23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (1805)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Atvinnumálaráðherra(KlJ):

Jeg bjóst ekki við miklum umræðum að þessu sinni, en þó hafa komið fram nokkur ummæli, sem jeg get ekki látið ósvarað.

Það virðist svo sem þinginu 1922 hafi ekki verið það vel ljóst, hvað þá var á ferðinni. Því þó að sjaldnast sje mikið að græða á umræðum um eitthvert frv. fyrir þá, sem síðar vilja skýra lögin og ráða í vilja löggjafans, þá er það þó alveg sjerstakt, hvað lítið maður græðir á því að lesa umræðurnar um þetta mál í þingtíðindunum 1922. Annaðhvort hefir þinginu ekki verið málið ljóst, eða þá litið svo á, sem einungis væri verið að draga eldri, gildandi lög saman í eina heild og ekki annað.

Þó að nú komi fram yfirlýsingar frá einstökum nefndarmönnum, efast jeg um, að þeim sje þetta mál svo minnisstætt, að mikið sje á því að græða, er þeir halda nú fram um skilning nefndanna á hinum og þessum atriðum. Lögin frá 1922 ber að mínu áliti aðallega að skoða sem codification af þágildandi lögum. Nú eru þessi lög rifin niður, eins og heill lands og þjóðar sje í voða. Því var neitað í Hafnarfirði, að þau nái til annars en síldveiða, eins og þorskveiðar sjeu ekki fiskveiðar. Það er vitanlegt, að lögin eiga við allar fiskveiðar. En því er haldið fram, að framkvæmd laganna frá 1922 sje önnur en á samskonar lagafyrirmælum áður, og því hafi menn ekki búist við. Þetta er gersamlega rangt, að lögunum sje nú beitt á annan hátt en áður, er kemur til þorskveiða. Það er gömul krafa frá útlendingum, einkum Frökkum, að fá að reka veiðar úr landi. Það var á sínum tíma farið fram á það af þeim, að þeir fengju að reisa stöðvar á Dýrafirði og á Austfjörðum, en þess var jafnan synjað. Þvílík tilmæli hafa altaf verið að koma um marga áratugi, og jeg minnist að hafa sjeð, að um 1860 var slíkri beiðni vísað á bug; svo gömul er þessi krafa. Útlendingum hefir því jafnan verið meinað algerlega að reka fiskveiðar úr landi, og er þessari löggjöf því ekki beitt öðruvísi en áður. Ef nokkur breyting er á þessu orðin, er það frekar á hinn veginn, að lögunum er beitt vægar og til hags fyrir þá, sem berjast nú fyrir því, að útlendum skipum sje leyft að hafa bækistöð hjer, og á þetta jafnt við þorskveiðar og síldveiðar. Tvö undanfarin ár hefir nokkrum útlendum skipum, sem stunduðu veiðar fyrir utan landhelgi, verið leyft að selja afla sinn í Reykjavík, og mætti segja, að þeim hefði verið gefinn meiri rjettur með þessu en lögin heimila. Jeg verð því að neita, að lögunum sje harðara beitt en áður.

Frv. þetta er flutt vegna þeirrar miklu neyðar og atvinnuvandræða, sem nú eru í Hafnarfirði, sem mjer er fullkunnugt um. Jeg þykist vita, að hv. þm. muni vilja firra þennan kaupstað og aðra, sem líku máli gegnir, vandræðum. En það má gera án þess að samþykkja þetta frv., t. d. með almennum heimildarlögum fyrir stjórnina, um að hún megi veita undanþágu frá þessum ákvæðum laganna, ef henni þykir lífsnauðsyn bera til.

Jeg býst við meiri umræðum um þetta mál við 2. umr. og skal þá skýra nánar frá afstöðu minni til málsins. Aðeins vil jeg bæta því við, að fyrir skömmu komu hingað ítalskir menn, sem hugðust að kaupa eða leigja stöð í Hafnarfirði, ef þeir gætu fengið leyfi til að leggja afla þar á land. Þeir áttu tal við stjórnina, og var þeim sagt, hvað lögin mæltu fyrir í þessu efni. Nú hafa þeir nýlega ritað stjórninni alllangt brjef um þetta mál, er jeg hefi látið þýða á íslensku og mun leggja fyrir hv. sjútvn., þegar hún fer að íhuga þetta frv.