02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg ætla mjer ekki að gera að umtalsefni margar brtt., er fyrir liggja á þskj. 261, og ekki heldur aðrar brtt. á öðrum þskj. Læt jeg mjer nægja að skírskota til þess, sem hv. samþingismaður minn (MT) sagði um þær till, sem við flytjum saman, þar eð jeg felst algerlega á ummæli hans um þær í gær. Jeg á brtt. á þskj. 261, XXXV. sem, eftir því sem fram kom við 2. umr. fjárlaganna, fann ekki náð í augum hv. deildarmanna. Jeg fer nú fram á minni fjárupphæð, og vænti jeg því, að till. verði vel tekið. Tel jeg mjög óviðeigandi af þinginu að hjálpa til að koma slíku fyrirtæki á stofn, en banna því svo síðar starfrækslu. Finst mjer, að þegar þingið hefir hjálpað til að koma á fót starfsemi, þá megi ekki samstundis leggja hindrun í veginn fyrir hana. Er það mjög varhugavert og ilt að ýta undir menn til þess að hefjast handa og ráðast í fyrirtæki, en að því loknu að banna þeim með lögum að starfrækja það. Þýðir ekki í þessu sambandi að skírskota til þess, að hægt sje að færa bygginguna úr stað. Við það verður kostnaðurinn svo mikill, að engin leið er að því, að þetta fyrirtæki geti borið sig. Það tvöfaldar stofnkostnaðinn.

Þá vildi jeg minnast á síðari till. mína á sama þskj., um Skeiðaáveituna. Verð jeg, af því að málefnið er þess eðlis, að það liggur ekki ljóst fyrir öðrum en þeim, sem sjerstaklega þekkja til þess, að drepa á það, hvernig fyrirtækinu hafi vegnað frá öndverðu og gera grein fyrir kostnaðinum, sem af því hefir leitt. Get jeg ekki gengið fram hjá þessu, þannig að hv. þm. geti látið atkvæði sín falla mönnum þessum til óhagræðis fyrir það, að ekki hafi verið gerð nógu ítarleg grein fyrir málinu.

