03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1791)

9. mál, hjúalög

Jón Baldvinsson:

Þegar þál. kom fram á þinginu 1922 frá þáverandi 1. þm. Árn. (EE), þess efnis, að skora á stjórnina að endurskoða löggjöfina um landbúnaðarmál, þá man jeg, að sjerstök atkvæðagreiðsla var látin fara fram um niðurlag hennar, en þar var óskað eftir því, að hjúalöggjöfin væri tekin til nýrrar yfirvegunar og að heildarlög um þau efni yrðu lögð fyrir þingið.

Þessum lið þál. man jeg, að jeg var mótfallinn þá, því jeg bjóst satt að segja ekki við því, þó að farið væri að breyta löggjöfinni um þessi efni að einhverju leyti, að þær breytingar myndu verða að verulegu gagni. En þegar frv. til hjúalaga var lagt fyrir þingið í fyrra, þá sá jeg þó strax, að ýms ákvæði þess leiddu til talsverðra rjettarbóta. Enda hefir, eins og vitanlegt er, margt breyst síðan vinnuhjúatilsk. var gefin út 1866, svo að nú eru ýms ákvæði hennar úrelt orðin, en önnur, sem vantar í hana, og aðrir hættir um vistráð nú en þá. Því hefi jeg heldur ekki getað fylgt hv. meðnefndarmönnum mínum í allshn. í því að fella frv. niður, því þó mjer sje þetta ekki mikið kappsmál, þá sje jeg, að ýmislegt er þar, sem miðar til hins betra frá því, sem áður var. Svo er t. d. um lögfestingu þess, hvenær kaup hjúa skuli teljast vera fallið í gjalddaga, þó jeg á hinn bóginn geti hugsað mjer, að frjálsir samningar um það efni og samþyktir stjettafjelaga gætu komið í þess stað. Að jeg ekki kom með sjerstakar brtt. við frv. kemur til af því, eins og jeg ljet getið bæði við skrifstofustjóra og einhverja meðnefndarmenn mína í allshn., að jeg vildi sjá til fyrst, hvernig frv. reiddi af við þessa umr. í hv. deild. því jeg sá ekki, að það þýddi neitt, ef frv. fengi sömu undirtektir sem á þinginu í fyrra. Ákvæðin í 7. og 8. gr. tel jeg til mikilla bóta, þegar þess er gætt, að lögin taka aðeins yfir hjú yngri en 21 árs — og til eldri hjúa tekur aðeins 29. gr. — þá er auðsætt, að þau hafa í fæstum tilfellum þann þroska, sem þau þurfa að hafa til að geta samið fyrir sig, og kemur þeim þá vel að hafa lagaákvæði til að styðjast við.

Hjer er 6. gr. ný grein, með sjerstökum ákvæðum, sem eiga að gilda bæði í kaupstöðum og sveitum um þau hjú, sem eru ráðin til skemri tíma en árs. En hjer finst mjer að ætti að gilda það sama, sem segir í 5. grein um hjú, sem ráðin eru í ársvist, að húsbóndinn sje skyldugur að sækja hjúið. Í kaupstað eiga menn að vísu mjög oft hægt með flutning, en í sveitum getur það verið mjög örðugt hjúum að komast í vistina. En það er gefið, að húsbóndinn á hægra með að sækja eða láta sækja hjú heldur en hjúið að flytja sig sjálft, oft máske langa leið, og ætti að breyta frv. í þá átt. Þá er önnur breyting, sem jeg tel rjett að komist í frv., að samningar, sem stjettafjelög gera, gildi jafnhliða lögunum.

Jeg get fallist á það hjá háttv. frsm. (JK), að það sje ekki hentugt, að misklíð út af vistarráðum sje útkljáð sem einkamál. Yfirleitt mun fólk á þessu reki síður vilja standa í stefnum, enda bæði einfaldara og kostnaðarminna að bera sig upp við yfirvaldið, enda mundi þannig fást skjótari úrskurður. Finst mjer jeg verði að telja þá aðferð rjettari, að lögreglustjóri eða sýslumaður kæmi á málamiðlun í slíkum tilfellum, heldur en að mál út af þessu sjeu rekin sem í frv. segir.

Jeg þarf annars ekki að svara neinu hjá háttv. frsm. meirihlutans (JK). Hann taldi, að frv. væri ekki komið fram eftir kröfu bænda. Um það má deila, en þó verður að telja þingmenn rjetta umboðsmenn bænda á þingi. En málið er komið frá þm. í bændakjördæmi, og stjórnin hefir tekið málið fyrir samkvæmt vilja þingmanna. Mikill meirihluti þessara laga er tekinn upp úr þessari ágætu tilskipun, sem frsm. talaði um, og ætti það ekki að spilla.

Þá taldi frsm. ákvæði 7. gr. ekki til bóta. En jeg verð að líta svo á, að þau sjeu mjög til bóta. Því fólk á þessum aldri á ekki eins gott með að bera hönd fyrir höfuð sjer eins og eldra og reyndara fólk. Eins er ákvæði um rjett til hreinlætis til bóta.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um málið að sinni; mjer er það ekki neitt sjerstakt kappsmál, en tel það þó betur fram komið og til bóta í heild sinni.