18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sveinn Ólafsson:

Jeg er mjög þakklátur hv. flm. frv. (MG) fyrir það, að hafa komið fram með þessa öryggisráðstöfun; hún hefði reyndar þurft að koma fram miklu fyr, enda hefði svo farið, ef nokkurn hefði dreymt um það, að sjálfur ríkissjóðurinn yrði skattlagður af Reykjavíkurbæ og gerður að mjólkurkú bæjarins. En betra er seint en aldrei að sjá við þessu. Það má ekki koma fyrir, að þetta frv. strandi, því að þá tryggingu má ekki vanta, sem í því felst. Jeg mundi reyndar vera ánægðari með frv. þetta, ef úr því væri feld 2. gr., um 5% gjald ríkisverslana í bæjarsjóð. Jeg álít, að 1. grein sje einhlít og 2. gr. megi falla niður að skaðlausu. Jeg álít, að þessi 5%, sem flm. leggur til, að greidd sjeu af ríkisverslununum í bæjarsjóð, sje aðeins tilraun til málamiðlunar, til þess að málið gangi hljóðlegar fram. En það er mín skoðun, að þetta gjald í bæjarsjóð Reykjavíkur sje alveg ófyrirsynju. Það er að vísu svo, að þessi ríkisverslun tekur að nokkru leyti gjaldstofna frá bænum, sem lagt mundi hafa verið á, svo sem tóbaksverslanir einstakra manna. En þess ber að gæta, að sala þeirra vörutegunda, sem Landsverslun hefir með höndum, mundi ekki aðeins vera í höndum bæjarmanna, ef Landsverslun vantaði, heldur í höndum manna úti um alt land, og er álögurjetturinn því ekki nema að litlu leyti tekinn frá bæjarsjóðnum.

Til samkomulags við flutningsmann og til málamiðlunar, ef málinu væri þá betur borgið, gæti jeg gengið inn á það, að örlítið gjald væri látið renna í bæjarsjóð, svo sem 1–2% af nettótekjum ársgróðans. En annars get jeg alls ekki felt mig við það, að ríkissjóður sje skattskyldaður hjer í Reykjavík eða í öðrum sveitar- og bæjarfjelögum. Mjer finst þá mega eins fara fram á það, að sjálf ríkisfjehirslan væri skattskylduð til bæjarins, fyrst hún er hjer í bænum, og sjá allir, hve fráleitt slíkt væri.

Jeg þykist hafa litið svo til, að nokkrir þm. í þessari hv. deild líti líkt á þetta mál og jeg og vilji styðja að því, að 2. gr. frv. falli burtu. En telji háttv. flm. það ósigurvænlegra, þá er rjett að leita hófanna um niðurfærslu hundraðsgjaldsins.