Jeg hygg, að það hafi verið árið 1880 að fyrst var talað um að veita á Skeiðin. Var það presturinn á Ólafsvöllum, sem þá var sjera Stefán Stephensen. Taldi hann það vera framkvæmanlegt og til hinna mestu búnaðarbóta. Árið 1888 mældi svo búfræðingur Sveinn Sveinsson landið og gerði áætlun um kostnaðinn, og taldist honum svo til, að kleift væri að framkvæma þetta. Þó þótti athugun hans ekki svo nákvæm, að mönnum þætti unt að gera út um það, hvort ráðast skyldi í fyrirtækið eða ekki. Þá gerir Sæmundur Eyjólfsson búfræðingur árið 1892 áætlun um kostnaðinn, en hún var heldur ekki vel greinileg. Lá nú málið í dái þar til 1906. Er þá fenginn hingað upp danskur verkfrœðingur, Talbitzer, til þess að gera hjer ýmsar mælingar og athuga ýmsar framkvæmdir, og mældi hann þá, að tilhlutun Búnaðarfjelagsins, Skeiðin og gerði ítarlega kostnaðaráætlun. Gerði hann ráð fyrir, að fyrirtækið mundi kosta 200 þús. kr., og þótti mönnum það of mikið fje til þess að ráðist yrði í framkvæmd fyrirtækisins. Treysti sveitin sjer ekki til að ráðast í þetta að svo stöddu; bjóst ekki við að geta staðið straum af kostnaðinum, og því lá málið niðri um nokkur ár. Nokkru síðar gerðu menn nánari athugun á svæðinu, og var þá Búnaðarfjelaginu bent á það, að taka mætti Þjórsá á öðrum stað en þeim, sem Talbitzer hafði gert ráð fyrir, og mundi það leiða til mikils sparnaðar. Var þá fenginn þáverandi landsverkfræðingur Sigurður Thoroddsen til þess að rannsaka málið og gera áætlun um kostnaðinn, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að kostnaðurinn mundi nema 100 þús. kr. Var þó enn ekki ráðist í verkið. Sumarið 1915 var svo verkfræðingur Jón Ísleifsson fenginn til þess að gera mælingar. Var hann þá aðstoðarmaður hjá þáverandi landsverkfræðingi Jóni Þorlákssyni, og kom hann með kostnaðaráætlun, sem er dagsett 21. mars 1916. Var mæling hans og áætlun lögð til grundvallar fyrir framkvæmd verksins. Áætlaði hann, að kostnaðurinn mundi nema rúmum 100 þús. kr. Þessi sami verkfræðingur gerði svo síðar áætlun um kostnaðinn fyrir hvert einstakt býli, og var það eftir þeirri áætlun samtals 107 þús. kr. Er áætlunin dags. 8. jan. 1917. Var gröfturinn og þess háttar áætlaður alls 103600 kr. Þegar hjer er komið sögunni, álíta bændur sjer fært að ráðast í fyrirtækið, og hjeldu þeir því með sjer fund 15. febrúar 1917, og var þar samþykt að ráðast í verkið. Var nú leitað til Landsbankans um lán, og fjekst það — veðdeildarlán til 40 ára, gegn ábyrgð sveitarstjórnar Skeiðahrepps, sem aftur tók jarðirnar að veði með 2. veðrjetti. Þá leitaði sveitin til þingsins 1917 um styrk og fjekk það loforð, að landið skyldi greiða ¼ hluta kostnaðarins. Forstöðumaður verksins var ráðinn Geir G. Zoëga núverandi vegamálastjóri, en verkið sjálft hófst 5. júní 1917. Þetta var í fyrsta sinn er ráðist var í slíka starfsemi á landi hjer, og voru menn því ókunnugir ýmsu, er að því laut, sem vonlegt var. Voru menn til að byrja með ráðnir upp á tímakaup, 50 aura á klukkustund. Mun óhætt að fullyrða, að ef reynsla hefði verið fengin fyrir slíku verki hjer á landi áður, þá hefði mátt fá verkið framkvæmt bæði á annan hátt og ódýrara. En mönnum var vorkunn, þó að nokkur mistök yrðu fyrsta árið — án þess að jeg ætli mjer þó að gera nokkuð sjerstaklega mikið úr þeim mistökum. Þó hygg jeg, að heppilegra hefði verið að bjóða vinnuna út í ákvæðisvinnu, akkorði svokölluðu. Enda var vinnan boðin út þannig síðar, er reynslan var fengin, og reyndist það miklu ódýrara. Var um eitt skeið talið, að hver ten.m. kostaði í tímavinnu 67½ eyri, en í ákvæðisvinnu 40 aura. En verkið sóttist seint með handavinnu einni, og þegar að því kom, að gera átti stærsta skurðinn, þá sáu menn, að nauðsynlegt var að fá betri tæki. Því var það, að í fjárlögunum 1918 var veitt fje til þess að kaupa skurðgraftarvjel. Kom sú vjel til landsins 1919 í júní. Var hún ósamsett og ýmsir hlutar hennar stórir og þungir og því erfiðir til flutnings. Voru sumir þeirra fluttir sjóveg til Eyrarbakka, en aðrir landveg austur. Vjelin var því ekki tilbúin til vinnu fyr en seint í september sama ár. Var þá besti starfstími ársins um garð genginn og við það bættist, að menn voru tækinu óvanir, og olli það ýmsum mistökum og töfum á verkinu, auk þess sem af því leiddi, að það varð töluvert dýrara. Sumarið 1920 var vinnunni haldið áfram, en þá var margt orðið dýrara en áður var. Þá var tímakaup orðið kr. 1,20–1,48. Sú athugun var einnig þá gerð, að kostnaðurinn við hvern ten.m., sem grafinn var með vjelinni, var meiri en við handavinnu, eða um kr. 1,72. En seinna, þegar menn fóru að venjast vjelinni, komst þó kostnaðurinn niður í 90 aura á hvern ten.m. Sement kostaði þetta sumar komið austur 70 kr. tunnan, og það segir sig því sjálft, að ekki er að undra, þó að verkið kostaði meira en áætlað var í fyrstu. Sumarið 1921 var verkinu haldið áfram, en er eftir var að grafa um 700 lengdarmetra, þá kom í ljós klöpp, sem menn vissu ekki um áður. Var hún um 2 metra á þykt, sem sprengja þurfti niður. Hafði að vísu verið haft á orði, að þarna mundi vera klöpp, sem ekki væri ómögulegt að næði skurðinum, en það var svo athugað af verkfræðingi, og mótmælti hann þeirri fullyrðingu. Eins og menn geta nærri, seinkaði þetta vinnunni mjög og gerði hana miklu dýrari. Sumarið 1922 var svo vinnunni haldið áfram sem áður. 1923 var vinnan hafin um páska, og unnu þá fæst 18 menn en flest 35. Var vinnunni svo lokið 28. maí 1923 og var vatninu þá hleypt yfir landið. Sá kostnaðarauki, sem af klöppinni leiddi, nam rúmum 100 þús. kr., en áveitukostnaðurinn allur var um 430 þús. kr., eða ferfaldur við það, sem áætlað var í fyrstu.

