30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Háttv. Ed. hefir breytt frv. í það horf, að skattgjald ríkisstofnana er sett 3% hærra heldur en það var, er það var afgreitt hjeðan við 3. umr., eða hækkað það úr 5% í 8% af nettóágóðanum. Þá hefir hv. Ed. einnig gert smábreytingu við 2. gr. frv., sem er orðalagsbreyting, sem ekki skiftir miklu máli, en gerir orðalagið heldur skýrara. Brtt., sem samþykt var hjer við 3. umr., gerði það að verkum, að greinin var ekki sem best orðuð.

Nú höfum við hv. 2. þm. Eyf. (BSt) leyft okkur að koma með brtt. við 2. gr. frv., í þá átt að færa gjaldið niður í 5%, eins og það var ákveðið hjer við 8. umr. Jeg get ekki sjeð neina ástæðu til þess, að bærinn fái að íþyngja þessum stofnunum með hærra gjaldi en ákveðið var í þessari hv. deild, þegar málið var hjer fyrst til meðferðar. Að rjettu lagi ættu þessar stofnanir að vera skattfrjálsar. Og það, sem gerði það, að við höfum gengið inn á, að þetta gjald sje greitt, er, að það má skoðast sem uppbót fyrir þau not, sem stofnanirnar hafa af bæjunum. Og mjer virðist, að gjaldið hafi verið áður ákveðið hæfilega af þessari hv. deild. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að þegar reiknaður er út nettóarður stofnananna hjer í Reykjavík, þá ber að sjálfsögðu ekki að telja með arð þann, sem orðið hefir af útibúum þeirra, því að þau eru skattlögð hvert á sínum stað, eftir þeim arði, sem á þeim hefir orðið. Mjer þykir rjett að taka þetta fram, til þess að koma í veg fyrir misskilning síðar.

Hinn liður brtt. okkar hv. 2. þm. Eyf. er orðabreyting við 2. gr. frv., þannig, að í stað „aðalaðsetursins“ komi: aðalbúsins. Raunar skilst vel, hvort heldur sem látið er standa. En jeg kann betur við þetta orðalag.