23.02.1924
Neðri deild: 7. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1812)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að leggja hjer mörg orð í belg, en úr því margir háttv. þm. eru farnir að lesa væntanlegri nefnd textann um, hvað hún eigi að athuga í sambandi við þetta mál, vil jeg nefna eitt atriði, sem í mínum augum er hið stærsta í þessu máli. Með þessari undanþágu undan fiskiveiðalöggjöfinni er útlendingum heimilað að leggja hjer á land afla sinn, verka hann hjer og flytja hann út aftur sem íslenskan fisk. Íslendingum hefir nú tekist að gera fisk sinn að ágætri vöru, og tel jeg mjög varhugavert að hleypa útlendingum þar að. Jeg býst að vísu við, að menn vilji segja, að ekki muni svo ýkjamikið um eina 6 útlenda togara. En bæði er, að ekki munar svo lítið um þetta, þegar miðað er við vora litlu framleiðslu, og auk þess er hætt við, að haldið verði áfram með undanþágumar, ef þingið færi á annað borð inn á þá braut. Finst mjer að Spánarmarkaðurinn hafi nú orðið oss svo dýr, að vjer ættum að hugsa oss vel um áður en vjer látum hann svo ljettilega af hendi. Jeg skal játa, að það gerði ekkert til, þótt vjer ljetum útlendinga fá hlutdeild í markaðinum, ef hann væri ótakmarkaður. En það er síður en að svo sje, og veiðum vjer því að gæta allrar varhygðar í þessu efni.

Jeg skal svo ekki fjölyrða þetta meir, en vonast til að háttv. nefnd taki þetta atriði til rækilegrar íhugunar, ásamt öðru, sem fram hefir komið í málinu.