Þegar vart varð við klöppina, álitu margir búendur, að rjett mundi að hafa aðfærsluskurðinn annarsstaðar en ætlað var í fyrstu. Sumir vilja nú máske segja, að rjett hefði verið að hætta við verkið. Þeir bjuggust við miklum kostnaði við að sprengja klöppina, eins og raun varð á. En þar sem mjög mikilli vinnu og miklu fje var þá búið að eyða í þetta fyrirtæki, var engin leið annað en halda því áfram. Það var of seint að hverfa aftur. Jeg vænti þess, að af þessu stutta yfirliti, sem jeg hefi gefið, geti menn gert sjer glögga grein fyrir aðstöðu búenda þessara sveita til þessa máls. Er jeg þess fullviss, að þeir hefðu aldrei lagt út í þetta, ef þeir hefðu búist við helmingi þess kostnaðar, sem raun varð á, hvað þá heldur meira. En þetta verk má skoða sem tilraun fyrir samskonar fyrirtæki hjer á landi. Þessir menn hafa að vísu verið svo óheppnir að lenda með framkvæmdir sínar á þeim breytingatímum, er engan mann í heimi hafði órað fyrir. Ef menn hefðu sjeð þá fyrir, hefði tilhögun manna að því er snertir fjármál orðið alt önnur. Jeg skal geta þess, að þessir bændur höfðu ekki fyrirtækið á valdi sínu eftir að það var byrjað, heldur var það undir umsjón annara, og voru það þeir menn, sem álitnir eru að hafa besta þekkingu á slíkum málum og fengnir voru til að gera áætlun.

