18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Jón Þorláksson:

Jeg sje ekki ástæðu til að lengja mjög umræðurnar í þetta sinn, en vil aðeins taka þetta fram: Það hefir komið fram sú kenning hjer í þessum umr. að því er snertir atvinnurekstur ríkisins, að ekki sje rjett að láta þessar stofnanir vera útsvarsskyldar, þar sem nægilegt sje að skattskylda starfsmenn þeirra á þeim stöðum, sem þær eru starfræktar eða þeir eiga heimili. Þetta er kenning, sem má færa ýms rök fyrir, en jeg vil aðeins leiða athygli að því, að ef það á að fara að halda þessari kenningu fram, getur hún náð til fleiri fyrirtækja en þeirra, sem rekin eru af ríkinu, ef ekki á að brjóta í bág við rjetta hugsun. Eftir þessari reglu ættu sveitarfjelögin yfir höfuð eingöngu að leggja útsvör á búsetta menn í hverju sveitarfjelagi, en stærri fyrirtæki, svo sem hlutafjelög, samvinnufjelög o. fl., væru laus við útsvörin. Þetta má rökstyðja með því, að fyrirtækin eiga ekki börn, og þurfa hvorki fátækraframfærslu nje barnafræðslu, þau slíta ekki vegunum, heldur fólkið, sem að þeim starfar, o. s. frv. En okkar sveitarstjórnarlöggjöf er ekki bygð á þessum grundvelli, heldur á hinu, að stærri fyrirtækin bera sinn hlut fyrir sveitarfjelögin fyrst, og hann ekki minstan. Það getur því engin rjett hugsun verið, sem gerir upp á milli fyrirtækjanna eftir eigendunum, — að sum beri engar eða mjög litlar skattabyrðar, af því að menn líti vel til eigenda þeirra, en önnur fá að kenna á því gagnstæða. Þetta er mjög óviðeigandi, að láta sjer detta annað eins í hug. En viðvíkjandi skoðun hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), ef mönnum finst óeðlilegt að skattskylda þessi gróðafyrirtæki ríkisins þar, sem þau starfa, stafar það frá því, að menn eru hjer komnir inn á ranga braut, — að láta ríkið keppa við borgarana í atvinnurekstri. Menn eru ekki búnir að venja sig við þá hugsun, eða afleiðingar hennar, að þegar ríkið tekur að sjer störf borgaranna, verður það að taka að sjer greiðsluskyldur þeirra líka. Það, að Reykjavíkurbær missi einskis í við þetta, er því aðeins rjett, að um leið og ríkið tekur fyrirtækin í sínar hendur, verði starfsmannahaldið aukið svo mjög, að það geti komið fram í auknum útsvörum starfsmanna til bæjarsjóðs. Þetta er sjálfsagt rjett að nokkru leyti; við þá sundurskifting verslunarinnar, sem ríkisreksturinn hefir í för með sjer, hlýtur að aukast starfsmannahald; enda mun það vera skoðun þeirra, sem álíta, að Reykjavíkurbær fái í útsvörum starfsfólksins uppbættan hallann, sem leiðir af því a missa af þessum stofnunum sem skattstofni. Hitt vil jeg taka undir, að ótækt sje að láta bæjarstjórn Reykjavíkur hafa æðsta úrskurðarvald í þessum efnum. Gefur það mjer tilefni til þess að taka það enn fram, að það var mjög óheppilegt, að hæstv. stjórn skyldi ekki sjá sjer fært að undirbúa milli þinga skaplega löggjöf um þetta efni. Jeg skal og jafnframt geta þess, að allshn. mun, ef þessu máli verður vísað til hennar, gera sitt til þess að koma einhverju lagi á þessi mál. En það er auðvitað mjög erfitt fyrir tímabundna þingnefnd að inna það verk vel af hendi á svo skömmum tíma, sem hæstv. stjórn hefir ekki treyst sjer til að koma í framkvæmd alla þá mánuði, sem eru milli þinga.