18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Magnús Torfason:

Það hefir komið fram í ræðum sumra háttv. þm., að þeir hafa misskilið mig áðan. Þungamiðjan í minni skoðun er þessi, að bærinn hafi svo mikinn og margskonar hagnað af landsstofnunum þeim, sem hjer eru reknar, að ekki væri neitt ósanngjarnt, þótt hann misti þarna lítinn spón úr askinum sínum. Og þetta er þeim mun síður ósanngjarnt, þar sem hjer er um engan einkarjett að ræða fyrir Reykjavík til þess að hafa ríkisstofnanir. Það má annars ekki bera það saman, að leggja skatt á einstaka menn og slík almannafyrirtæki sem þessi. Er og vitanlegt, að það hefir ekki verið gert, og skal jeg þar t. d. taka, að úsvarsfrjálsar eru hjer stofnanir svo sem Landsbankinn, Íslandsbanki og Stóra norræna, af því að þetta eru alt landsþrifastofnanir. Og að því er þá röksemd snertir, að þá megi ekki heldur leggja sjerstakan skatt á einstök fyrirtæki, sem rekin eru af borgurunum, vegna þess, að þar sje líka lagt á þá menn, sem starfi við þau, þá er það ekki heldur sambærilegt. Um leið og Reykjavíkurbær leggur útsvar á togarana, þá leggur hann þar á sína eigin menn. En með því að leggja á ríkisfyrirtæki, þá leggur hann skatt á alla landsmenn. Nú er það lögfest stefna, að leggja á menn þar, sem þeir eiga lögheimili. En þessar stofnanir eiga í raun rjettri lögheimili um land alt, og virðist þá ósanngjarnt að leggja á þær aðeins í einum kaupstað landsins. Auk þess hefir bærinn engar byrðar af þessum stofnunum ríkisins, en það hefir hann af togurunum, því þeim fylgir, eins og menn vita, stór ómegð.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að þm. yrðu að skoða Reykjavík sem hluta af landinu. Það er alveg rjett á litið hjá hv. þm., en af því leiðir það, að hún verður að sætta sig við að sæta sömu kjörum og aðrir hlutar landsins, og má því ekki búast við að hljóta nein einkarjettindi í þessum sökum.