03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1796)

9. mál, hjúalög

Magnús Torfason:

Jeg get ekki sjeð neitt einkennilegt við það að bera fram slíka tillögu sem þá, er felst í dagskránni. Mjer finst ekkert einkennilegt, þó þingið vilji fá að vita vilja almennings í máli, sem snertir svo að segja hvern einasta fullorðinn mann í landinu. Jeg verð að segja, að mjer virðist málið alls ekki svo óflókið. Hjer er um talsverðan lagabálk að ræða, þar sem eru mýmörg ákvæði, sem skiftar skoðanir hafa verið um hjá lagamönnum, hvernig bæri að skilja. Hjer er því ekki að ræða annaðhvort um já eða nei, heldur það, að fá að vita vilja manna, í hverja átt hann gangi. Mjer finst alls ekki gustuk að tala um sparnað í þessu atriði, og það því heldur sem prentstillinn mun ekki vera feldur niður, og því sáralítill kostnaður við að margfalda frv.