18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi ekki miklu við að bæta þessar umræður, þar eð hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir þegar tekið flest það fram, sem jeg vildi sagt hafa. Jeg skal aðeins geta þess í viðbót, að eftir því, sem jeg hefi komist næst, voru útsvör þessara stofnana, áfengisverslunarinnar og landsverslunarinnar, um 14–15% af ágóða þeirra á síðastliðnu ári, og er því hjer að ræða um gífurleg útgjöld úr ríkissjóði. Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti á það, að ef svo færi, að ríkið tæki að sjer margvíslegan atvinnurekstur, eða máske allar hinar stærri greinar atvinnuveganna, mundi svo fara, að ríkissjóður yrði að taka að sjer greiðslur allra þeirra gjalda, sem bæjar- og sveitarfjelög ella ættu að inna af hendi, og væri gjaldið til bæjarsjóðs eðlilegt. Í raun og veru má segja, eins og nú er ástatt, að ágóðinn af ríkisverslununum sje greiðslur í almennings þarfir, jafnt til þarfa allra stjetta. Svo á það líka að vera, en hitt ekki, að eitt sveitarfjelag eða bæjar taki ágóðann. Ef til þess kæmi, að ríkið tæki að sjer fleiri tegundir atvinnurekstrar, mundu kvíarnar verða færðar út að sama skapi og ríkið taka að sjer fleiri byrðar þegnanna. Reyndar skiftir engu máli, hvort tekjur ríkissjóðs eru skattar, tollar eða ágóði af verslun hans. Slíkur verslunarrekstur er í þarfir heildarinnar og á alls ekki að vera tekjulind einstakra bæja. (JakM: Máske hv. 1. þm. S.-M. ætli að koma með frv. í þá átt!). Jú, jeg veit ekki, hvað síðar kann að geta orðið um þetta mál. En eins og hv. 1. þm. Árn. hefir tekið fram, nýtur Reykjavíkurbær mikilla hlunninda af þessum stofnunum, bæði í aukinni atvinnu bæjarbúa og svo af því, að starfsmenn þessara stofnana eru skattskyldir til bæjarþarfa. Jeg vil því halda fast við það, sem jeg hefi áður sagt í þessu efni, að mjer væri geðfeldast, að 2. gr. frv. væri feld burtu; en til samkomulags og til þess að greiða götu þessa frv., vegna þess öryggis, sem það að öðru leyti hefir í sjer falið, get jeg gengið inn á einhverja lítilfjörlega greiðslu frá þessum stofnunum. Jafnvel mundi lítið hundraðsgjald muna bæinn miklu, því að eins og nú er ástatt, verður að gera ráð fyrir, að þessar stofnanir hlaupi undir baggann á næstu árum og leggi drjúgan skerf tekna í ríkissjóð, og það mun meiri en áður, enda byggist fjárhagsleg afkoma hans ekki minst á því, að svo verði. Mundi jeg þá ekki sjá eftir sem svarar 1% til bæjarþarfa af tekjum þeirra.