30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Jakob Möller:

Jeg get dáðst að þeirri lotningu, sem hv. þm. bera fyrir þessum ríkisstofnunum, þar sem þeim finnast þær varla sambærilegar við kirkjuna fyrir tignar sakir. Þessum hv. þm. finst, að ekki geti frekar komið til mála, að þessar stofnanir greiði útsvar en kirkjurnar. Auðvitað geta þessir hv. þm. ekki orðið með því, að stofnanirnar greiði útsvar, ekki einu sinni sem nemi 5% af arði. Jeg gleðst þess vegna af því, að þeir ætla að hjálpa mjer til að koma frv. fyrir kattarnef, þó að þeir greiði auðvitað atkvæði á móti því af öðrum ástæðum en jeg.

Það er á allra vitorði, að ríkið verður að greiða í bæjarsjóð ýms gjöld. Nýlega hefir t. d. verið samþykt hjer í deildinni frv., sem eykur gjöld þau, sem ríkið þarf að greiða í bæjarsjóð — en það er bæjargjaldafrv. Menn vita það, að ríkið verður að gjalda skatt af lóðum undir opinberum byggingum hjer í bænum. Jafnvel kirkjulóðin mun ekki vera undan því þegin. En ekki er von, að þm. vilji, að landsverslun sje lögð niður, þar sem þeir meta hana jafna kirkjunni. Þeim gengur auðvitað guðsótti til, blessuðum mönnunum. Mjer fyndist nú rjettast að flytja hana í kirkjugarðinn, því að hann einn mun undanþeginn lóðargjaldinu.

En jeg vona nú samt, að ýmsir hv. þm. sjái, að eigi ríkið að gjalda í bæjarsjóð af fasteignum sínum, þá sje ekki óeðlilegt, að verslunarstofnanir þess sjeu útsvarsskyldar. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að þær eigi alveg jafnt að borga útsvör og skatta og gróðafyrirtæki einstakra manna. Jeg greiði því atkvæði á móti þessu frv.