23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (1811)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Pjetur Ottesen:

Það er mín meining að halda mjer aðeins við þá hlið þessa máls, að vara við öllum undanþágum og undanhaldi í fiskiveiðalöggjöfinni, vara við þeim háska, sem í því er fólginn að veita undanþágu frá fiskiveiðalögum, þó í smáum stíl sje og eigi ekki að vera nema handa einni þjóð, því ef það er gert, verður trauðla viðnám veitt eða staðið í móti kröfum annara til hins sama. Skal jeg því eigi fara langt út fyrir þetta atriði, en vil aðeins taka það fram, að háttv. flm. þessa frv., sem ætlaði að vinna máli sínu gagn með því að vekja tortrygni á skilningi þingsins 1922 á lögunum, sem hjer um ræðir, hefir algerlega mistekist. Það er fullvíst, að þeir, sem þá sátu á þingi, höfðu fullan skilning á þýðingu laganna og hver nauðsyn þjóðinni væri á að slíkri löggjöf væri framfylgt til verndar hagsmuna landsmanna. Þingið hafði óbifanlega trú á gagnsemi þessara laga, og á bak við þá trú var samhuga vilji manna, að einskis yrði látið ófreistað til að framfylgja lögunum. Og einmitt þess vegna var lagt kapp á að koma þeim í gegnum þingið. Það er því alveg rjett, sem hæstv. atvinnumálaráðh. sagði, það er ekki hægt að ávíta stjórnina fyrir annað en ef hún hefir eigi fylgt lögunum nógu fast fram Það er alment viðurkent, að það hefir verið farið kringum lögin, og á síðasta þingi aflaði jeg mjer gagna um það mál, sjerstaklega um framkvæmd fiskiveiðalaganna fyrir Norðurlandi 1922, og í sambandi við umræður þær, sem urðu um fyrirspurn mína til stjórnarinnar á síðasta þingi um framkvæmdir í landhelgisgæslumálum, skoraði jeg á hæstv. forsrh. (SE) að láta rannsaka það mál, og ef hann vildi gefa yfirlýsingu um, að lögunum yrði betur framfylgt eftirleiðis, kvaðst jeg mundu láta niður falla að því sinni að birta gögn þau, er jeg hafði í höndum um þetta. Forsætisráðherrann lofaði því þá og lýsti því yfir í þinginu, að þetta mál skyldi verða rannsakað, og dettur mjer alls ekki í hug að rengja hann um, að það hafi verið gert; því þó enn sje eigi fram komin nein skýrsla frá stjórninni um það mál, getur hún vel komið ennþá. Það, sem gera ber í þessu máli, er að herða á framkvæmd laganna og gera alt, sem við orkum, til þess að þau nái tilgangi sínum á þeim grundvelli, en forðast að víkja þar í nokkru frá settu marki.

Háttv. flm. sagði, að við ættum að líkja eftir stórþjóðunum. Já, þetta höfum við einmitt gert. Fiskiveiðalöggjöfin frá 1922 er samhljóða gildandi lögum um þetta efni í Noregi. Vjer höfum í þessu efni farið að dæmi Norðmanna, og var það ofur eðlilegt, þar sem svo líkt hagar til þar og hjer hvað fiskiveiðarnar snertir. Vilji háttv. flm., að við förum að dæmi stærri þjóða, bendi jeg honum hjer með á það, að við höfum gert það einmitt í fiskiveiðalöggjöfinni.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) er að fóðra undanhald sitt í þessu máli síðan 1922. Þá gerði hann engan ágreining um þessi lög. Nú tilfærir þm., að þá hafi verið bjartara yfir öllum atvinnuvegum en nú, og því sje öðru máli að gegna. Jeg lít alt öðruvísi á þetta mál; eftir því sem útlitið er skuggalegra eigum við að halda fastara í þessi verndarlög, því að viðreisn þjóðarinnar er fyrst og fremst undir okkur sjálfum komin.

