23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1804)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Jón Baldvinsson:

Það er alveg rjett hjá hv. þm. Borgf. (PO), að lögin frá 1922 eru í raun og veru ekki ný, heldur eru þar eldri lagafyrirmæli dregin saman í eina heild. Umræður urðu þá óvenjulega litlar, en af þeim má þó ráða, að frsm. í Ed. ætlaðist að minsta kosti ekki til neinna breytinga á gamla fyrirkomulaginu, enda minnist jeg þess, þó að ef til vill sje ekki rjett að vitna í ummæli á nefndarfundum — og líka erfitt að muna slíkt löngu seinna —, að í sjútvn. Nd. var um það rætt, að ákvæðum laganna yrði sjerstaklega beitt gagnvart síldveiðum útlendinga, en um þorskveiðar gilti sama sem áður. Jeg minnist og, að jeg hlýddi á viðtal, þar sem þáverandi þm. Vestm. og frsm. í Ed. skýrði frá því, að bann hefði, að gefnu tilefni í embættisfærslu sinni, rannsakað hvaða lagafyrirmæli giltu í þessu efni, og hafi hann komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri lögum samkvæmt að leyfa útlendum skipum að leggja hjer afla á land, en vegna gamallar venju hefði það verið látið óátalið.

Síðan 1922 hefir því verið tekin upp ný og óvænt framkvæmd á gömlum lögum, og kemur það nú hart niður á einstaka stað. Það má vera, að menn hafi litið öðruvísi á þetta 1922, menn hafi þá verið bjartsýnni á atvinnuhorfur hjer á landi en nú. Atvinna er nú miklu rýrari en áður, og það er ljóst, að þau atvinnutæki, sem vjer eigum nú og fáum í nánustu framtíð út á lánstraust vort, geta ekki nægt.

Sú breyting er og á síðustu 20 árum orðin á atvinnubrögðum manna til sjávarins, að nú þarf meira fje en áður. Atvinnutækin eru orðin stórkostlegri og dýrari, en hin smærri horfin. Þess vegna er ástæða til að rýmka svo ákvæði fiskveiðalöggjafarinnar eins og þau eru skýrð nú, að þau verði ekki strangari í framkvæmdinni en tilskipunin frá 1872.