15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Þorláksson:

Það hafa orðið langar umræður um Ísafjarðarkosninguna, enda mátti búast við því fyrirfram, að háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), eini þingliðsmaður Haralds Guðmundssonar, hins fallna frambjóðanda á Ísafirði, myndi vilja veita þessum flokksbróður sínum þá litlu huggun að tala máli hans í sem lengstum ræðum, og það var heldur engin furða, þó fyrirrennari þessa frambjóðanda á Ísafirði, háttv. 1. þm. Árn. (MT) tæki í sama strenginn. En óneitanlega gefur það skakka hugmynd um gildi kosninganna, þessar löngu ræður um Ísafjarðarkosninguna, borið saman við það, að Eyjafjarðarkosningin var samþykt umræðulaust. Það er sem sje í mínum augum enginn efi á því, að Ísafjarðarkosningin hafi verið mun minna gölluð en sú í Eyjafirði. Mun jeg síðar víkja betur að því.

Jeg vil þá fyrst svara í fám orðum nokkrum almennum athugasemdum í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (MT). Hann vildi veita l. um kosningar til Alþingis bókstafsþrælkun. Frá sjónarmiði hans sem lögfræðings er auðvitað ekkert við þessu að segja, ef hann væri samkvæmur sjálfum sjer, en þar skjátlast honum. Hann telur, að ef sinni kenningu væri fylgt í skilningi á lögunum, þá hefði Haraldur Guðmundsson einu atkvæði fleira en Sigurjón. Þetta er ekki rjett. Ef lögunum ætti að fylgja út í æsar, þá hefði Sigurjón að minsta kosti 5–6 atkv. fram yfir Harald, því þá myndu falla frá hinum síðarnefnda 6 atkv. af hinum heimagreiddu, sem voru meira eða minna rangrituð. En hjer vil jeg bæta við, að frá mínu sjónarmiði er þessi kenning svo, að hið háa Alþingi geti ekki farið eftir henni. Skoðun Alþingis í þessu efni hefir nefnilega breyst á síðasta áratug. Það var ef til vill einu sinni talsverð tilhneiging hjá því að fara stranglega í þessi efni, svo sem t. d. um Seyðisfjarðarkosninguna 1909, en það hefir síðan sent frá sjer gögn, sem sýna skilning þess á þessu atriði. Á jeg þar við l. um þingmannakosning í Reykjavík, nr. 11, 18. maí 1920. Þar eru tekin upp ákvæði um það, hvenær kjörseðill verði talinn ógildur, og eru það síðustu lagafyrirmæli um þetta efni. Þar segir svo, að seðill verði ógildur, hafi kjósandi „sett á hann strik eða rispu eða önnur slík einkenni, er ætla má að gert sje til að gera seðilinn þekkjanlegan“ (8. gr.). Eftir þessum ákvæðum hefir verið úrskurðað um kosningar hjer í Reykjavík og Alþingi farið eftir þeim í skýringum sínum á kosningum utan Reykjavíkur, enda verður það að teljast allra hluta rjettast.

