06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jóhann Jósefsson:

Vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra um framkvæmd á 6. gr. frv., skal jeg taka það fram, að hæstv. fjrh. mun ekki hafa skilið tilgang fyrirspurnar minnar alveg rjett, sem ekki var von, þar sem hann var ekki staddur hjer inni, þegar jeg gerði hana.

Jeg var ekki að tala um gengismun, vegna þess að jeg áleit, að ekki kæmi til mála annað en að eigandi gjaldeyris slyppi við þann skaða, sem gengisbreyting kynni að geta komið af stað í því tilfelli, er hjer ræðir um, heldur um mismun á kaupverði og söluverði gjaldeyris, og svo yfirfærslukostnað. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að jeg liti svo á, að ef ákvæðum 6. gr. yrði beitt þannig, að gjaldeyrir, sem hjerlendur maður kann að eiga erlendis, yrði tekinn til afnota samkv. greininni og nefndin fái honum í staðinn samskonar gjaldeyri ytra, hvort heldur strax eða síðarmeir, þá eigi viðkomandi maður ekki að bera neinn beinan kostnað við þessa ráðstöfun.