30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Tryggvi Þórhallsson:

Hv. 1. þm. Árn. (MT) þurfti ekki að beina aðfinslum til mín, því að jeg hjelt fram sömu skoðun og hann við fyrri umr. málsins, sem sje þeirri, að ríkisstofnanirnar ættu að rjettu lagi alls ekki að greiða neitt útsvar til sveitar- eða bæjarsjóða. En þegar jeg var atkvæðum borinn um þetta, þá færði jeg mig stig af stigi, frá 2% í 5%. Og nú kýs jeg heldur, að gjaldið sje ákveðið 8%, ef um það er að velja, hvort frv. gangi þannig fram eða alls ekki. Hv. 1. þm. Ám. sagði, að ekki þýddi að setja lög um þetta. En jeg vil benda honum á það, að sá maður, hæstv. atvrh. (MG), sem borið hefir þetta frv. fram, er forsvarsmaður Landsverslunar og var málafærslumaður hennar fyrir hæstarjetti. Jeg bíð nú eftir því að heyra, hvað hann segir um málið. En álíti hann framgang málsins ekki fullkomlega tryggan, ef nú er farið að breyta hundraðsgjaldinu, þá sje jeg mig neyddan til þess að sætta mig við þessi 8% hv. Ed.