27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1819)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Forsætisráðherra (SE):

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) skaut því til mín áðan, hvort jeg teldi líklegt, að unt væri annað en að veita öðrum þjóðum líka undanþágu, ef þessi væri veitt. Jeg er þeirrar skoðunar, að það yrði mjög erfitt að standa á móti líkum beiðnum frá öðrum þjóðum, ef stjórninni á annað borð er gefið vald til slíkrar undanþágu. Er þegar auðsjeð á því, hve fast er knúið á hurðina á þessari fjárhirslu okkar, hversu mikil auðæfi menn telja að þar sjeu fyrir. Jeg stend ákveðið á móti þessum heimildarlögum. Jeg veit að vísu, að það er rjett hermt hjá hv. frsm. (ÁF), að Hafnarfjarðarkaupstaður sje í mikilli þröng. Er mjer best kunnugt um það, þar sem bæjarbúar fóru þess á leit við stjórnina skömmu fyrir þing, að hún með bráðabirgðalögum veitti undanþágu frá fiskiveiðalöggjöfinni í líka átt og hjer er farið fram á. Vorum við ráðherrarnir á fundi hjá Hafnfirðingum um mál þetta, og urðum við þess áskynja, með hve miklum þunga málinu var fylgt. Við vorum báðir sammála um, að ekki kæmi til mála að veita þessa undanþágu.

Nú liggur þetta mál hjer fyrir Alþingi. Mjer virðist það vera mjög varhugavert að stíga slíkt spor sem þetta. Og sömu skoðunar hafa ýmsir menn með sjerþekkingu verið um þetta, enda litið svo á, að ef undanþágan væri veitt, þá gæti borist svo mikill fiskur hjer á markaðinn, að af því yrði mikill óhagnaður, þar sem það mundi draga úr fiskverðinu.

Jeg skal annars ekki fara langt inn á málið, en vil aðeins endurtaka það, að ef einni þjóð yrði veitt slík undanþága, þá yrði ekki gott að neita öðrum um það sama. Og hins er líka að gæta, að hætt er við að okkur veittist erfiðara að koma á banninu aftur, eftir að við einu sinni værum búnir að veita leyfið; það er jafnan hægara að taka úr stíflu en að stífla á ný. Má yfirleitt fára varlega í því að láta stundarhagnað rjúfa þá múra, sem reistir eru um sjálfstæði þjóðarinnar. Ef neyðin knýr mjög í Hafnarfirði, þá verður að leita ódýrari ráða til þess að bæta úr henni.