06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skildist það á ræðu hv. 1. landsk. (SE), að hann væri hræddur við ákvæði 4. og 5. gr. frv. En jeg hygg, að hann þurfi ekki að óttast þau ákvæði, því að jeg geri ráð fyrir því, að ekki verði til þeirra gripið, ef bankarnir báðir eru á móti því. Og sjerstaklega ætti hv. þm. (SE) að vera rólegur í þessu efni, þar sem hann er bankastjóri sjálfur, og getur því haft áhrif í þessu efni. Til þess að til ákvæðanna verði gripið, þarf ennfremur samþykki fjármálaráðherra og þess nefndarmanns, er hann skipar. Það var um tíma svo, að töluverður gjaldeyrir var utan bankanna, og það verður því aðeins ástæða til að nota ákvæði 5. gr., að slíkt komi fyrir aftur. Nú hafa bankarnir svo að segja allan gjaldeyrinn, og hafi þeir hann áfram, er ákvæðið hættulaust. Þegar þeir höfðu ekki gjaldeyrinn, þá bar nauðsyn til að hefta verslunina með hann, svo að hægt væri að greiða erlendar skuldir. Hv. þm. (SE) gat þess, að hann hefði trú á frjálsri verslun. Við því er í sjálfu sjer ekkert að segja, en þegar alvarlegir tímar eru fyrir hendi, þá þarf oft að beita alvarlegum ráðstöfunum. Og svo er í þetta sinn. Annars virtist mjer háttv. 1. landsk. ekki hafa mikið við frv. að athuga. Frv. var samþ. með miklum atkvæðamun í hv. Nd., og jeg vænti, að það verði einnig samþykt hjer.