02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög 1925

Klemens Jónsson:

Mjer þykir líka leitt, að hæstv. fjrh. er hjer ekki viðstaddur, en þó gerir það mjer minna til en þeim háttv. þm., sem nú var að setjast niður, því að jeg hefi honum minnu að svara. Hæstv. fjrh. játaði það í síðari ræðu sinni í dag, að það mætti setja reikninga undanfarinna ára öðruvísi upp en hann hefði gert. Mjer þykir vænt um að heyra það, því eins og háttv. þm. mun kunnugt, er talsverður munur á áætlunum mínum og hæstv. fjrh. (JÞ), og mjer hefir verið láð það, að mínir reikningar væru ekki eins nákvæmir og hans. Jeg skal játa, að þeir eru ekki eins nákvæmir, enda var ekki ástæða til að gera þá svo nákvæma samkvæmt mínum tilgangi með þeim. Mjer nægði það eitt að sýna fram á, að skuldirnar væru orðnar það miklar, að nú yrði að nema staðar og taka nýja stefnu í fjármálum ríkisins. Það gladdi mig því, að hæstv. fjrh. viðurkendi, að það mætti setja þessa reikninga upp á tvo vegu, og er því sýnt, að jeg hafði ástæðu til þess að setja þá svo upp sem jeg gerði, en hinsvegar tók jeg það fram í framsöguræðu minni, að jeg vefengdi alls ekki tölur hæstv. fjrh. Háttv. 2. þm. Árn. (JörB), sem er góður reikningsmaður og reikningsbókarhöfundur, tók það líka fram í ræðu sinni, að þetta mætti reikna þannig og að útkoman gæti farið eftir því, hvernig þessir reikningar væru settir upp.

Þá kem jeg að ræðu þeirri, er hæstv. atvrh. flutti hjer í deildinni í gær, og á jeg erfitt með að svara henni til fulls, þar eð hæstv. atvrh. var sýnilega í allmikilli geðshræringu og bar því svo ört á um tíma, að jeg átti erfitt með að fylgjast með í ræðu hans. Meðal annars heyrði jeg hann segja, að fjrh. einum væri ekki að kenna útkoman á reikningum ríkissjóðs, þar eð hinir ráðherrarnir rjeðu fyrir útgjöldum á svo mörgum liðum, sem undir þá heyrðu. Má þetta vel til sanns vegar færa, en jeg fæ ekki skilið annað en að það sje skylda hvers góðs fjármálaráðherra að skýra „collegum“ sínum frá því, hvernig fjárhag ríkisins sje varið og benda þeim á, ef þörf er á því, að fara varlega í útgjöldin. Jeg hygg, að hver fjármálaráðherra muni gera þetta, enda þótt hann fyllilega viðurkenni umráðarjett „collega“ sinna yfir ýmsum greinum fjárlaganna. Þetta hefi jeg leyft mjer að gera; jeg talaði um það við embættisbróður minn, hinn ráðherrann, að fjárhagurinn væri mjög örðugur og að alls hófs þyrfti að gæta, og bað hann því að spara eftir mætti allar umframgreiðslur, þar sem því yrði við komið, og jeg varð aldrei var við, að hann þyktist við þetta eða tæki mjer það á neinn hátt óstint upp. Jeg hefi leyft mjer að yfirfara og athuga vandlega alla reikninga og stærri greiðslur, sem fram hafa farið í minni tíð í hans stjórnardeild. Það hlýtur því að gleðja mig og aðra að heyra það, að núverandi hæstv. fjrh. hefir lýst yfir þessari sömu reglu að því er sig snerti, og hann hefir jafnvel gengið miklu lengra en jeg í þessa átt. Hann hefir meira að segja áskilið sjer það, eftir hans eign sögn, áður en hann tók sæti í stjórninni, að engar umframgreiðslur megi eiga sjer stað hjá hinum ráðherrunum, nema hans samþykki komi til.

Hæstv. atvrh. fór í samanburð á 14. gr. fjárlaganna 1921 og 1922, en 14. gr. heyrði ekki undir mig, og er mjer því ekki skylt að halda uppi vörn gegn þeim samanburði; en þó hygg jeg, að þetta verði ekki í vil núverandi hæstv. atvrh. Árið 1921, er núverandi atvrh. var fjrh., voru umframgreiðslur á 14. gr. 724 þús. kr., en árið 1922 var hreinn sparnaður 53 þús. kr. á þessum lið. Mjer finst því ekki hæstv. atvrh. ríða feitum hesti frá þessum samanburði. Hæstv. atvrh. vill sennilega láta líta svo út, að útkoman 1922 hefði átt að vera þannig, að meira hefði sparast á þessum lið 1922, því dýrtíðaruppbótin var þá orðin lægri. Það er rjett, að dýrtíðaruppbótin var 137% árið 1921, en 1922 var hún komin niður í 94%. En þessi lækkun kom auðvitað ekki niður öll á þessum lið einum, heldur engu síður á öðrum greinum fjárlaganna, og vitanlega eru 724 þús. kr. í umframgreiðslur margfalt verri útkoma en 1922. Annars hjelt jeg, að hæstv. atvrh. hefði meint fremur 13. gr., því hann talaði í þeim tón, eins og hann væri að meina mig, en hann nefndi þó áreiðanlega 14. gr. En mjer dettur nú í hug að fara í samanburð á 13. gr. árin 1921 og 1922. Árið 1921 stóðust liðirnir A. og B. áætlun. Á C-lið spöruðust 33 þús. kr., en hefðu átt að vera 97 þús. kr., því af styrk til Þorsteins Jónssonar upp í 100 þús. kr. voru aðeins borgaðar út 3 þús. kr. Á D- lið nam umframgreiðsla 621 þús. kr. og á E-lið 76 þús. kr. Alls umframgreiðsla á 13. gr. um 800 þús. kr., en 1922 var umframgreiðsla á þessari gr. 182 þús. kr. Ekki verður þessi samanburður heldur hæstv. ráðherra í vil.