Háttv. flm. kvartaði undan því, að verið væri að gera úlfalda úr mýflugu. Það hygg jeg að hann hafi einmitt sjálfur gert. Háttv. flm. sagði í framsöguræðu sinni, að þetta frv. sitt væri ofur saklaust; það færi að eins fram á að leyfa Hafnfirðingum að hleypa að 6 togurum. Nú hefir hann lýst því yfir, í tilefni af ummælum háttv. þm. N.-Ísf., að hann sje eigi aðeins fús til að veita Ísfirðingum sama háttar hlunnindi!!, heldur sje hann meðmæltur undanþágu fyrir hvern, sem hafa vill. Þar með er háttv. þingmaðurinn búinn að lýsa því yfir, að þessi litla og saklausa undanþága, sem hann kallar svo, mundi brátt verða sá mistilteinn, sem hinni íslensku þjóð stafaði mikil hætta af. Þá sagði háttv. flm., að það gerði ekki mikið til fyrir Hafnfirðinga, þótt þessi erlendi útgerðarmaður þar færi á höfuðið. Segjum að útgerðarfjelag þar yrði gjaldþrota eftir árs starfsemi. Það hefir veitt mönnum atvinnu í eitt ár, en hvernig fer nú fyrir þeim, sem bygt hafa vonir sínar um atvinnu á þessu fjelagi næsta ár? (ÁF: Kannske betur!) Kannske betur, segir hv. flm. Nei, endurbóta á þessu er ekki að vænta í öðru en því, að það verði breyting á þeim hugsunarhætti, sem nú virðist vera ríkjandi í Hafnarfirði, að varpa allri sinni áhyggju upp á útlendinga. Þá gerði hv. flm. mikið úr því, sem vjer höfum lært og gætum lært af útlendingum, og taldi það til meðmæla með þessu frv. Það er vitanlega satt, að við höfum lært margt það af útlendingum, er til framfara hefir orðið hjá okkur viðvíkjandi fiskiveiðum og fleira. (ÁF: Alt!). Þetta er fljótfærnislega mælt og ályktað og rangt í þokkabót. Það er margt gott og nýtilegt í atvinnuvegum okkar, sem vaxið er upp með þjóðinni og okkur hefir gefist betur en það, sem aðfengið hefir verið. Að vísu höfum við sótt margt gott og nýtilegt til útlendinga, því ber ekki að neita, en einnig líka margt ilt, sem orðið hefir til skaða öllu því, sem var gott, gamalt og þarflegt í fari okkar. Síldveiðar Norðmanna og annara útlendinga hjer við land hafa komið mörgu illu og óheilbrigðu inn í þjóðfjelag vort. Jeg vil ekki kaupa þessa erlendu fræðslu of dýru verði, enda stendur og önnur leið opin fyrir okkur, það er að senda menn utan til þess að kynnast framförum á atvinnusviðinu, og þurfum vjer þá ekki að stofna hinum helgustu rjettindum vorum í voða fyrir það, og erum við þá lausir við þá hættu, sem af því stafar, að hleypa siðferðissneyddum óaldarlýð inn í landið. Háttv. flm. sagði, að það sæti ekki á okkur að láta mikið um að vernda rjett vorn; framfarirnar væru ekki það miklar eftir 1000 ár. Þetta er eigi sanngjarnlega mælt, því framfarir hafa þó þrátt fyrir alt orðið talsverðar hjá okkur, og ef við verjum ekki sjálfir rjett vorn, þurfum vjer eigi að vænta þess, að aðrir geri það.

Mjer þykir mjög miður, að þetta frv. er fram komið. Bæði af því að það sýnir, að til eru menn hjer á landi, er misskilja svo og gera svo lítið úr þýðingu fiskiveiðalaganna, að þeir skuli freista að rjúfa þennan varnarmúr um fjárhagslegt sjálfstæði landsins, og svo af því, að nú stendur einmitt svo á, að við eigum í höggi við aðra þjóð, Norðmenn, í verslunarviðskiftum, og þá er mjög óheppilegt, að við sýnum í orði eða verki vott um veiklun eða undanhald í þessu máli, því það gæti leitt til þess, að Norðmenn krefðust tilslakana af okkar hálfu á fiskiveiðalöggjöfinni, enda þótt mjer þyki ólíklegt, að þeir geri það, er þeir hafa samskonar lög og við um þessi efni. (TrÞ: Þeir hafa þegar gert kröfur til ívilnunar.). Háttv. þm. Str. hefir verið að ympra á því hjer í umræðunum um þetta mál, og hann hefir haldið því fram í blaði sínu, „Tímanum“, að kjöttollur Norðmanna stafaði frá fiskiveiðalöggjöf okkar frá 1922. En þessi tilgáta hans hefir við engin rök að styðjast. Það er upplýst um upphaf þess máls í Noregi, að Norðmenn höfðu íslenska saltkjötið alls ekki í huga, er þeir hækkuðu kjöttollinn. Kjöttollshækkuninni var beinlínis stefnt á nýja kjötið frá Danmörku og öðrum nágrannalöndum, sem var að verða stórhættulegt kjötframleiðslu Norðmanna sjálfra. Verður því alls eigi sjeð, að Ísland hafi þar komið til greina. Og þegar athuguð er atkvæðagreiðslan í norska þinginu, er hækkunin á kjöttollinum var samþykt, kemur í ljós, að hún var samþykt með 84:58 atkv., og þeir, sem mótatkvæði greiða, eru fulltrúar verkamanna og útgerðarmanna, einmitt fulltrúar þeirra stjetta, sem helst ættu að hafa haft óhag af fiskiveiðalöggjöf okkar. Þessi tilgáta háttv. þm. Str. hefir því alls ekki við rök að styðjast. Kröfur Norðmanna, ef nokkrar eru, um tilslökun á fiskiveiðalöggjöfinni, eru því fyrir það eitt fram komnar, að hjer heima hafa heyrst raddir um, að til mála geti komið að slaka til á fiskiveiðalöggjöfinni, og það hefir jafnvel verið gengið svo langt í þessu, að þeim hafi verið boðið upp á þetta.

Jeg endurtek það, að jeg tel óheppilegt, að mál þetta er nú fram komið og að farið var að draga Norðmenn og kjöttollsmálið inn í þessar umræður. En úr því að það hefir verið gert, vil jeg benda hjer með á, að það er nauðsynlegt, að þau verði afdrif þessa máls, að þingið sýni svart á hvítu, að það þvertaki fyrir allar tilslakanir á fiskiveiðalöggjöfinni og felli þetta frv. Og ef það reynist satt, að Norðmenn ætluðu að gera okkur þungar búsifjar í viðskiftum, þá er okkur önnur leið opin til að svara slíkri rangsleitni og ágengni af þeirra hálfu í okkar garð. Norðmenn hafa hjer mikil viðskifti og njóta mjög góðra kjara hjá okkur. Hvað er þá því til fyrirstöðu, að við grípum til okkar ráða á þeim sviðum, til þess að ná rjetti okkar á þeim og sviftum þá þeim hlunnindum, sem þeir nú njóta hjer í ríkum mæli. Það er rjetta svarið.