18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Hákon Kristófersson:

Jeg býst við, að þessu máli verði vísað til nefndar, og vildi jeg beina til hennar örfáum orðum. Jeg er háttv. flm. (MG) þakklátur fyrir að hafa flutt þetta frv., og honum sammála um stefnu þess. En jeg vildi skjóta því fram, hvort hlunnindaákvæði þau, sem í frumvarpinu felast fyrir verslunarstofnanir ríkissjóðs, mundu ekki mega ná til Eimskipafjelags Íslands, a. m. k. þau ár, sem það greiddi ekki arð af hlutafje sínu. Eimskipafjelagið er, eins og öllum er kunnugt, sameign landsmanna og ríkissjóðs, að því leyti að ríkissjóður á mikla hluti í fjelaginu. Mjer virðist því rjettmætt, að það fjelag yrði þeirra hlunninda aðnjótandi, sem gert er ráð fyrir í frv.

Þessu vildi jeg beina til væntanlegrar nefndar, henni til athugunar.