05.05.1924
Neðri deild: 63. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jón Baldvinsson:

Ef frv. þetta á að verða að lögum hjer á þessu þingi, verður að víkja allmjög frá venjulegri meðferð mála til þess að svo megi verða. Málið verður að afgreiða með afbrigðum á hálfum öðrum degi og verður að fara gegnum tvær umr. hjer og þrjár í hv. Ed. Þetta er óvenjuleg meðferð á stórmáli. Má vera, að fjhn. hafi einhverja afsökun fyrir drætti sínum á málinu, en jeg hefi ekki getað komið auga á þá afsökun, og enga afsökun hefir nefndin nú borið fyrir sig. Málið kemur nú fram á síðustu stundu, og því lítill tími til breytinga. Jeg sá þó þegar við fyrsta yfirlestur frv., að margt var þar, sem þurfti lagfæringar við, og af því að jeg bjóst við síðasta laugardag, að málið yrði þá ef til vill tekið fyrir, samdi jeg í skyndi nokkrar brtt. til að nema burtu verstu agnúana á frv. Þessar brtt. er að finna á þskj. 524.

1. brtt. er við 2. gr. frv. Hún fer fram á, að í stað þriggja manna skipi fimm menn nefndina; ennfremur að breyta skipun nefndarinnar. Eftir frv. er málið lagt í hendur bankanna; einkum mun Íslandsbanki ráða miklu í nefndinni, því að stjórnskipaði nefndarmaðurinn mun varla standa fjarri honum. Þetta er að mínu áliti ekki heppilegt, og því hefi jeg viljað, að aðrir, sem hjer eiga hlut að máli, fengju nokkru að ráða. Í frv. er svo ákveðið, að fjrh. skipi einn nefndarmanninn. Jeg hefi viljað breyta þessu þannig, að ráðuneytið tilnefndi þennan mann, enda er það bæði eðlilegra og heppilegra. Þá vil jeg, að einn af þeim, er sæti eiga í nefndinni, sje skipaður af Alþýðusambandi Íslands, sem er samband fjelaga, sem í er meginhluti af verkalýð landsins, og virðist sjálfsagt, að hann hafi hjer hönd í bagga. Það er öllum vitanlegt, að gjaldeyrishrunið hefir fyrst og fremst komið niður á verkalýðnum, svo hann hefir hjer hagsmuna að gæta og ætti að ráða miklu um meðferð á gjaldeyri landsins, sem að langmestu leyti er fenginn fyrir vinnu hans. Þá hefi jeg lagt til, að Landsbanki Íslands skipi einn manninn. Einn manninn hefi jeg lagt til, að Samband íslenskra samvinnufjelaga skipi, enda er það sú stofnun, er bændur hafa helst sameinast á, og virðist ekki nema sjálfsagt, að einn fulltrúi þeirra eigi sæti í nefndinni. Loks hefi jeg lagt til, að einn maðurinn sje skipaður af Fjelagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Þetta fjelag hefir innan sinna vjebanda þá menn, er annast mest um afurðasölu landsins og hafa ef til vill mestan gjaldeyri með höndum. Vera má, að hægt væri að benda á einhverja aðra stofnun atvinnurekenda, er væri eins heppileg, en í fljótu bragði hefi jeg ekki komið auga á hana.

Þá vil jeg breyta ákvæði frv. um þagnarskyldu nefndarinnar. Jeg vil ekki, að hún sje bundin þagnarskyldu gagnvart landsstjórninni, og heldur ekki gagnvart skattanefndum landsins. Ef einhver íslenskur skattborgari ætti t. d. stórfje inni erlendis, þá ætti gjaldeyrisnefndin, ef hún vissi um það, að hafa heimild til að skýra skattanefndum frá því, ef hún yrði um það spurð.

2., 3., 4. og 5. brtt. eru allar sama eðlis að því leyti, að þær ganga í þá átt að hefta afskifti fjrh. af nefndinni. Eftir frv. að dæma, má nefndin ekki hreyfa hönd nje fót án hans leyfis, og yfirleitt ekkert gera. Þetta kemur mjög áberandi fram í frv. Mjer heyrðist það líka á hv. þm. einum, sem var á móti frv., að hann bygði helst von sína á því, að fjrh. notaði þetta vald sitt til þess að gera nefndina gagnslausa.

Jeg hefi látið 7. gr. standa óbreytta, þótt eflaust hefði verið rjett að koma þar fram með brtt. líka. Þar er svo ákveðið, að Íslandsbanki og Landsbankinn greiði kostnaðinn við nefndina að helmingi. Eftir brtt. mínum er ekki gert ráð fyrir, að Íslandsbanki eigi neinn fulltrúa í nefndinni, enda álít jeg hann ekki hafa rjett til þess. Hann hefir ekki enn svarað brjeflega fyrirspurn fjárhagsnefndar, og mun auk þess vera á móti þessu máli. Aftur á móti væri sanngjarnt, ef bankinn ætti engan þátt í þessu, að hann bæri þá engan kostnað af því. Á það vildi jeg gjarnan fallast, og geri jeg ef til vill brtt. um það við 3. umr.

Jeg hefi þá gert grein fyrir brtt. mínum, og eins og menn sjá, þá myndi nefndin starfa miklu sjálfstæðara, ef henni væri háttað eins og þar er gert ráð fyrir. Jeg játa það, að vafningar geti átt sjer stað á því fyrir nefndina, að ná þeim yfirráðum yfir gjaldeyrinum, sem henni eru ætluð, og meginvandkvæðin á framkvæmd frumvarpsins verða auðvitað þau, að eltast við einstaka menn og láta þann gjaldeyri, sem þeir fá fyrir íslenskar afurðir, koma þjóðinni að notum. Þeir munu altaf sjá sjer leik á borði með að leggja hann inn í banka erlendis og braska með hann. Eina örugga ráðið við slíku er auðvitað það, að ríkið sjálft taki sölu afurðanna í sínar hendur. En um það tjáir víst ekki að tala nú, þar sem feld hafa verið frv. þau hjer á hinu háa Alþingi, sem farið hafa í þá átt, þó síðan hafi komið sterkar kröfur um það frá mönnum úr öllum flokkum, bæði í erindum til þingsins víðsvegar að, og svo í blaðagreinum. En út í það vil jeg ekki fara nú. Þrátt fyrir það, þótt frv. komi ekki þannig að fullu gagni, þá tel jeg samt talsverða bót að því, ef till. mínar verða samþyktar. Og jeg vænti þess þá líka, að þær fái góðan byr hjá hv. deild.