01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, fjárlög 1925

Jakob Möller:

Því var skotið áðan að mjer, að bekkir væru hjer orðnir þunnskipaðir og að von væri á áskorun til hv. þm. Barð. (HK), um að hann flytti ræðu sína hina næstu úti í Kringlu, en hv. þm. Barð. er næstur á eftir mjer á ræðumannalistanum í kvöld. Mjer finst þetta vera skynsamlegt mjög og horfa til sparnaðar, ef tveir þm. væru látnir tala í senn, sinn á hvorum stað. Jeg á hjer annars nokkrar brtt., sem jeg flyt nú aftur í þeirri von, að hv. þm. hafi nú svalað svo blóðþorsta sínum við 2. umr., að þær fái nú í þetta sinn að sleppa framhjá niðurskurðarhnífnum.

Það er þá fyrst XIV. brtt. á þskj. 261, við 13. gr. D. III 18, uppbótin á launum talsímakvenna. Jeg hefi orðið þess var, að sumir þeir, er greiddu þessari brtt. minni atkv. við aðra umr., hafa hrokkið við, af því að jeg hefi tekið upp allóvenjulega aðferð í því að hækka nú upphæðina frá því, sem jeg hafði sett hana síðast, í stað þess að lækka hana, eins og venjulegast mun vera. En það er engin ástæða fyrir þá til þess að fælast frá því að samþykkja þetta nú, er hæstv. atvrh. (MG) hefir veitt þessu svo góð meðmæli. Við 2. umr. var því lýst yfir, að um áætlunarupphæð væri að ræða, er upphæðin var sett 10000 kr., en hefði þurft að vera 10500 kr. Var það eðlilegt, að hv. deildarmönnum þætti varhugavert að láta stjórnina hafa með öllu óbundnar hendur í því efni, hversu miklu fje skuli varið til þessa. Jeg setti nú 11 þús. kr. í till. mína, því þó að tala þessara starfsmanna sje nú ákveðin, er ekki sagt, að hún haldist óbreytt 1925, og verður þá upp á eitthvað að hlaupa, til þess að veitt verði uppbót þeim, sem við kunna að bætast. Uppbót sú, sem hjer ræðir um, er 300 kr. á ári til hverrar starfskonu, eða 25 kr. mánaðarlega. Því hefir áður verið lýst, að þetta væru lægst launuðu starfsmenn ríkisins. Laun þeirra eru 900 kr. og dýrtíðaruppbót, samtals 115 kr. á mánuði, en með þessari uppbót yrðu þau 140 kr. á mánuði, sem er það lægsta, sem ríkið getur verið þekt fyrir að bjóða. Þetta hefir verið samþykt áður í tvennum fjárlögum, og því tel jeg það hafa verið slysni, að þetta var nú felt við 2. umr. um daginn, og má vera, að það hafi valdið, að menn óttuðust áætlunarupphæðina. Þá hefir og verið komið fram með varatillögu um þetta, á þskj. 278, af ótta við, að þessi till. mín verði feld, og upphæðin færð niður í 8 þús. kr. Þetta væri hið sama og að lækka launauppbótina úr 300 kr. niður í 220–230 kr. á hverja símamey, og er það of mikil smámunasemi, sem þingið varla getur verið þekt fyrir að láta um sig spyrjast. Því að þetta munar ríkið engu, en starfsfólkið þeim mun meira.

Til vonar og vara hefi jeg komið fram með brtt. við þá till., um að hækka þennan lið úr 8000 kr., sem till. hljóðar um, og upp í 9400 kr. Nálgast það nokkuð mína upphæð. En verði mín upprunalega till. feld og brtt. mín sömuleiðis, þá lýsi jeg yfir því strax, að jeg mun þá líka greiða atkv. á móti till. um þessar 8000 kr. fjárveitingu. Vænti jeg, að hæstv. stjórn sjái þá um, að uppbótin komi samt seinna.

Þá er það iðnskólinn. Jeg á brtt. undir XVI. lið um að hækka styrkinn til hans úr 3000 kr. upp í 5000 kr. Fór svo fyrir mjer sem háttv. fjvn., sem rjeð háttv. deild til að lækka styrkinn, að jeg mundi ekki það, sem nýlega var um garð gengið. Svo er nefnilega mál með vexti, að fjelag það, sem stendur bak við þennan skóla, hefir alveg nýlega afhent ríkinu mjög veglega og dýra gjöf; og færi því illa á því og myndi verða illa sjeð, ef þingið þakkaði því gjöfina á þann hátt, að lækka styrkinn til þessa skóla. Jeg hygg því, að hv. nefnd myndi ekki hafa farið að koma með þessa lækkunartill., ef hún hefði munað eftir þessu, einkum þar sem skólinn er í alla staði styrksins maklegur. Hann miðar að því að veita iðnaðarmönnum þá mentun, sem þeim er nauðsynleg til að geta orðið sem fullkomnastir í sínum verkahring, og tel jeg víst, að það hefði mjög slæm áhrif á mentun þeirra, ef skólinn legðist niður. Vænti jeg því, að hv. deild geti fallist á till. mína. Styrkurinn er samt 1000 kr. lægri en hann hefir verið, og er þá samræmi í þeirri fjárveitingu og öðrum svipuðum greiðslum.

