27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Jeg þarf ekki að vera fjölorður að þessu sinni, þar sem jeg hefi áður við 1. umr. skýrt greinilega frá ástæðum þeim, er til frv. lágu. Þær voru í einu orði sagt það megna atvinnuleysi, sem nú er ríkjandi í Hafnarfirði, en sem aftur er afleiðing þess, að fótunum hefir verið kipt undan aðalatvinnuvegi bæjarins með því að hamla útlendingum að reka fiskiveiðar þaðan. — Sjútvn. hefir nú haft mál þetta til meðferðar á nokkrum fundum, eins og sjá má af þskj. 52, og er skemst frá því að segja, að hún hefir ekki getað orðið sammála. Hafa þrír nefndarmanna tjáð sig ósamþykka frv., en tveir eru því fylgjandi, að það nái fram að ganga. Þess skal þó getið, að einn af þeim þremur, sem á móti frv. eru, er ekki andvígur frv. að efni til, heldur formi. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi láta samþykkja heimildarlög til handa stjórninni til að veita undanþágur í líka átt. Hann telur þetta nauðsynlegt, með því að víðar muni þörf atvinnubóta en í Hafnarfirði. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert á móti því, að þetta væri gert, en jeg held aðeins, að það gæti ekki komið að neinum notum nema hjer við Faxaflóa, og þá aðeins á tveim stöðum, Hafnarfirði og Reykjavík. Annarsstaðar frá myndi varla ennþá, fremur en áður hefir verið, verða stundaðar þorskveiðar á togurum að vetri til. Og jeg á líka bágt með að skilja, að þeir, sem „principielt“ eru mótfallnir undanþágum sem þessari með frumv., geti aðhylst þær í enn víðtækari mynd. Í öðru lagi má gera ráð fyrir, að eigi fyrst að veita undanþáguna, þegar hallærið er alveg yfirvofandi, þá komi hún ekki að notum, svo seinfært sem þetta er. Það má nefnilega ekki búast við því, að útlendingar mæni eftir því að komast hjer að, því hefði svo verið, hefðum vjer ekki getað spornað við því.

Jeg skal þá koma að ástæðum háttv. tveggja meðnefndarmanna minna, þeirra hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem hv. deild mun kunnugt um frá 1. umr. þessir hv. þm. segja, að með því að gefa þessa undanþágu, sem í frv. felst, þá sje leiðin opnuð fyrir fleiri samskonar undanþágur, og þá geti þetta orðið til þess að veikja afstöðu vora til annara mála og annara þjóða. Hafa þeir í þessu sambandi minst á kjöttollinn og síldveiðar Norðmanna hjer við land. Ennfremur taka þeir fram, að ef útlendur skipastóll settist hjer að til að reka hjeðan fiskiveiðar, þá gæti afleiðingin orðið sú, að eftirspurn eftir fiski minkaði, og þá auðvitað líka verð hans, vegna of mikils framboðs, og enn halda þeir því fram, að að þessu geti aldrei orðið mikil atvinnubót til frambúðar. Og þá ástæðu get jeg, út af fyrir sig, fallist á, enda aldrei hugsað mjer, að þetta yrðu bjargráð nema til bráðabirgða. Hinar ástæðurnar eru að mínu áliti veigaminni. Fyrst er þess að gæta, að útlendingar setjast hjer ekki að öðruvísi en sem æfintýramenn og um stundarsakir. Á hinn bóginn finst mjer, að vjer getum illa staðið oss við að hrinda frá oss þeirri hjálp, sem þetta gæti veitt oss til að greiða fram úr hinum erfiðu ástæðum vorum og sem ekki þarf að kosta oss annað nje meira en lítilfjörlega tilhliðrun á ómerkilegum pappírslagaákvæðum. Og muna mundi oss um þau erlend viðskifti, sem koma myndu með útvegi útlendinganna.

Því var skotið fram um daginn, að þar sem þetta væri ekki neitt til að byggja á til frambúðar, þá væri lítið gefandi fyrir það, málefnið ekki þess vert, að gefandi væri undanþága frá lögum fyrir það. En þetta er þó það, sem gæti bjargað Hafnarfirði um næstu 2–3 ár, einasta ráðið, sem hægt er að benda á í því skyni, og talsverður styrkur að því líka fyrir Landsbankann, sem með þessu móti gæti selt eign, sem honum er nú arðlaus, fyrir ½ milj. kr. Og ef við eigum ekki völ á því besta, þá verðum vjer að sæta því næst besta. Það besta er, eins og jeg hefi áður tekið fram, að við gætum verið sjálfum okkur nógir. Kringumstæður vorar eru svo, að oss er um megn að ráðast í ný stórfyrirtæki; alþjóð manna vantar tilfinnanlega fje, og þó eitthvað fengist að láni, þá er það óvenjulega dýrt, vextir 8–9%, og þar við bætist hið hörmulega gengi krónunnar íslensku, sem aldrei hefir verið eins hrapallegt. Þannig verðum vjer að kaupa hvert sterlingspund tvöföldu verði við það, sem var fyrir stríð, meðan okkar króna gekk ennþá sem gullkróna. Að þessu öllu samanlögðu og athuguðu ætti mönnum að geta skilist, að það er ekki að nauðsynjalausu og út í bláinn, að vjer höfum gripið til þess að leita þeirrar undanþágu, sem frv. fer fram á.

Mjer væri það auðvitað óljúft að raska fiskiveiðalöggjöf vorri, en það er eins og hugboð segi mjer, að ekki verði langt að bíða, að hún verði endurskoðuð og þörfin knýi menn til að breyta henni. Nú siglum vjer til Englands með fisk vorn og fáum þar samskonar afgreiðslu sem innlendir værum. Hvað gætum við nú gert, ef Englendingar óskuðu að gjalda oss líku líkt og meinuðu oss að leggja þar upp fiskinn. Jeg segi ekki að til þess komi, m. a. vegna þess, að þeir vilja ekki vera hjer, þurfa ekki á því að halda.

Því hefir verið haldið fram, tæpast þó líklega í alvöru, að ef undanþágur sem þessi yrðu veittar, myndi svo fara, að landið fyltist af útlendum skríl. Það þarf meira en lítið fjörugt hugmyndalíf til að gera ráð fyrir slíku. En hitt tel jeg víst, að þetta geti að miklu leyti komið í veg fyrir þá leppmensku, sem nú mun orðin tíð að minsta kosti á Norðurlandi, og þó jeg segi ekki, að Hafnfirðingar myndu sjerstaklega gera sig seka í þessu, þá er það þó ekki annað en það, sem altaf má gera ráð fyrir, þegar óeðlileg og „ópraktisk“ lög eru annarsvegar. En eins og jeg tók fram, þá er jeg ekki að spá neinu um þetta, en dæmi aðeins út frá því, sem átt hefir sjer stað annarsstaðar.

Jeg skal svo að endingu taka það fram, að óhætt er að fullyrða, að ekkert annað en það, sem nú hefir verið talið, liggur að baki frv., hvorki frá hálfu flm. þess eða annara, sem að því standa. Og jeg er að því leyti til alveg sammála því, að komið geti til mála að veita öðrum stöðum en Hafnarfirði samskonar undanþágu, ef möguleikarnir til að færa sjer hana í nyt væru þar aðeins fyrir hendi. Vona jeg svo að engin of sterk landvarnarstefna geti orðið þessu frv. að falli, en vil fela það á hendur hv. deild með þeirri ósk, að hún sjái, hversu rjettmætt það sje og hversu sterk rök og mikil nauðsyn mæli með því, að það fái óhindrað að ganga fram.