Jeg vil nú samt taka það fram, að slíkur samanburður og þessi frá ári til árs verður aldrei svo rjettur, að óyggjandi megi á honum byggja, því að það er undir svo mörgum atvikum komið, hvernig útkoman verður. Þegar jeg tók við ráðherraembætti í marsbyrjun 1922, var ómögulegt fyrir mig að ráða neinu um verklegar framkvæmdir á því sumri, sem þá fór í hönd. Eins og eðlilegt var, var löngu áður búið að undirbúa og ákveða, hvaða verk yrðu framkvæmd það sumar, og þótt jeg hefði feginn viljað, var alókleift fyrir mig að viðhafa nokkurn sparnað að því er þetta snerti. Stærsti liðurinn útgjaldamegin á þessu ári var Flóaáveitan, en það var þá fyrir rúmum tveimur mánuðum búið að ganga frá fullkomnum samningum við framkvæmdarstjóra þessa verks. Þannig var þá aðstaða mín í marsbyrjun 1922, eða mjög svipuð og aðstaða hæstv. atvrh. (MG), er hann tók við sem fjrh. 1920. Að aðstaða hæstv. núverandi atvrh. sje nú 1924 einnig svipuð þessu, má að vísu segja að sumu leyti, en þó lítur hún nokkuð á annan veg út, því að 1922 átti að framkvæma ýmisleg verk, sem atvrh. gat alls ekki við ráðið eða hamlað, en nú hefir verið ákveðið, að í alls engar verklegar framkvæmdir skuli ráðist þetta árið og hið næsta, og hefir hann því óbundnar hendur um það, er hann vill láta framkvæma, ef eitthvað kynni að rakna úr um fjárhag ríkisins á næstunni. Hæstv. atvrh. hefir því miklu betri aðstöðu en jeg hafði árið 1922. En sem sagt, þessi samanburður er engan veginn einhlítur, og jeg skil ekki í því, að hæstv. atvrh. skyldi vera að hafa fyrir því að tína hann saman, og það því fremur, sem það er nú sýnt og sannað með tölum, að hann er honum síst í vil, og tölurnar verða ekki hraktar.

Háttv. þm. Barð. (HK) vjek í ræðu sinni að styrknum til Breiðafjarðarbátsins, og skal jeg geta þess, að það er rjett, sem hv. þm. sagði, að báturinn fjekk í raun og veru of lágan styrk, 1500 kr., en hefði átt að fá 2000 kr. Stafar þetta af því, að ósamkomulag varð um þetta mál milli samgöngumálanefnda Ed. og Nd., og má því kenna þeim um þetta, en ekki stjórninni, og þetta veit hv. þm. Barð., því að hann hefir fengið að sjá skilríki fyrir þessu síðan hann kom til þings.

Þá var það háttv. þm. Ak. (BL), sem jeg þurfti að ávarpa nokkrum orðum, en jeg sje, að hann er hjer ekki viðstaddur, og get jeg ekki að því gert, en jeg vænti þess, að hv. flokksmenn hans beri honum það, sem jeg nú mæli til hans. Hann sendi mjer mjög vingjarnlegar kveðjur, eins og hans var von og vísa, þess góða manns. Það leit svo út, sem hann vildi gefa háttv. þdm. skýringu á því, hvers vegna jeg og háttv. þm. Str. (TrÞ) hefðum veist svo mjög að hæstv. atvrh. Jeg verð að segja það, að mjer er ekki kunnugt um, að jeg hafi með einu orði ráðist á hæstv. atvrh. Jeg nefndi hann alls ekki á nafn í ræðu minni í gær, enda hafði jeg heldur enga ástæðu til þess, og yfir höfuð man jeg ekki eftir, að jeg hafi nokkurn tíma beint neinum ónotum í hans garð. En þó svo nú væri, að jeg hefði veitt hæstv. atvrh. nokkurt aðkast, er ekki ástæða til að ærast yfir því; þetta er svo að segja daglegt brauð hjer á þingi, að hnútum sje kastað yfir borðin, jafnvel milli vina og flokksbræðra. En þetta hefir aðeins alls ekki átt sjer stað að því er mig snertir, og eru því forsendur hv. þm. Ak. ekki aðeins rangar, — þær eru alls ekki til. Ástæða sú, sem hv. þm. Ak. ber fram fyrir þessu athæfi okkar háttv. þm. Str., hafði átt að vera hviksaga (hann nefndi það orð), sem hafi komið upp um daginn, að jeg hefði leitað til hæstv. núverandi atvrh. um að mynda með mjer stjórn. Jeg get afdráttarlaust, að því er mig snertir, lýst því yfir, að þessi „hviksaga“ er algerlega röng. Jeg hefi aldrei gert neitt í þessa átt eða látið aðra gera það fyrir mig. Hv. þm. Ak. getur sannfært sig um þetta með því að spyrja hæstv. atvrh. En jeg get sagt hv. þm. aðra sögu, sem er áreiðanlega víst að gekk hjerna um bæinn, og hún er á þá leið, að snemma á þessari viku, er loks tókst að mynda stjórn, eftir hjerumbil fjögurra vikna bis og strit, að þá hafi hæstv. atvrh. snúið sjer til mín og beðið mig að vera í stjórn með sjer, og get jeg sömuleiðis lýst því yfir, að hvað mig snertir er þetta einnig ósatt, og get jeg því vel hugsað mjer, að allar þessar sögur sjeu af sama toga spunnar, og því algerlega tilhæfulausar.