Næst kem jeg þá að till. minni um styrk til útgáfu lagasafns Íslands. Mælti jeg, eins og hv. þm. muna, á móti því við 2. umr., að þessi liður yrði feldur. Svo er ástatt um þetta, að bókaútgefandi Egill Guttormsson sótti um styrk til þessarar útgáfu á síðasta þingi og samdi þá um leið um kaup á útgáfurjettinum og er nú um það leyti að byrja að gefa þau út. Væri nú illa farið með þennan mann, ef þingið tæki af honum styrkinn til að halda útgáfunni áfram, eftir að hafa narrað hann til að leggja í mikinn kostnað út af henni. Auk þess er útgáfa lagasafnsins mjög nauðsynleg öllum lögfræðingum og þeim öðrum, er eitthvað fara með slík mál. Vonandi sjer háttv. deild sjer því fært að halda áfram að veita þennan litla styrk, sem hjer er farið fram á.

Undir tölulið XXVI á jeg till. um að hækka fjárveitinguna til Jóhannesar L. Jóhannssonar orðabókarhöfundar úr 4000 kr. í 6000 kr. Auk þess er hjer varatill. frá hv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem fer 500 kr. lægra. Hv. fjvn. lagði til við 2. umr. fjárlagafrv;, að styrkur þessi yrði lækkaður úr 7000 kr. niður í 4000 kr. Er mjer ekki ljóst, hvernig hún hugsar sjer þetta. Hún lætur raunar þá athugasemd fylgja, að hún ætlist til, að þessi maður leiti sjer annarar atvinnu. En er það þá tilætlun þessarar hv. nefndar, að maðurinn fái 4000 kr. laun fyrir ekkert starf? Er ekki nema fallegt um það að segja, ef sú er meiningin, og má þá að vísu telja vel farið með þennan mann í samanburði við ýmsa aðra, því hann er gamall prestur og myndi nú vera kominn nálægt því að segja af sjer, ef hann hefði verið kyrr í prestakallinu, og yrði hann þá með þessu látinn sæta betri kjörum en nokkur annar uppgjafaprestur. En jeg get ekki felt mig við þetta. Hann er ennþá mjög vel starfhæfur á þessu sviði, og þá skilst mjer, að meiri sparnaður væri í að veita honum viðunandi styrk, og krefjast þá af honum sæmilegra afreka um leið, heldur en að greiða honum 4000 kr. fyrir ekkert starf.

Þá kem jeg að fjórðu till. minni á sama þskj., um að veita dr. Helga Jónssyni 1200 kr. styrk til að halda áfram rannsóknum á gróðri landsins. Hefir honum á undanförnum árum verið veittur nokkur styrkur í þessu skyni, en hv. fjvn. þótti viðeigandi að leggja til, að hann yrði feldur niður. En rannsóknir þessar hafa ekki aðeins vísindalega þýðingu, heldur ættu þær einnig að geta haft í för með sjer talsverða „praktiska“ þýðingu, þar sem þær snerta mjög skilyrði landsins fyrir búskap. Hygg jeg því, að það væri mjög misráðið, ef hætt yrði að veita þennan styrk. Jeg hefi líka sett styrkinn nokkru lægri en hann hefir verið áður, og er þannig haldið samræminu við aðrar till. hv. fjvn. um að klípa utan af útgjaldaliðunum.

Fjárveitinguna til veðurathuganastofnunarinnar hefir hv. fjvn. leyft sjer að lækka um 15 þús. kr. frá því, sem hún er áætluð í stjfrv. Má nokkuð það sama um þetta segja sem um orðabókarstyrkinn. Með því að veita 20 þús. kr. er til þess verið að stofna að halda lífinu í stofnun, sem þá gæti ekkert gagn gert, — yrði með öðrum orðum hreinasti ómagi. Hún getur auðvitað safnað að sjer skeytum og veðurskýrslum hvaðanæfa, en það væri tilgangslaust, þegar hún hefði ekki lengur neinn kraft til að vinna úr þeim. En ætlunin með stofnuninni er þó sú, að hún geti með tímanum sagt til um veður. Annars er meiningarlaust að vera að halda henni við. — Hún á beinlínis að starfa fyrir okkur og ekki fyrst og fremst til þess að senda veðurskeyti í allar áttir út um heim. En með því tillagi, sem nefndin áætlar. getur hún ekki komið að neinu gagni fyrir okkur. Hv. fjvn. vill með öðrum orðum fleygja 20 þús. kr. í ekki neitt, til að spara 15 þús. kr. Er það gott dæmi upp á hennar sparnaðarviðleitni. Hæstv. fjrh. (JÞ) get jeg verið þakklátur fyrir hvernig hann tók í þetta mál, og vænti jeg því, að hv. deild taki brtt. sæmilega.

