07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Það er ekki rjett, að deila megi um, hvað sannlegt sje í máli þessu, því að það hefir verið sýnt svo ljóst og greinilega. En það er eins og hv. frsm. meiri hl. (JörB) tók fram, að vjer viljum ekki koma því á, að ríkisfyrirtæki greiði til sveitarsjóða, og þingsins er valdið að ákveða það. Það er eins og að berja í borðið. Það eru líka rök, ef unt er að gera mótstöðumanninn deigari með því. En annars skal jeg ekki karpa lengur um þetta.

Jeg hafði satt að segja búist við meiri andmælum frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gegn niðurstöðu minni hl., að hann skyldi víkja frá því, að þessar stofnanir væru útsvarsskyldar eftir almennum reglum. Orð hans um það voru laukrjett, og er jeg honum alveg samdóma í því efni. En annað mál er það, að til þess að reyna að leiða mál til farsælla úrslita, ganga menn oft inn á þá braut, sem næst er sannfæringu þeirra og sigurvænlegri þykir. Það, sem kom mjer til að fylgja frv. með breytingum, var það, hvernig bæjarstjórn Reykjavíkur tók í málið, þegar hún samþykti að láta sjer lynda ákveðið hundraðsgjald. Bæjarstjórn tapar að vísu einhverju fje við það, en er þá aftur laus við eilífar ákúrur fyrir að vilja fjefletta þessar stofnanir.

Jeg vil annars mótmæla því harðlega, að það komi til nokkurra mála, að niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur hafi níðst á Eimskipafjelagi Íslands. Jeg vil ennfremur halda því fram, að það sje hreinasta hjegilja í þessu sambandi, að fara nokkuð eftir því, hvort margir eða fáir eiga hlut í þessu fjelagi. Hjer er um venjulegt hlutafjelag að ræða, og annað er auðvitað ekki hægt að taka til greina. Verður því að sjálfsögðu að fara með það eftir þeim almennu reglum, sem gilda um hlutafjelög. — Annars tel jeg óþarft að blanda Eimskipafjelagi Íslands svo mjög inn í þetta mál, því hjer er ekki neitt sjerstaklega um það að ræða.

Mun jeg svo ekki segja öllu meira við þessa umræðu, en láta skeika að sköpuðu um málið.