02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg veit ekki, hvort það er til mikils fyrir mig að fara að svara ræðu háttv. 2. þm. Rang. (KlJ). Hann kvaðst ekki hafa skilið það, sem jeg sagði í gær, vegna þess að jeg hafi verið í geðshræringu. En jeg verð þó að álíta, að hann hafi skilið dálítið af því, sem jeg sagði, að því leyti, sem hann reyndi að svara ræðu minni og hann fór ekki rangt með það, sem jeg hafði sagt. Svo það er því vitað, að hann hefir skilið eitthvað af því, sem jeg sagði þá.

Hann sagði, að það væri skylda góðs fjrh. að sjá um, að engu væri eytt í umframgreiðslur án hans samþykkis. Það má vel vera, að hann hafi fylgt þessari reglu. Hann tekur það fram, að hann hafi haldið þessari reglu síðari helming síns ráðherradóms. Hví gerði hann það ekki altaf, hafi hann viljað vera sæmilegur fjrh.! Mjer þykir líklegt, að hann hafi viljað vera góður fjrh. alla sína tíð. Vitanlega verður það alveg tilgangslaust að hafa fleiri en einn ráðherra, ef hinir eiga engu að ráða. Jeg hefi ávalt verið á þeirri skoðun, að ráðherrar ættu ekki að vera fleiri en einn, og fellur þetta að því leyti saman við skoðun mína á málinu; en á meðan þeir verða að vera þrír, nær það engri átt, að fjrh. sje einráður um alt, en hinir sjeu aðeins sem einhverskonar „dúkkur“ við hlið hans. Ef einhverjar þær framkvæmdir eru ráðnar að lögum, sem þarf að borga fyrir, getur fjrh. alls ekki skorast undan því. Allra síst getur þetta gilt um verk, sem ákveðin eru í fjárlögum. Skilyrði núverandi hæstv. fjrh. eiga því aðeins við þær umframgreiðslur, sem alls ekki verða heimfærðar undir neinn ákveðinn lið í fjárlögunum. En eigi að fara mjög strangt í þetta, getur það haft misjafnlega góð áhrif á ýmsar framkvæmdir, því að það er ekki ávalt hægt að segja fyrirfram um hvað eina, hvað það muni kosta svo að segja upp á eyri. Háttv. 2. þm. Rang. bar saman umframgreiðslur 1921 og 1922 og hjelt því fram, að hann væri sjálfur hvítur sem engill, vegna þess að umframgreiðslur hefðu orðið minni 1922 en árið 1921. Það sjer hver heilvita maður, hvað mikil sanngirni er í þessu, þegar þess er gœtt, að 1919 var engin áætlun um dýrtíðaruppbót, en 1921 var hún áætluð 120%, en reyndist ekki að verða nema 94%. Verður því samanburðurinn aðeins til að villa. Ef hann á að koma að nokkru haldi, þá verður að bera saman það, sem í raun og veru eyddist þessi árin. Vegna dýrtíðarinnar hlaut áætlun þingsins 1919 að verða röng, og sökum dýrtíðarinnar hlutu ýms óhjákvæmileg gjöld að greiðast utan fjárlaga.

Þá hefir hv. 2. þm. Rang. ekki ennþá svarað fyrirspurn minni um orsakirnar að því, að útgjöldin urðu jafnmikil 1922 eins og 1921, þrátt fyrir það, að dýrtíðaruppbót á launum starfsmanna hefðu numið ½ milj. kr. minna 1922 og aðrir liðir minkað að minsta kosti um annað eins. Væntanlega kemur hv. þm. að þessu seinna.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) kvað ekki hafa verið greitt meira fje 1921 en við hefði mátt búast. Það er mikið á dómi þessa manns að byggja, þar sem hann er þektur að því að vera reikningsmaður glöggur og hefir auk þess endurskoðað alla þessa reikninga, enda þyrði jeg vel að leggja þetta mál í hans dóm, þó hann sje í öðrum flokki en jeg. Annars skildist mjer helst á hv. 2. þm. Rang., að allur samanburður á árum sje ómögulegur. Og það er hann einnig á þeim grundvelli, sem hann gerði samanburðinn. Þegar tímarnir breytast mjög snögglega, eins og 1919–1920, er það auðsætt, að gæta verður allrar varúðar til þess að samanburðurinn sje rjettur. Verður þá, eins og jeg tók áðan fram, að byggja niðurstöðuna á því, hvað eyðst hefir í raun og veru.

Háttv. sami þm. sagði, að ýmsar verklegar framkvæmdir hefðu þegar verið undirbúnar 1922, áður en hann tók við stjórn. Jeg þori ekki að neita þessu um sumt, en undarlegt þykir mjer, ef allar vegagerðir hafa verið ráðnar það ár. Að minsta kosti hafði jeg ekki ákveðið neitt um það, og býst jeg ekki við, að fyrirrennari minn hafi gert það heldur. Er ekki vanalegt að gera það svo snemma á árinu. Þá sagði hann, að ólíku hægri væri aðstaða mín nú heldur en sín þá, þar sem ekkert væri nú fastráðið um opinberar framkvæmdir. En minna vil jeg hann á, að ólíku er saman að jafna, að taka við tómum kassa, eins og jeg verð að gera, eða taka við talsverðu fje, eins og hann. Loks kveðst háttv. þingmaður ekki skilja, hvers vegna jeg hafi komið með þennan samanburð. Það er mjög skiljanlegt, að hann kæri sig ekkert um samanburðinn. Það er honum mjög nákominn maður, sem þessum ágreiningi hefir valdið, og hans vegna var samanburðurinn gerður.

Þá talaði hv. þm. um, að ástæðulaust væri að veitast að sjer. Það gerði jeg heldur ekki. Jeg ljet mjer nægja að taka tölurnar. En eðlilegt er það, að hann tæki upp þykkjuna fyrir tengdasoninn, hv. þm. Str. (TrÞ). En þá má hann búast við, að á hann geti slest. Má um þetta hafa málsháttinn gamla: Þegar rignir á prestinn, drýpur á djáknann.

Ekki vil jeg fara að draga hviksögur inn í umræðurnar. Hvað mig snertir, þá læt jeg mjer nægja yfirlýsingu háttv. 2. Rang., en vil þá einnig gera honum sömu skil og lýsa yfir því, að sögurnar eru tilhæfulausar hvað hann snertir.