03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get að mestu fallist á þetta frv., sem hv. fjhn. hefir borið fram, þótt jeg að vísu kynni að óska smávægilegra breytinga, sem fram mætti þá bera við 2. umr. Jeg tek undir það með hv. frsm. (ÁF), að æskilegast væri, að sem minst þyrfti að koma til þess, að þeim þvingunarráðstöfunum verði beitt, sem lögin heimila. Og jeg get sagt það að því er til mín kemur, að jeg mun ekki vilja beita þeim, nema jeg álíti það nauðsynlegt vegna almennings hagsmuna.

Í sjálfu sjer gæti jeg látið nægja að segja þetta við þessa umr. málsins, en hv. 1. þm. N.-M. (HStef) fór æðilangt út fyrir hið eiginlega efni frv. og gerði nokkrar almennar athugasemdir um afstöðu bankanna til lággengisins og gengisskráningarinnar, sem mjer finst, að geti ekki staðið ómótmælt.

Jeg verð að segja, að mjer fanst hv. þm. (HStef) ekki tala af nógri þekkingu um þetta mikla vandamál.

Hann sagði það fyrst, að hvergi nema hjer á landi væri gengisskráning í höndum þeirra, sem versla með gjaldmiðilinn. Þar, sem jeg þekki til, er skráningin einvörðungu í höndum þeirra, sem aðallega hafa gjaldeyrisverslunina á hendi, þ. e. í höndum bankanna, og það má sjálfsagt kallast nýmæli, sem hjer er farið fram á, að í því taki þátt maður, sem skipaður er af stjórninni, án þess að hann standi í nokkru beina sambandi við þá, sem gjaldeyrisverslunina hafa með höndum. Ef hv. þm. veit um aðra tilhögun á þessu í öðrum löndum, væri æskilegt, að hann benti á það, — jeg þekki það ekki.

Þá kom hann að lággenginu og sá þá ekki annað en lággengi seðlanna. Sagði hann, að fall þeirra væri einskonar fátækrastyrkur til bankanna, og lýsti því með mjög átakanlegum orðum, hvernig með þessu vaxandi lággengi að Íslandsbanki væri kominn á þurfamannastyrk, sem hann notaði svo til þess að hafa 8 bankastjóra og greiða hluthöfum arð.

Jeg er hissa, að jafnskynsamur maður og jeg veit, að hv. þm. (HStef) er, skuli segja þetta.

Þegar talað er um lággengi, verður fyrst að gera sjer það ljóst, hvað lækkar, og það eru ekki aðeins bankaseðlarnir, heldur og allar skuldir og allar kröfur, sem taldar eru í krónum þess lands, sem við lággengið býr. Allar skuldir lækka í verði móts við gullgildi eða vöruverð, og kröfurnar lækka eins. Svo lækkunin kemur fram sem gjöf frá skuldheimtumönnum til skuldunauta, afsláttur til þeirra, sem skulda.

Hv. þm. talaði sjerstaklega um, hvaða hagnað bankarnir hefðu af þessu, og sá ekkert annað en að þeir fengju afslátt á seðlunum, og var helst að heyra, sem þeim væri best, að seðlarnir lækkuðu sem mest, kæmust niður í 0.

Þetta er ákaflega mikil fjarstæða. Það mætti segja, að gengislækkun seðlanna, tekin út af fyrir sig, væri hagur fyrir Íslandsbanka, ef honum væri leyft að nota gullforða sinn til að leysa inn seðla með lágu gengi, þannig, að hann gæti fengið 2 seðla fyrir ákvæðisverð eins seðils í gulli. En nú er honum bannað með lögum að nota gull til að leysa inn seðlana; hann er með lögum skyldaður til að afhenda landsstjórninni það með nafnverði.

Það verður að taka spursmálið eins og það liggur fyrir, hjá bönkunum eins og öðrum. Þá er lággengið til þess, að skuldir og kröfur lækka, og hvort bankarnir hagnast eða bíða halla við það, er undir því komið, hvort þeir skulda meira en þeir eiga til góða í íslenskum krónum.