Nú flyt jeg þessa till. um að gera þessum mönnum ívilnun á vöxtum og afborgunum tvö næstu ár, til þess að gefa þeim kost á að auka bústofn sinn áður en þeir tækju sjer þessa þungu byrði á herðar. Þó það sje samkvæmt fyrv. ákvörðun þingsins, að ríkissjóður leggi fram kostnaðar, þá er það, sem eftir er, svo gífurleg upphæð, að tæplega 30 bændur munu alls ekki geta risið undir þeim skuldabagga. Því síður geta þeir það áður en þeir hafa notið neins arðs af framkvæmdunum. Ekki vilja þeir samt skjóta sjer undan að greiða svo mikið, sem þeim er fært. Vilja þeir gjarnan, að það verði athugað frá hálfu hins opinbera, hvað þeim er fært í þessu efni. Ef leggja á þessa þungu byrði á herðar þessara fáu bænda, er það öldungis víst, að þeir kikna undir henni. Þeir mundu fljótlega hröklast af jörðum sínum. Og þó aðrir menn ættu að koma á jarðirnar og ættu að standa skil á öllum kostnaði, er jeg alveg viss um, að þeir færu sömu leiðina. Má vera, að það komi ekki mikið við hjörtu sumra hv. þm., þó einn og einn hreppur væri tekinn upp, vegna atvika, sem hann ekki gat ráðið við. Undanfarin ár hefir þannig verið háttað um atvinnumálin, að minsta kosti um sjávarútveginn, að þó nokkur stuðningur hefir fengist frá hinu opinbera undir eins og þörf krafði. Undirtektir þessa máls eru því algerlega í ósamræmi við allar aðgerðir í fjármálum síðustu ára. Till. mína á þskj. 261 hefi jeg sniðið eftir hinum bágborna hag ríkissjóðsins og ekki farið fram á beint fjárframlag úr ríkissjóði til greiðslu á vöxtum og afborgunum til Landsbankans. Myndi jeg undir öllum öðrum kringumstæðum hafa farið þá leið. Jeg hefi hagað till. minni á þann veg, að þingið heimilaði stjórn Landsbankans að gefa þessum bændum eftir greiðslu vaxta og afborgana í tvö ár, með því að full vissa væri fyrir, að þeir gætu ekki risið undir skuldabyrðinni sem stendur. Myndu þeir þá síðar geta staðið straum af nokkuð miklu af kostnaðinum. Ef þingið samþykkir þessa till., virðist mjer það ekki þurfa að gefa bankastjórninni fyrirskipanir, hvernig hún hagaði sínum aðgerðum í þessu máli. Jeg skoða það heldur sem yfirlýstan vilja þingsins um, að það láti óátalið, þó bankastjórnin geri ívilnun til þessa sveitarfjelags. Býst jeg við, að þingið geri bankastjórninni þægt verk með þessu. Jeg ætla ekki, að stjórn Landsbankans beiti sveitarfjelagið því valdi, sem hún hefir, og reki búendur af jörðum sínum. Fyrirfram geri jeg ekki ráð fyrir því. Orðalag þessarar till. er á sömu leið og heimild, sem þingið hefir áður gert viðvíkjandi Landsbankanum. í 23. gr. í fjárlagafrv., sem liggur nú fyrir til umr., er orðalag nákvæmlega það sama og á annari fjárgreiðslu, er Landsbankinn hefir um mörg ár int af höndum. Þar sem hjer er að ræða um svo stórvægilegt mál, sem nauðsynlegt er að greiða fyrir á sem hentugastan hátt, ætti henni að vera kærkomið að hafa yfirlýstan vilja þingsins að baki sjer. Það hefir verið haft á orði hjer, að ekki væri rjett af þinginu að hlutast til um starfsemi bankanna. En jeg veit ekki betur en að hjá öllum menningarþjóðum hafi það þótt ein æðsta skylda löggjafarvaldsins að líta eftir bankastarfseminni og hlutast til um hana, ef á þurfti að halda. Það er því síður en svo, að jeg biðji nokkurrar afsökunar á því, að jeg ber þessa tillögu fram. Mjer finst það engin goðgá, þó þingið hafi íhlutun um bankastarfsemina í landinu. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þessa till., en vona að hv. deild líti með allri sanngirni á málið. Jeg hefi með þessari greinargerð gert allljóst, hvernig er ástatt um þetta fyrirtæki. Þætti mjer allhart, ef hið háa Alþingi daufheyrðist að þessu sinni, þar sem um svo brýna nauðsyn er að ræða.

Hjer gæti jeg í raun og veru lokið máli mínu. En það hefir komið fram sitthvað við umr. þessa fjárlagafrv., sem jeg get ekki leitt hjá mjer að minnast á. Sjerstaklega er það ræða hv. fjrh. í gær, sem gefur mjer tilefni til að segja nokkur orð. Hann gerði fjárhag landsins að umtalsefni sínu, og það, hvernig fjármálunum hefir verið stjórnað síðustu ár. Hann hafði haldið erindi áður en þing kom saman, sem gekk í svipaða átt, og dregið upp allgreinilegar myndir af ástandinu. Hann sakaði bæði þing og aðra, sem með fjármálin höfðu farið síðustu árin. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að tekjuhalli ríkissjóðs frá 1917–1922 næmi rúmlega 10 milj. kr.

Þar sem jeg hefi haft meiri kynni af fjármálunum þessi árin en ýmsir aðrir, af því að jeg hefi haft yfirskoðun landsreikninganna með höndum, er ekki órjettmætt, að jeg víki að þessum málum örfáum orðum. Veit jeg ekki hvort hæstv. fjrh. er það nærri, að hann megi heyra mál mitt. Kysi jeg heldur, að hann væri viðstaddur, svo hann hefði kost á að svara, ef honum þætti þurfa. Jeg skal þó reyna að haga ummælum mínum þannig, að þau ekki meiði hann.

