03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

9. mál, hjúalög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Aðeins fá orð. Hæstv. atvrh. (KlJ) taldi örðugt fyrir stjórnina að haga sjer, er ein deild feldi það, sem hin samþykti. Það er auðvitað rjett, að það er ilt fyrir eina stjórn að framfylgja til hins ítrasta öllum þingsályktunum, sem samþyktar eru á Alþingi. Enda eru sumar slíkar ályktanir þannig, að ómögulegt er að framfylgja þeim, enda oft meira til þess að sýnast en að þeim fylgi alvara. Má t. d. nefna þál. um bygging landsspítala, að þótt ályktunin hefði verið samþ., er það vitanlegt, að ekki er hægt, vegna fjárhagsörðugleika, að framkvæma hana. Hjer er heldur ekki um brýna nauðsyn að ræða, því eins og tekið hefir verið fram, eru öll aðalatriði laganna tekin upp úr gömlu tilskipuninni. Krafa frá aðiljunum hefir ekki komið fram. Er því engin nauðsyn á þessu frv. nú. Enda er sumt hjer óheppilegt, eins og jeg hefi rökstutt. Jeg get t. d. enn bent á 29. og 30. gr. Samkvæmt hjúatilskipuninni lúta öll hjú, sem hafa ráðið sjer vist, ákvæðum hennar. En eftir þessu frv. gilda ákvæði þess ekki fyrir hjú eldri en 21 árs, nema engir samningar sjeu.

En altaf má gera ráð fyrir, að einhverjir samningar sjeu, þótt þeir sjeu ekki skrifaðir, og því mjög óheppilegt, að útiloka hjú yfir 21 árs aldur frá vernd hjúalaganna.

Jeg skal ekki deila við hæstv. atvrh. (KlJ) um mismuninn á meðferð einkamála og lögreglumála. Jeg veit, að hæstv. ráðh. (KlJ) þekkir hann eins vel og jeg. Kostnaðurinn eykst gífurlega. Það er ekki nóg að kæra, það þarf að stefna, halda fram málinu til dóms o. s. frv., í stað þess að snúa sjer til lögreglustjóra og skýra honum frá kæruefni, sem hann leggur síðan úrskurð á að kostnaðarlausu.

Jeg skal ekki fara út í ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann taldi breytingar frv. til bóta, en þær eru allar þess eðlis, eins og jeg hefi bent á, að ekki þarf að breyta hjúatilskipuninni þeirra vegna. Annaðhvort eru þær löghelgaðar af venju eða þá svo smávægilegar, að ekki tekur tali.

Hitt álít jeg ekki rjett, sem háttv. þm. mintist á, að blanda hjer inn í samningum stjetta. Það verð jeg að álíta mjög óheppilegt.