30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að ekkert gerði til, þótt þessu máli yrði frestað til næsta þings. En hefir hv. þm. nokkra sönnun fyrir því, að næsta þing verði skipað eins og þetta (SvÓ: Jeg vil, að fáist reynsla). Sú reynsla verður dýr. Hún kostar um 100 þús. kr., eftir þeim útsvörum að dæma, sem nýlega hafa verið lögð á verslanir ríkissjóðs. Það er því hið mesta óvit að fresta málinu. Um útsvarsskyldu kirkju og skóla skal jeg ekki deila við hv. þm. (SvÓ).

Hv. þm. Str. (TrÞ) virtist hissa á því, að jeg skyldi ekki vera nákunnugur afstöðu manna til málsins í Ed. En mjer finst til of mikils ætlast, að ætlast til þess, að jeg spyrji þar hvern einasta þm. um afstöðu hans. Má vel vera, að hv. þm. Str. kynni við þessháttar göngu fyrir hvers manns dyr, en jeg læt slíkt vera. Þá var háttv. sami þm. að tala um það, að jeg treysti ekki Íhaldsflokknum til að fylgja frv., enda hefði hann ekki verið sammála í ýmsum málum. En til þess, að krafist verði, að flokkurinn fylgist að, verða málin að vera flokksmál eða stefnumál. En það eru alls ekki öll mál. Hv. þm. Str. fylgir mjer t. d. nú að málum, og erum við þó ekki flokksbræður. Jeg hefi líka hjálpað honum til að koma fram málum, sem honum hafa verið áhugamál. (TrÞ: Það er þá kaups kaups). Já, það er kaups kaups, og við ættum því ekki að vera neitt að metast um það, hvernig við greiðum atkvæði, heldur reyna að sjá svo um, að við greiðum atkvæði með rjettu máli. Það á að vera hverjum þm. metnaðarsök.