06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (1825)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Mál það, sem hjer liggur fyrir samkv. frv. á þskj. 45, hefir oft verið rætt hjer í þinginu í ýmsum myndum. Vil jeg minnast nokkuð á eldri aðdraganda þessa máls. Hann er sá, að fyrir rúmum 20 árum var maður sá, er hjer um ræðir, Bjarni Jónsson frá Vogi, kennari við latínuskólann hjer í Reykjavík. Herma skilorðir menn, sem þá voru kunnugastir í þessum bæ, og þá einkum nemendur hans, að hann hafi verið mjög góður kennari. Hafi verið sjerlega laginn á að vekja áhuga nemenda sinna fyrir náminu. En það þótti skorta á, að reglusemi hans um vínnautn væri slík sem skyldi, og fór svo að lokum, að honum var vikið frá embætti og var síðan nokkur ár atvinnulaus. Ekki þýðir að dylja það, að orð hefir leikið á, að hann hafi verið rangindum beittur í þessu efni. Hann hafi verið besti kennari skólans — og að hin raunverulega ástæða til frávikningarinnar hafi verið pólitískar ofsóknir. Er og alþjóð kunnugt, að þeir gallar, sem þóttu í fari hans, hafa verið og eru mjög algengir meðal fjölda starfsmanna þjóðarinnar, án þess að þeir hafi verið látnir valda brottrekstri.

Þetta er ein meginástæða fyrir því, að embættið, sem ræðir um í frv. þessu, var stofnað handa Bjarna Jónssyni árið 1914. Þörf háskólans krafðist þess ekki og því síður þörf þjóðarinnar. Það tókst að fá samþykki Alþingis til stofnunar embættisins svo að segja eingöngu vegna þess, að það stóð í sambandi við þennan mann, sem menn vildu fá eitthvert starf í hendur, eins og til að reyna að afmá þennan gamla skugga. Er mjög ósennilegt, að embættið hefði verið stofnað handa honum, ef hann hefði ekki áður verið beittur þessum rangindum, borið saman við þann „moral“, sem hefir gilt hjer í þessum efnum.

Og eftir að embættið var stofnað, komu strax fram hávœr mótmæli gegn því, bæði innan þings og utan. Hjer í þessari hv. deild sýndi t. d. landlæknir með ljósum rökum fram á, hversu embætti þetta væri þýðingarlaust. Síðan hefir það verið títt umræðuefni og öllum þorra manna komið saman um að embættið væri óþarft og eingöngu stofnað fyrir ákveðinn mann. Auðvitað hefir almenningsálitið að mestu gleymt því, að hjer hafði þingið sterka afsökun, sem sje hin gömlu rangindi.

Til að rökstyðja enn frekar vilja kjósenda í þessu máli má geta þess, að margir hinna nýju þingmanna slógu mjög á þá strengi, að þeir vildu afnema þetta embætti með öllu. Einn þeirra, núverandi hv. þm. V.-Sk. (JK) notaði þetta meira að segja sem aðalkosningaagnið, af því að keppinautur hans hafði einhverntíma greitt atkv. á móti því að fella niður embættið, eins og sakir stóðu þá.

Jeg segi þetta til að undirstrika, hvað einstakir hv. þm. álíta, að þjóðinni liggi mjög á hjarta afnám embættisins. í hv. Nd. hefir verið borið fram frv. um afnám, en einungis um afnám embættis þessa. En ekki var það nú samt hv. þm. V.-Sk. (JK), sem bar það mál fram, heldur varð ekki betur sjeð en að hann vildi heldur hindra framgang þess. Þá er annar hv. þm. í hv. Nd., sem fyrir kosningarnar í haust lagði aðaláhersluna á afnám allrar heimspekideildar háskólans, til viðreisnar fjárhagnum. Jeg á við hv. 1. þm. Reykv. (JÞ). En nú, þegar á þing er komið, verður ekki betur sjeð en að honum hafi snúist hugur. Að vísu ber hann fram frv. um breytingar á fyrirkomulagi háskólans. En samkvæmt því á ekki að leggja alla heimspekideildina niður, heldur sameina hana annari deild — og það embætti, sem hjer um ræðir, á að vísu að hverfa úr sögunni, ásamt fleirum öðrum, en ekki fyr en einhverntíma, að samkomulag fæst við hlutaðeigandi um flutning milli embætta. Ef t. d. Bjarni Jónsson neitar því samkomulagi, þá verður engin breyting frá því sem til er, að því er hann snertir.

Hjer virðist eins og hv. þm. sjeu að „gefa selbita í vasann“, lofa sparnaði, en gera svo ekki neitt, og síst það, sem strax má að liði verða.

Með þessu frv. mínu er stigið spor í aðra átt. Samkvæmt því á að leggja embættið niður, í samræmi við vilja þjóðarinnar, en um leið er litið á, hvernig það varð til, og bætt úr gömlu misrjetti með því að flytja mann þennan aftur að mentaskólanum og fá honum þar starf í hendur, sem hann að allra dómi er manna færastur að inna af hendi.