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) komst inn á líka braut og háttv. 1. þm. Árn. (MT). Hann vildi telja það rangt, að þeir menn rjeðu úrslitum, sem ekki kynnu að skrifa nöfn frambjóðenda rjett. Jeg verð aftur á móti að álíta það ljelegan mælikvarða á hæfileika manna til að taka þátt í meðferð landsmála, hvort þeir eru leiknir í því að stafa rjett orð eða ekki. Jeg þekki að minsta kosti eina 87 ára gamla konu, sem aldrei hefir með vissu kunnað að stafa löng orð, en sem þó ber vissulega eins mikið skyn á þjóðmálin eins og hver meðalþingmaður. Enda veit jeg það, að Alþingi hefir aldrei ætlast til, að leikni í því að stafa mannanöfn ætti nokkru að ráða um þetta. Háttv. þm. muna líka, að fyrir nokkru var sú breyting tekin upp að nota stimpil við kosningar, til þess að misritun þyrfti ekki að valda ógildingu á seðli. En hjer ber að sama brunni, að ef fylgja skal til enda reglunni um að taka aðeins seðla með gallalausri rjettritun til greina, þá verður ekki síður að ónýta þá seðla, þar sem nafn Haralds Guðmundssonar er freklega rangritað.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) þarf jeg fáu að svara. En þó vil jeg minnast á það, að þar sem kjósendur standa á kjörskrá á tveim stöðum, hljóta kjörstjórnir á báðum stöðum að veita atkvæði þeirra móttöku, og er engin ástæða til þess að ógilda kosninguna fyrir það. Hitt er annað mál, hvort eigi megi sækja kjósendur til víta fyrir að misbeita kosningarrjetti sínum á þennan hátt, og fá þá t. d. dæmda í sektir. — Það er mál á milli kjósenda og hins opinbera ákæruvalds. — En ef ógilda á atkvæði slíkra manna á öðrum hvorum staðnum, þá liggur það í augum uppi, að atkvæði þau, er síðar eru greidd, eiga að verða fyrir því, því þá eru þeir búnir að nota sjer kosningarrjett sinn áður á lögmætan hátt. Þau tilfelli, sem upplýst er um í sambandi við Ísafjarðarkosninguna, að þannig hafi að verið farið, ættu því, eftir því sem uppvíst er orðið, aðeins að hafa áhrif á kosninguna í Reykjavík og Strandasýslu.

Jeg skal þessu næst lýsa með fáum orðum hvernig kosningin á Ísafirði kemur mjer fyrir sjónir.

Annmarkarnir við sjálfa atkvæðagreiðsluna virðast hafa verið mjög litlir og ekki sambærilegir við gallana á Eyjafjarðarkosningunni, þar sem heimagreidd atkvæði voru tekin gild eftir vottorði umboðsmanns hreppstjóra. Engin slík atkvæði voru tekin gild á Ísafirði, og yfirleitt virðist kjörstjórnin þar hafa gætt mikillar varkárni. Slíkir ágallar geta því ekki felt kosninguna.

Þá er talning seðlanna. Sje svo, að fylgja beri hinum strangasta skilningi á bókstaf laganna, þá verður árangurinn, að Sigurjón hefir fleiri atkvæði. En sje staðnæmst við úrskurðaða vafaseðla, þá hefir Sigurjón eitt atkvæði yfir. Og sjeu þau atkvæði enn talin með, sem meiri hluti kjörstjórnar samþykti að taka gild, þá lenda tvö atkvæði á hvorn frambjóðendanna og Sigurjón hefir eitt atkvæði framyfir Harald. Þá er að líta á þann seðil, sem næstur stendur til að vera gildur. Úrskurðurinn í Eyjafjarðarsýslu valt á einum seðli. Sá var svo gerður, að greinilega var stimplað við nöfn tveggja frambjóðendanna og svo aftur greinileg klessa við þann þriðja. Hann var úrskurðaður ógildur. Eins stendur á hjer; það er greinilega stimplað við nafn annars frambjóðandans og líka greinileg klessa við nafn hins. Og ef slíkur seðill er ógildur í Eyjafirði, þá hlýtur hann líka að vera það á Ísafirði. En sje svo, þá er málinu lokið og Sigurjón er rjett kosinn með eins atkv. meiri hluta.

Jeg vil enn bæta því við, að vilji menn ganga lengra og taka með alla þá seðla, er sýna vilja kjósendanna, þá verður atkvæðamunurinn ennþá meiri og miklu fleiri atkvæði, sem falla Sigurjóni í vil. Það er því enn meiri ástæða til að taka kosninguna gilda.

Eftir að hafa lýst þessu get jeg að endingu með góðri samvisku vísað frá mjer og öðrum öllum aðdróttunum um hrossakaup í sambandi við þetta mál. Hitt er annað, að kjörbrjefadeildirnar báru sig saman, og var það nauðsynlegt fyrir þær til að fá sameiginlegan grundvöll undir tillögur sínar. Og að úrskurðir bæði fyrstu og þriðju kjörbrjefadeildar voru samræmir, liggur í því, að aðalefnið lá eins fyrir í þeim báðum.

Jeg vil svo að lokum vænta þess, að hið háa Alþingi samþykki kosningu Sigurjóns Jónssonar og sýni með því samræmi í gerðum sínum.