Hvernig er því varið með bankana hjer! Um báða má víst segja það, að kröfur þeirra eru nær eingöngu í íslenskum krónum, því að þeir lána út alt veltufje sitt í ísl. krónum innanlands. Og hvað er svo aftur á móti! Sumpart hafa þeir innlent rekstrarfje, en báðir hafa þeir líka mjög stórar upphæðir af erlendu fje til rekstrar. Þannig er upphæðin, sem bankarnir eiga hjá öðrum í ísl. fje, miklu hærri en aðrir skulda þeim, svo auðsjeð er, að verðfall íslensku krónunnar er tap fyrir þá, og þeir finna líka ósköp vel, að útlendu skuldirnar verða þeim erfiðari, þegar það, sem kemur inn frá innlendum skuldunautum, lækkar í verði fyrir gengisfallið. Þetta sýnir, hvílík fjarstæða er að halda, að bankamir græði við gengisfallið. Og þetta á við báða bankana eins og nú er ástatt fyrir þeim. Þetta var höfuðvillan í því, sem hv. þm. (HStef) bygði á, að hann virtist ekki sjá aðra verðlækkun en fall seðlanna, sem í umferð eru. Og hinsvegar má benda honum á það, að bankarnir græða ekki einir á því, að seðlarnir, sem úti eru, falli í verði. Bankinn á ekki heimting á, að honum sje goldið nema með þessari ljelegu mynt, og hafi hún fallið í umferðinni, er hans tapið. Þetta atriði hefir náttúrlega mikla þýðingu, t. d. fyrir Íslandsbanka, sem hefir sett mikla seðlafúlgu með gullgildi í umferð; hann tapar á því að fá hana inn aftur fallna á verði við gengislækkun, og því er bankanum einmitt nauðsynlegt, að gengið þokist upp á við.

Jeg vil svo aðeins víkja að öðru atriði, sem hv. þm. (HStef) nefndi. Það er rjett, að komið hefir fyrir, að gengið falli þann tíma árs, þegar sölu afurðanna er að mestu lokið, en ekki er byrjað að kaupa inn nauðsynjar til næsta árs. Orsökin er sú, að annarsvegar hefir reynst svo með afkomu ársins eða greiðslujöfnuðinn út á við, að þegar lokið er sölu afurðanna, þá er greiðsluhalli á árinu eða a. m. k. enginn afgangur til að minka með erlendu skuldirnar, og hinsvegar er auðvitað jafnframt tap á atvinnurekstrinum inn á við. Bankarnir hafa því um áramótin engan gjaldeyri til að selja, heldur verða að taka lánsfje þar til næsta sala hefst, og bein afleiðing af bágri afkomu umliðins árs er sú, að þeir þora ekki að selja þennan aðfengna gjaldeyri með sama verði og áður. En vitanlega er það rjett, að verðið á gjaldeyrinum verður að komast í það horf, að framleiðendur fái svo mikið í íslenskum krónum fyrir afurðirnar, að það borgi reksturinn. En hv. þm. (HStef) sagði svo, að nú hefðu bankamir lofað fiskkaupmönnum að fara gagnstætt að og kaupa af þeim erlendan gjaldeyri við því verði, að þeir sköðuðust ekki. Jeg get ekki skilið, hvernig hv. þm. fer að átelja hvorttveggja; annaðhvort hlýtur að vera rjett. Annars hefi jeg aldrei heyrt þessa sögu og býst ekki við, að neinn fótur sje fyrir henni.