Ef það kæmi fyrir, að Bjarni Jónsson vildi ekki taka við hinu nýja starfi, þá fellur niður hin siðferðilega skylda þjóðarinnar að sjá honum fyrir lífsstarfi. Hjer er honum boðið jafnlaunahátt embætti sem hitt, er hann nú gegnir, og má hann þar vel við una, auk þess sem honum er uppreisn að því, að koma aftur að þeim skóla, er honum áður var vikið frá fyrir sakir, sem annars eru látnar óátaldar.

Því hefir verið hreyft, að formlega væri óhugsandi að flytja mann til á þann hátt, er í frv. segir. Það gæti ráðherra aðeins gert. Jeg býst við, að þeir allralærðustu vitni í þrískiftingu valds þjóðfjelagsins í löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald, og mun rödd hafa heyrst í þessa átt frá hv. þm. V.-Sk. (JK), einmitt þeim manni í þinginu, sem álitið er að hafi einna minst til brunns að bera allra sinna núverandi starfsbræðra af þekkingu og gáfum. En jeg fæ ekki betur sjeð en að þessi skoðun styðjist við algerða hugsunarvillu. Þetta embætti er í raun og veru stofnað og veitt þessum manni jöfnum höndum af þinginu sjálfu. Veiting konungs eða ráðherra var hjer aðeins formsatriði, með því að öllum var ljóst, handa hverjum embættið var stofnað. Enn betur sýnir embætti próf. Guðm. Finnbogasonar, sem er stofnað með lögum á hans nafn, hvert vald Alþingi hefir í þessu efni. En eins og Alþingi getur stofnað og í raun og veru veitt ákveðnum mönnum embætti, þó að formleg veiting fari síðar fram á venjulegan hátt, þá er óskiljanlegt, að það hafi ekki vald til að flytja mann á milli embætta, svo sem frv. mitt gerir ráð fyrir.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða frekar um þessa hlið málsins, því að meðferð þingsins, bæði fyr og síðar, á prófessorsembættinu í hagnýtri sálarfræði við háskólann sýnir fyllilega, að það er á valdi þingsins að stofna og afnema embætti þegar þurfa þykir, og það hlýtur að hafa vald til að flytja menn milli embætta, þegar þess gerist þörf. Er því ekkert frá þessari hlið málsins því til fyrirstöðu að flytja þennan mann, sem hjer er um að ræða, frá háskólanum að mentaskólanum.

Það er ef til vill óþarfi að taka það fram, að gert er ráð fyrir, að með færslu þessari sparist laun eins kennarans við mentaskólann. Því að gert er ráð fyrir, að kennarastóllinn í klassiskum fræðum við háskólann verði alveg afnuminn, því að þjóðin bað aldrei um að fá hann, þar sem mjög auðvelt var fyrir þá kennara háskólans, sem voru, að bæta við sig hinni litlu grískukenslu, sem dócentinn hefir haft á hendi. Aftur á móti hefir mentaskólinn aukist svo mjög, að stjórnin og fjárveitinganefnd neðri deildar hafa búið til við hann embætti, sem þingið hefir aldrei samþykt. Og mjer mun óhætt að fullyrða, að þau sjeu nú orðin ein fjögur, embættin, sem þannig eru til orðin. Það liggur nú í hlutarins eðli, að það hlýtur að vera miklu auðveldara fyrir þjóðfjelagið að segja upp þeim mönnum, sem þannig eru ólöglega ráðnir, heldur en núverandi grískudócent háskólans. Og þegar þess er ennfremur gætt, að maður þessi var af öllum talinn ágætur kennari, mælir það mjög með flutningnum. Er þetta ekkert last um þá menn, sem nú skipa hinar ólöglegu kennarastöður mentaskólans, þó að þeir sjeu jafnvel ekki taldir standa Bjarna Jónssyni á sporði í þessum efnum. Væri líka með flutningi þessum um leið bætt úr þeirri ávirðingu, sem gerð var í garð þessa manns, er hann var sviftur stöðu sinni við mentaskólann.

Því hefir verið haldið fram, aðallega þó utan þings, að Bjarni Jónsson gæti ekki tekið að sjer kenslu í öðrum greinum við mentaskólann en þeim tveimur, er hann hefði tekið sjerstaklega háskólapróf í. En jeg býst ekki við, að honum eða stofnuninni sje gert rangt til, þó gert sje ráð fyrir, að hann geti tekið að sjer kenslu í fleiri námsgreinum, og nægir þar að benda til þess, sem tíðkast hefir og tíðkast enn við mentaskólann, að margir af kennurum hans kenna fleira en það, sem þeir hafa tekið háskólapróf í sem aðalnámsgrein. Er þetta verkefni fyrir nefnd þá að athuga, sem fær málið til meðferðar.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að jeg tel það óhyggilegt að fella þetta frv. frá nefnd, eins og hjer hefir átt sjer stað um ýms nýmæli til góðra hluta, sem fram hafa verið borin, þó aldrei nema menn sjeu málinu ekki samþykkir í öllum atriðum. Annars býst jeg við, að þetta frv., sem hjer er til umræðu, sje eitt hið auðveldasta sparnaðarfrv., sem ennþá hefir komið fram á þessu þingi. Eftir eðli sínu tel jeg, að það eigi að fara til mentamálanefndar, og legg jeg til, að því verði vísað þangað að umræðunni lokinni.