30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2320 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get verið þakklátur hæstv. atvrh. (MG) fyrir það, að hann hefir nú látið til sín heyra um þetta mál, þótt ekki væri raunar fullnægjandi. Hann kvaðst ekki vera vanur að ganga á milli manna og spyrja þá eftir afstöðu þeirra til málanna. En mjer finst samt, úr því hann er flm. þessa frv., og úr því þessi stofnun, sem á að verja með frv., er undir hann gefin fyrst og fremst, þá megi búast við því, að hann fylgist fremur öðrum með því, hvernig blæs fyrir frv. Og þar sem hann er líka einn æðsti maður stærsta þingflokksins og ráðherra hans, þá skil jeg ekki annað en að honum og hans flokki sje innan handar að koma málinu fram, og það þótt gjaldinu verði nú breytt í 5% eins og hann lagði sjálfur til upphaflega. Allur Framsóknarflokkurinn er því fylgjandi, og ef hæstv. atvrh. treystist ekki til þess að fá frv. breytt í það horf, sem hann sjálfur lagði til upphaflega, þá er það af því, að hann vantreystir sínum eigin flokksmönnum.

Jeg þykist geta fullyrt það, að Framsóknarflokkurinn standi saman um málið. En hæstv. atvrh. (MG) virðist ekki treysta sínum flokki til að fylgja því. Og jeg get alls ekki láð honum það, eftir alla þá mæðu, sem hæstv. forsrh. (JM) hefir átt við að búa út af frv. sínum, svo að jeg nefni nú ekki hæstv. fjármálaráðherra, sem hefir verið við 3. og 4. mann um flest sín áhugamál hjer í deildinni.