Þessa uppgerð á landsreikningunum (tekjuhallann), sem hæstv. fjrh. gerði að umtalsefni, fær hann með því að taka saman þær upphæðir á öllum þessum árum, sem útgjöldin hafa farið fram úr tekjunum. Fljótt á litið virðist þetta rjett; og jeg get verið honum sammála um, að þegar til lengdar lætur er hyggilegast að haga fjármálum samkvæmt þessu og að landsreikningana beri að gera upp einmitt á þennan hátt. En mjer finst, þegar verið er að tala um efnahag og eyðslufje, að ekki sje hægt að gera upp reikninga landsins frekar en menn mundu gera upp fyrir einstakar stofnanir. Það verður að athuga, hvernig fjenu er varið, og þegar litið er á það, skakkar miklu frá niðurstöðu hæstv. fjrh. Á þessu tímabili hefir ríkið ráðist í ýms fyrirtæki, látið byggja brýr, hús, vita og sitthvað annað. Og þó að flestar framkvæmdir ríkisins gefi ekki stórvægilegan arð, má engan veginn skoða fjeð sem glataðan eyðslueyri. Sem betur fer hefir ekki nema nokkuð af þessari nefndu upphæð farið alveg í súginn; allmikið af tekjuhallanum liggur í framkvæmdum ríkisins. Ekki er hægt að ásaka þá menn, sem hafa staðið að þessum framkvæmdum eftir skipun þingsins. Eigi einhver ámæli skilið í þessu efni, er það bersýnilegt, að fyrst og fremst liggur sökin hjá Alþingi. Ráðherrarnir, sem hafa farið með málin milli þinga, hafa verið þjónar þingsins og gert þessar framkvæmdir eftir fyrirskipun þess. Má vera, að hinu háa Alþingi hafi orðið skyssa á þegar það samþykti lög um húsabyggingar ríkisins, byggingu brúa o. fl., og gerði ráð fyrir, að landið gæti tekið fje að láni til framkvæmdanna. Þær ádeilugreinar, sem komið hafa fram, eru mjög skiljanlegar frá þessu sjónarmiði. Undanfarin ár hafa andófsblöð stjórnanna talið skyldu sína að vaka yfir, hvernig farið er með fje ríkisins. Má telja það nauðsynlegt fyrir þing og stjóra að hafa aðhald í þessum efnum, og á þann hátt hefi jeg skilið þau skrif, sem orðið hafa um þessi mál.

Þó að jeg hafi átt sæti á þingi 1919, ætla jeg ekki að beiðast undan þeim ákúrum, sem jeg á skilið fyrir þær till., sem jeg hefi gert á þeim tíma. Jeg þykist í því efni ekki hafa sem versta aðstöðu. Alþt. munu bera þess vott, að jeg ekki ósjaldan hefi greitt atkvæði móti þeim till., sem síðar meir urðu ríkissjóði þungar í skauti. En jeg hlýt að álíta, að því þingi hafi verið nokkur afsökun, þó það liti heldur björtum augum á framtíðina.

Jeg verð að segja það, viðvíkjandi ýmsum ummælum, sem hæstv. fjrh. hefir látið falla, að jeg hygg ekki erfitt að sanna, að honum hafi ekki á þessum árum farist betur en þinginu, að því er ýmsar framkvæmdir snertir. Jeg skal nefna tvö fyrirtæki, sem hann hefir verið hvatamaður að, að í var ráðist, sem sje húsbygging Eimskipafjelagsins og bygging rafstöðvar Reykjavíkur. Jeg veit, að hæstv. fjrh. stóð í broddi fylkingar í að koma þessum fyrirtækjum af stað. Hefir hann sjálfsagt gert það í besta skyni. En jeg hygg nú, að þessar framkvæmdir hafi sannað, ekki síður en annað, hversu herfilega mönnum getur mistekist í áætlunum.

