18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Jakob Möller:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) fór að tala um póst- og símamál. Það er auðvitað sjálfsagt, ef þau yrðu fengin einstökum mönnum í hendur, sem rækju þau í gróðaskyni, að þeir menn yrðu að borga skatta og gjöld af þeim rekstri. En þar með er ekki sagt, að ef þessi mál eru rekin af ríkinu, að það eigi að greiða þau gjöld, því ríkið rekur þetta ekki í gróðaskyni. Það er ekki ætlunin, að ríkissjóður hafi neinar tekjur af þessum rekstri fram yfir það, sem fer til viðhalds og eflingar rekstrarins.

Hv. sami þm. (TrÞ) lagði áherslu á það, að bærinn hefði slíkan hag af því, að þessi rekstur færi hjer fram, að hann væri vel haldinn, þótt hann yrði að láta sjer nægja að leggja aðeins útsvar á þá, sem starfa við reksturinn, en sleppa sjálfum rekstrinum. En yrði farið út á þá braut, þá yrði það býsna margt fleira, sem kæmi þar til greina. Er t. d. hægt að neita því, að bærinn hafi feiknahag af togararekstrinum hjer að því er atvinnuna snertir? En hvað ætli það yrðu því margir meðmæltir, að slept yrði að leggja útsvar á þann rekstur? Jeg er að minsta kosti hræddur um það, að slík till. fengi aldrei mikinn byr hjer í bænum, eða jafnvel hjer í hv. deild. Háttv. þm. gæti auðvitað svalað nýungagirni sinni á því að bera fram frv. þess efnis, og sjá svo, hvernig því myndi reiða af.

Þá tók hv. 1. þm. Árn. (MT) til samanburðar alþýðuskóla í sveit. Að því er það dæmi hans snertir, þá held jeg því fram, að þeir ættu ekki að vera útsvarsskyldir, ef þeir væru ekki reknir í gróðaskyni, þótt það væri af einstökum mönnum. En væru þeir aftur á móti reknir í gróðaskyni, þá ættu þeir að sjálfsögðu að vera útsvarsskyldir.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði, að það væri því aðeins rjett að leggja á þessar ríkisstofnanir, að þær væru reknar í gróðaskyni. Það er að sjálfsögðu rjett. En á því er heldur enginn vafi, að þær eru reknar í gróðaskyni, og því útsvarsskyldar. Hvort það hafi verið lagt of mikið á þær, get jeg ekki, sökum ókunnugleika, dæmt um. En jeg býst þó við því, að þessar stofnanir hafi ekki frekar ástæðu til að kvarta undan niðurjöfnunarnefndinni heldur en aðrar verslanir hjer í bænum. Hefir oft og einatt verið lagt útsvar, og það allhátt, á fyrirtæki hjer í bænum, þótt tap hafi verið á rekstrinum. En því mun þó ekki að heilsa hjer.

Jeg sagði áðan, að venjan hefði verið sú, að leggja 10% á tekjurnar, en oft og einatt á það sjer stað, að fult eins mikið er lagt á ástæðumar — það er, að framtíðarmöguleikarnir eru skattlagðir líka. Verð jeg yfirleitt að líta svo á, að ef löggjafarvaldið getur verið þekt fyrir það að láta útsvarsálagningarlögin gilda fyrir einstaklinginn, þá geti það varla staðið sig við að undanskilja ríkisstofnanir. Einhver spurði um það, hvernig Reykjavíkurbær mundi fara að, ef þessi verslunarrekstur ríkisins yrði fluttur upp í sveit! Ekkert útsvar mundi þá verða lagt á hann hjer. En til þess kemur ekki, af því að það er ekki hægt að reka hann annarsstaðar en einmitt hjer. Þess vegna er hann líka rekinn hjer. Og þess vegna á hann einmitt að vera útsvarsskyldur hjer, að hann nýtur hjer þeirra sjerstöku hlunninda, sem bærinn hefir að bjóða og hann getur ekki án verið.

Það er auðvitað rjett, að þessar tekjur renna í sameiginlegan sjóð landsmanna, sem til þess sje ætlaður að bera sameiginleg gjöld, meðal annars allan embættakostnað í Reykjavík. En það er misskilningur, að alt embættishald hjer í bænum sje bara fyrir Reykjavík. Eins og menn ættu að vita, þá er það að mestu fyrir alt landið. Svo það er engin ástæða til að krefjast þess, að Reykjavík verði hjer fyrir nokkrum sjerstökum halla af þeim sökum. — Og jeg ætla að bæta því við, að ef þannig yrði farið með Reykjavík, að sá atvinnurekstur, sem gefur bænum tekjur, verður smátt og smátt undanþeginn gjöldum til bæjarins, þá gæti svo farið, að Reykjavíkurbær yrði um síðir að leita á náðir ríkissjóðsins. Þeir menn, sem eftir yrðu, kynnu þá alveg að gefast upp með það að halda uppi starfrækslu bæjarins, og þá myndi ríkissjóður áreiðanlega vita af því, hvað hann fengi á bakið. Mjer finst yfirleitt, að mörgum hv. þm. hætti um of við því að skoða Reykjavík eins og einhvern óviðkomandi hlut landinu, og jafnvel hálffjandsamlegan hinum hlutum landsins. En þess ber vel að gæta, að hún er bara einn hluti úr heildinni, og ef svo færi, að hún gæti ekki komist af upp á eigin spýtur, þá yrðu hinir hlutar landsins að hlaupa undir bagga.