Enn á jeg brtt. við 18. gr., um sjúkrastyrk til Friðriks Klemenssonar. Hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) hefir áður lýst ástæðum þessa manns. Hann er á aldrinum milli 30 og 40 ára, og hefir lengi verið í þjónustu landsins, fyrst kennari og síðan sem póstmaður. En hann hefir orðið fyrir því sorglega áfalli að missa heilsuna, og það á þann veg, að lítil von mun um bata. Hv. fjvn. ætlar honum 1000 kr., og skal jeg ekki átelja nefndina, þó að hún hafi ekki farið lengra. En jeg tel sanngjarnt, að þessi maður fái ekki lægri eftirlaun heldur en maður úr sama launaflokki hefir áður fengið hæst. Raunar er sá maður hinn mesti heiðursmaður og hniginn á efri ár, en alt um það munu ástæður hans vera miklu betri en þessa unga manns, sem ekkert hefir fyrir sig að leggja, en hefir fyrir heimili að sjá. Er hjer heldur ekki nema um 200 kr. hækkun að ræða, og vona jeg, að hv. deild leggist ekki móti henni.

Þá er síðast till. um örlítinn styrk til konu einnar. Hefi jeg áður borið fram tillögu um hann, og þá sem sjúkrastyrk, en sú till. var þá feld. En kona þessi hefir einnig um eitt skeið verið í þjónustu ríkisins, og á þeim grundvelli er nú farið fram á, að henni verði veittur þessi litli styrkur sem eftirlaun. Er upphæðin samt talsvert lægri en samskonar eftirlaun þrátt fyrir dýrtíðaruppbót.

Jeg á brtt. á þskj. 281 við brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), um styrk til verslunarskólans. Hækkar þá styrkurinn til beggja skólanna úr 3000 upp í 5000 kr. Hv. þm. geta kallað þetta hrossakaup, ef þeim finst það aðgengilegra undir því heiti. Áður var tillag þetta 6 þús. kr., svo að lækkunin má samt sem áður teljast sæmileg.

Áður en jeg lýk máli mínu, vildi jeg fara nokkrum orðum um sumar aðrar brtt., sem hjer liggja fyrir. Verða þá fyrst fyrir mjer tvær brtt. frá hæstv. fjrh. (JÞ). Er sú fyrri um að lækka þingkostnaðinn með því að fella niður prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna. Hann leit svo á, að ekki væri mikil eftirsjón að þeim, en jeg get ekki verið honum sammála um þetta. Jeg álít einmitt, að þetta sje það principmál, sem ekki megi víkja frá. Eins og hv. þm. vita, er svo ákveðið, að þingfundir skuli háðir fyrir opnum dyrum, en í raun og veru er þá jafnframt boðið, að prenta skuli umræðurnar, því annars mætti alveg eins heyja þing fyrir luktum dyrum, þar sem aðeins örfáir menn eiga kost á því að hlusta á umræðurnar. Þar við bætist að sparnaðurinn myndi reynast lítill. Hæstv. fjrh. benti á, að fyrsta afleiðingin af þessu myndi verða sú, að öll nál. yrðu lengri, og er heldur enginn vafi á, að svo myndi verða. Ekki skal jeg deila um það, hversu heppilegt það yrði fyrir vinnubrögð þingsins að þvínga nefndirnar til að gera nál. betur úr garði, en sýnilegt er það, að eftir því, sem þau yrðu nákvæmari, þá yrði sparnaðurinn minni. Og þessi nál. myndu þá ekki aðeins koma við 2. umr., heldur við allar umr., og ekki aðeins frá meiri hlutum og minni hlutum, heldur einnig frá þeim, sem skrifuðu undir með fyrirvara, því þeir myndu einnig þykjast þurfa að gera grein fyrir sínum skoðunum og bera einnig sín rök á borð fyrir almenning. Kynni þá að fara svo, að sparnaðurinn við þetta fyrirkomulag minkaði. Einnig er þess að gæta, að prentun skjalapartsins er mun dýrari en prentun umræðupartsins, þannig að hann er ekki aðeins lengri, heldur er verðið meira en fyrir tilsvarandi kafla í umræðupartinum. Þannig myndi með tíð og tíma talsvert af sparnaðinum fara í súginn.