Þá sagði hv. þm., að íslenska krónan ætti ekki að vera mun lægri en danska krónan. Því er nú svo varið um verð íslensku krónunnar, að hver maður innan lands eða utan, sem innieign á í íslenskum krónum, sem hægt er að heimta útborgaða á hvaða tíma sem er, ræður, fyrir hvað mikið verð hann selur hana. Það er ekki á valdi bankanna nje annara að ráða þessu verði, og þar með genginu, heldur geta þeir aðeins tilkynt, hvað sje hið almenna og sanngjarna verð á þessu á hverjum tíma, og það er gengisskráning. Munurinn á íslenskri og danskri krónu stafar af mörgu, en ekki síst af því, að hjer voru mörg erlend firmu, sem áttu miklar innieignir í íslenskum krónum, sem þau vildu selja og breyta í danskar krónur. Og þau gátu gert það. Mest af sölu þessara innieigna fór fram í Kaupmannahöfn, án þess að við á nokkum hátt gætum ráðið verði þeirra. En þegar ísl. krónan nálgast þá dönsku, þá örvast tilhneiging þessara firma til þess að „fá fjeð heim“, eins og þeir kalla, og salan eykst. En afkoma síðustu ára hefir ekki verið svo góð, að bankarnir hafi sjeð sjer fært að lofa sölunni að ganga ört, og hafa þess vegna reynt að halda í mismuninn á dönsku og íslensku krónunni. Enginn láti svo á, að þetta sje eina ástæða þessa mismunar, en hún er ein af þeim og hefir sína þýðing og sín áhrif. Nú er, sem betur fer, svo komið, að þessari sölu er langt komið og það er mjög lítið eftir af þessum lausaskuldum í ísl. krónum. Og það verða gerðar tilraunir til að festa seinustu upphæðina, sem nokkru nemur. Eru þá ekki aðrir teljandi en bankarnir hjer, sem eiga ísl. krónur, sem kaupa þarf til atvinnurekstrar hjer á landi, og maður er þá laus við þessa orsök lággengisins, sem hefir orðið þess valdandi, ásamt öðru, að gengi okkar hefir ekki getað losnað við áhrif frá verðbreytingu dönsku krónunnar. Og þess vegna er heldur ekkert hætt við því, sem hv. þm. var að lýsa, að danskir innieigendur missi traust sitt á ísl. krónunni og hún falli við það niður í 0. Þrjú árin undanfarin var slæmt ástand í þessu efni, en við erum nú búnir að ríða af þann storminn, og þær innieignir flækjast ekki fyrir okkur meir.

Hv. þm. kvartaði yfir og taldi ekki rjett, að haldið væri þeirri stefnu að ákveða verð á erlendum gjaldeyri eftir framboði og eftirspurn. Í því sambandi er vert að minna á, að bankarnir taka sjer þá byrði á herðar að halda uppi hærra gengi á ísl. krónu en verða mundi eftir framboði og eftirspurn, og sú byrði hefir legið svo þungt á þeim undanfarið, að báðir hafa tapað á að halda krónunni uppi fyrri hluta ársins. Og þeir, sem óska eftir annari reglu, verða að íhuga það, að eigi að þvinga innlenda gjaldeyrinn upp, verður þá að þvinga erlenda gjaldeyrinn niður með hafta- eða þvingunarráðstöfunum. Þessi aðferð var reynd á árunum 1920–1922. Bar hún þann árangur, að innieignir erlendra kaupsýslumanna söfnuðust hjer fyrir í bönkunum, og varð það sá Þrándur í Götu, sem þegar hefir verið lýst. Ef þvingunin yrði nú aftur tekin upp, yrði afleiðingin nákvæmlega sú sama og áður. Þeir, sem ekki yfirfærðu innieignir sínar, mundu geyma þær hjer, og krefjast svo yfirfærslu á þeim þegar ef til vill verst gegndi.

Jeg veit ekki, hvaðan hv. þm. hefir það, að bankarnir hafi grætt stórfje í ár. Hygg jeg, að að minsta kosti annar bankinn muni sýna tap á heildarreikningi sínum, en alls ekki gróða. Hefði hv. þm. átt að vita þetta.

Annars skal jeg ekki fara fleiri orðum um þetta frv., en leyfa mjer að leggja til, að því sje vísað til 2. umr.