03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þótti hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) gera of mikið úr þessum óstaðfestu sögusögnum um loforð bankanna við fiskkaupmenn. En sagan leiðrjettir sig sjálf, ef menn athuga, hvað í henni felst. Bankarnir selja nú sterlingspund, sem þeir taka að láni, á kr. 32,50. Það er ljóst, hver hagur það væri fyrir bankana, ef þeir keyptu pundin síðari hluta þessa árs fyrir t. d. 35 kr., til þess að hjálpa fiskkaupmönnum. Það bitnaði ekki á öðrum en bönkunum sjálfum. Sagan er því svo ósennileg, að hún leiðrjettir sig sjálf, og er óþarft að eyða hátíðlegum ummælum um hana. Það er vitanlegt, að bankarnir munu í lengstu lög reyna að halda erlendum gjaldeyri í ekki hærra verði seinni hluta árs en þeir hafa selt hann fyrir á fyrra missirinu. En það hefir ekki tekist betur en svo, að síðastliðið ár töpuðu þeir, eftir skýrslu bankastjórnanna sjálfra, mörgum hundruðum þúsunda. Í raun og veru hafa bankarnir allan hag af því að halda gjaldeyrinum uppi. Það vita bankastjórnirnar vel, og hafa þær því oft tekið á sig tap á þeim tíma, til þess að forðast hið meira tapið, sem af því mundi leiða, ef gengið hjeldi stöðgt áfram að lækka.

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) tók sem dæmi, að ef bankinn tæki lán í útlöndum til þess að leysa inn seðla sína, mundi hann græða helminginn af þeirri upphæð. En þar skýtst honum aftur. Íslandsbanki þarf ekki að leysa inn aðra seðla en þá, sem eru í útlánum. Þá seðla hefir hann látið út á þeim tíma, sem þeir voru gullvirði. Nú fær hann þá ekki inn öðruvísi en með því, að greiddar verði skuldir, sem eru að nafnverði 1 milj. króna. Helmingur þeirrar upphæðar verður í raun og vera afsláttur til skuldunautanna, sem seðlunum skila, en hinn helmingurinn er greiddur í gullvirði. Bankinn fær því ekki þennan gróða, heldur aðrir, og verður því ekki í móti mælt.

Þegar dæma á um afstöðu bankanna til hækkunar eða lækkunar á genginu, má ekki líta á, hvaða áhrif einhver einstök verslunarráðstöfun hefir, heldur hvort verslunin í heild sinni bakar bönkunum tap eða aflar þeim gróða. Það er vafalaust, að gengislækkunin bakar bönkunum tap á erlendu rekstrarfje þeirra, auk þess sem varasjóður þeirra og önnur sjálfseign rýrnar að verðgildi. Þeir eiga svo margfalt meira fje í íslenskum krónum hjá öðrum en þeir skulda í vorri mynt, að engin stofnun bíður meiri halla af gengisfallinu en bankarnir.