Og eitt er enn við þetta að athuga. Þessi till. hæstv. fjrh. er óheimil og getur ekki komið til atkvæða hjer. Svo er mál með vexti, að frv. um sama efni hefir áður verið felt á þessu þingi, en það er bannað að bera aftur fram mál, sem felt hefir verið á sama þinginu. Og enn fleira er við þetta að athuga. Hjer er nefnilega farið fram á að breyta lögum með fjárlagaákvæði. En til að breyta lögum þarf að samþykkja lög. Annars hefði jeg t. d. alveg eins getað komið fram með brtt. við tekjuhlið fjárlagafrv., t. d. 2. gr., um að tóbakseinkasalan skuli afnumin, og látið mjer nægja aths. á þessa leið: enda falli tóbakseinkasalan niður frá næstu áramótum. Myndi mönnum þykja það viðkunnanlegt? En þannig mætti gera hvað sem væri, og útkoman yrði sú, að lög yrðu feld úr gildi þannig, að fram færi aðeins ein umr. um það í annari deildinni og ein í sameinuðu þingi, í stað þriggja umr. í hvorri deild. Til þess að lagabreyting sje gerð, þarf frv. að koma fram, sem rætt sje við 3 umr. í hvorri deild. Og hvor deild út af fyrir sig hefir rjett til að samþykkja eða fella frv., án tillits til atkvæðamagnsins í hinni deildinni. Ed. er svo skipuð, að hún getur felt mál með 5.–6. hluta af öllum atkv. þingsins. Þann rjett verður að hafa í heiðri meðan stjórnarskráin er óbreytt. Sje á hann gengið, þá er um leið vegið að því stjórnskipulagi, sem hjer er. Nú er það svo, að frv. um þetta efni hefir verið felt hjer í hv. Nd. En þá á að ganga á rjett þessarar deildar. Segjum svo, að þetta mál yrði aftur felt hjer. En þá getur hv. Ed. tekið það upp aftur, — og ákvæðið síðan náð samþykki í sameinuðu þingi.

Hvað snertir hina brtt., undir rómv. II,5, þá gæti jeg vel gengið inn á, að eitthvað af landhelgissjóðnum væri tekið til þess að kosta strandgæsluna, meðan svona örðugt er í ári, en það er bara algerlega óheimilt að fara svona að því. Það er nefnilega það sama um þessa brtt. að segja og hina. Með þessu á að breyta lögunum um landhelgissjóðinn. Þau lög er að finna í Stjórnartíðindunum frá 1913 og 1915.

Í 5. gr. laganna frá 1913 stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til þess tíma, sem ákveðinn er í 4. gr., má ekki skerða sjóðinn, og skulu allir vextirnir af stofnfje hans leggjast við höfuðstólinn.“ En í breyting á þessum lögum frá 1915, í 4. gr., stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Sjóðnum skal á sínum tíma varið til að koma upp einu eða tveimur nýjum strandgæsluskipum, er notuð verði til að verja landhelgina fyrir ólöglegum veiðum, og ákveður löggjafarvaldið, hvenær sjóðurinn tekur til starfa og hve miklu af fje hans skuli varið til þeirra varna.“

Þarna er alveg fyrirskipað, hvernig sjóðnum skuli varið, sem sje til þess að koma upp 1–2 strandgæsluskipum. Má ekki verja honum til annars nema lögunum sje breytt, en eigi að gera það, verður það að fara rjetta boðleið, það er með frv., sem gengur í gegnum þrjár umr. í hvorri deild.

Mjer heyrðist hæstv. forsrh. (JM) segja, að annað mundi gilda um tekjur sjóðsins en sjóðinn sjálfan. En þetta er ekki rjett. Sjóðurinn er ekki aðeins fje það, sem í kassanum er á hverjum tíma, heldur líka væntanlegar tekjur. En betur er búið um hnútana í þessu efni. Því það er beinlínis tekið fram í lögunum frá 1913, að tekjurnar eigi að leggjast við stofnsjóðinn, og lögin frá 1915 segja skýrt, hvernig bæði sjóð og tekjum skuli varið. Því verður ekki farið í kringum það, að þessi brtt. um að taka fje úr landhelgissjóði til strandgæslunnar er breyting á lögunum um landhelgissjóðinn, en slíkt er óheimilt að gera nema í frv.formi. Jeg geri ekki ráð fyrir, að hæstv. fjrh. (JÞ) geti fært rök að því, að þetta sje skakt. Jeg vísa annars til þess, sem jeg sagði áðan, að þannig mætti þá fella öll lög úr gildi með einfaldri aths. í fjárlögum, og gæti það haft ýmislegar afleiðingar.