30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Magnús Torfason:

Jeg verð að skýra dálítið betur, hvað fyrir mjer vakir. Menn telja rjett að leggja á gróðafyrirtæki ríkissjóðs. En jeg vil sýna fram á, að þetta er hugsunarvilla. Ríkissjóður er ekki gróðafyrirtæki, og hjer stendur eins á og með bú Vífilsstaðahælisins.

Hreppurinn lagði útsvar á búið og út af því varð mál. Undirrjettur dæmdi búið útsvarsskylt, en hæstirjettur ekki, þar sem búið yrði að skoðast framfærsla stofnunar, sem auðvitað væri ekki útsvarsskyld. (Atvrh. MG: Það er ekki víst, að dómur hæstarjettar sje rjettari en undirdómurinn). Hæstv. atvinnumálaráðherra segir, að það sje ekki víst, að hæstarjettardómurinn sje rjettur, en jeg vil benda honum á það, að öll sveitarstjórnarlöggjöfin miðar að því að leggja á einkastofnanir, en ekki almenn fyrirtæki. Það eru og óskráð lög, að ekki sje hægt að leggja á almennar stofnanir, hvorki ríkis nje aðrar.

Aðalafstaða mín í þessu máli er sú, að bíða eftir dómi hæstarjettar og síðan koma með úrslitaákvæði um þetta efni.

Fasteignaskattur og sveitarútsvar er alls ekki sambærilegt, því að útsvarið rennur til bæjar- og sveitarfjelaga, en fasteignaskatturinn til ríkissjóðs sjálfs.