Um leið og hæstv. fjrh. áfellir okkur og Alþingi fyrir ráðstafanir á síðastliðnum árum, finst mjer að hann hefði átt að skoða í sinn eiginn barm og athuga, hverskonar till. hann hefir gert um framkvæmdir fyrir fáum árum. Býst jeg við, að hann sjái, að sitthvað af því, er hann hefir lagt til, hefði betur mátt fara, og best, að það hefði ekki verið framkvæmt. Jeg hygg, að tilraunir hans nú og annara til sparnaðar hafi verið bygðar á þekkingu og reynslu þessara ára. Hafi nú hæstv. fjrh. verið glöggskygnari á þessi mál en aðrir á þessum tímum, hví gerði hann þá ekki aðrar tillögur! Og síst mun það bæta málstað hans, ef það verður upplýst, að hann hafi sjeð þetta fyrir, en þó ráðið til hins gagnstæða. Þess er ekki von, að stjórnin gæti á þessum árum hindrað framkvæmdir, sem þingið hafði fyrirskipað. Í þessu efni er stjórnin eins og flestir aðrir, t. d. þeir, er rjeðu fyrir Skeiðaáveitunni, svo jeg nefni eitthvert dæmi, að það hefir verið hafist handa í góðri trú um það, að kostnaðurinn yrði minni en raun hefir á orðið. Jeg minnist t. d. einnar byggingar, sem Alþingi ákvað að láta byggja fyrir 60–80 þús. kr., en það varð þó að síðustu um 4 milj. kr. í þetta hefði alls ekki verið ráðist, ef menn hefðu sjeð þennan mikla kostnað fyrir. Þannig mætti lengi telja. Jeg veit, að jeg gæti talið upp í eina 3–4 tíma, hvernig ýmsar slíkar áætlanir hafa farið, hvernig verðlag hefir breyst, og fært rök fyrir því, að þó að kostnaður ýmsra framkvæmda hafi farið fram úr áætlun, hafi hann, að minsta kosti í sumum tilfellum, ekki verið neitt óeðlilegur. Hins vegar er jeg sammála um það, að menn eigi að læra af þessari reynslu að fara gætilegar og hyggilegar að en áður og reyna að fá vissu fyrirfram um, að kostnaðurinn við framkvæmdirnar verði ekki meiri en gert hefir verið ráð fyrir. En út frá þessari reynslu er ekki hægt að heimta minni sanngirni af neinum manni en að hann reyni ekki að heimfæra þessa sök á aðra, en þykist alt hafa sjálfur sjeð betur fyrir. Hann verður þá að minsta kosti að geta sannað, að hann hafi ekki sjálfur drýgt sömu syndirnar. Það hefði sýnt sig, ef landsstjórnin hefði vitað betur og tekið í taumana að þá hefði ekki svona farið, en þessi tími hefir verið okkar reynsluskóli, og jeg hygg, að allir hv. þm. vilji nú gera sitt besta til að koma nú fram með tillögur landinu til búbóta. Mun jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta.

Hæstv. fjrh. vildi helst víkja að einum landsmálaflokki sjerstaklega fyrir eyðslu á landsfje, en jeg hygg samt, að þó hann sje allslyngur og vel að sjer ger, þá hafi hann samt bundið sjer þar þann bagga, sem hann sje ekki maður til að rísa undir. Annars er óþarfi að deila um þetta; þingsagan sýnir það og sannar, að þetta er engum sjerstökum flokki að kenna. Það bera ýmsir sökina. Jeg vil engum sjerstökum flokki eigna þessa sök hana eiga margir, ef ekki allir meira og minna, sem við þessi mál hafa verið riðnir.

Því, sem hæstv. fjrh. vjek að hv. þm. Str. (TrÞ), svara jeg ekki; þar er hv. þm. Str. maður til að svara fyrir sig sjálfur. En þó get jeg ekki stilt mig um að víkja að einu atriði í ræðu hæstv. fjrh., þar sem hann kvaðst aldrei hafa kent fljótfærni hjá sjálfum sjer, og sæti því illa á háttv. þm. Str. að vera að brigsla sjer um þann hlut.

Það má vel vera, að hæstv. fjrh. hafi aldrei skyssa orðið á í öllum þeim framkvæmdum, sem hann hefir haft með höndum og ráðið til, að gerðar yrðu, heldur hafi þar alt verið vel íhugað fyrirfram og að yfirlögðu ráði gert, en þá verð jeg að segja, að málstaður hæstv. fjrh. verður þá síst betri.