldum ótta, eins og þar sem t. d. er talað um „ótakmarkaða útsvarsskyldu“ þessara erlendu fjelaga, sem leiði til þess, að iðgjöldin hækki. Það gæti hugsast, að ef svo færi, að fjelögunum væri sýnd stórkostleg ósanngirni, þá myndu þau kvarta. En jeg hefi alveg nýlega talað við mann, sem hefir á hendi umboð nokkurra erlendra vátryggingarfjelaga, og hann var ekki neitt hræddur við slíkar afleiðingar. Og þar sem þessi er venjan erlendis, þá verður varla sagt, að við sýnum neina sjerstaka óbilgirni, og meðan við göngum ekki lengra, þá má telja víst, að nóg fjelög sjeu til, sem myndu tilbúin til að taka upp þennan atvinnurekstur. — Sannleikurinn er sá, að við höfum í þessu efni verið alveg óþarflega eftirgefanlegir í samanburði við erlendar þjóðir. Það er meira að segja víst, að giltu hjer sömu lög um þetta eins og í Danmörku, þá hefði Sameinaða gufuskipafjelagið þurft að borga útsvar hjer og Eimskipafjelag Íslands vafalaust verið látið greiða útsvar í Kaupmannahöfn, þó það hefði ekki haft útibú þar. Og hvað brjef borgarstjórans snertir, þá er þar, eins og jeg hefi áður tekið fram, ótti, en engin gögn. Og hvað iðgjaldalækkunina fyrir Reykjavík snertir, þá orsakast hún af því einu, að brunamálum bæjarins er komið í betra horf en áður var. Vátryggingarfjelögin rannsaka með vísindalegri nákvæmni, hvað mikið gjald þau þurfa að taka, og þá er eðlilegt, að eftir því, sem öryggið vex, fari gjöldin lækkandi. Svo hefir það orðið hjer. Útsvarsskyldan er því óviðkomandi.

Hitt er auðvitað mál, að það er í þágu hinna erlendu vátryggingarfjelaga, að við níðumst sem mest á okkar eigin fjelögum. En gróðinn af þessu fyrir Sjóvátryggingarfjelag Íslands yrði sá, að það stæði jafnt að vígi hinum hvað álögur þessar snertir. Það er ekki þar fyrir, að erlendu fjelögin þyrftu að hækka iðgjöldin. Afleiðingin yrði aðeins sú, að þau græddu í sama hlutfalli og okkar innlenda fjelag. Það er játað og viðurkent, að frv. þetta er borið fram eftir ósk Sjóvátryggingarfjelags Íslands; að minsta kosti get jeg trúað, að svo sje, þótt frv. sje ekki þaðan komið. En frá mínu sjónarmiði er engin goðgá í því, fremur en í því, að tekið er fyrir frv. frá Eimskipafjelagi Íslands um að leysa það undan útsvarsskyldu. Orsökin er sú, að fjelagið veit best um það sjálft, hvar skórinn kreppir.

Annars er það þýðingarlaust að vera að karpa um þetta hjer. Jeg vænti, að hv. deild sjái, að það er engin hættubraut, sem verið er hjer að leggja út á. Þess vegna hefir heldur ekki tekist að koma með neinar skynsamlegar mótbárur gegn frv., og alt umtal um ósanngirni og ásælni gegn útlendum fjelögum í þessu máli er högg út í loftið.