06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1829)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Eggert Pálsson:

Jeg ætla mjer ekki að fara út í líkræðu þá, sem háttv. flm. þessa frv. hjelt yfir Hannesi sáluga Hafstein, því að sú líkræða stendur á ábyrgð hans. En sem gamall flokksbróðir Hannesar get jeg hinsvegar fullyrt það, að eigi var um neina pólitík að ræða í sambandi við frávikningu Bjarna Jónssonar frá mentaskólanum, enda gat eigi verið um neina pólitíska ofsókn að ræða, því B. J. var þá ekki orðin nein pólitísk stærð, þótt allmikið hafi að honum kveðið seinna í stjórnmálunum.

En þetta skal jeg ekki fara frekar út í, en það er aftur á móti mergurinn málsins, sem sje niðurlagning grískudócentsembættisins, sem jeg vildi minnast lítið eitt á. En þar um er það að segja, að jeg hefi altaf verið á móti þessu embætti. Jeg var á móti því embætti, þegar það var stofnað, sökum þess, að jeg taldi það algerlega óþarft og áleit, að prófessorar guðfræðisdeildarinnar gætu hæglega kent það, sem dócentinum var ætlað að kenna. Og sömu skoðunar er jeg enn, og mundi því síst vera á móti því, að embætti þetta yrði felt niður.

En jeg er hinsvegar hissa á því, að háttv. flm. skuli ekki vilja verða við þeim tilmælum, að taka málið út af dagskrá, heldur vilja leggja kapp á að brjóta þá venju, sem altaf hefir verið fylgt á þingi, að báðar deildir hefðu ekki sama mál til meðferðar í einu. Þessi gildandi regla — og enda þingskapaákvæði — er nauðsynleg eins í þessu máli sem öðrum. Ef t. d. þetta mál væri sett í nefnd hjer í Ed. og það er þegar komið í nefnd í Nd., þá gæti þetta hæglega orðið til þess að kæfa það algerlega. Það gæti orðið til þess, að nefndirnar ætluðu hvor annari að verða fyrri til að afgreiða málið, og biðu þannig hvor eftir annari, uns eigi yrði neitt úr neinu. En vilji hinsvegar flm. endilega flytja mann þann, sem hefir grískudócentsembættið á hendi, yfir að mentaskólanum, þá liggur beinast við að skora á stjórnina með þingsályktun að gera það samkv. ákvæðinu í 16. gr. stjórnarskrárinnar. Að endingu skal jeg ítreka það, að jeg vil aftaka þetta umrædda embætti, en mjer finst við vel geta beðið þar til Nd. hefir afgreitt málið. En eins og sakir standa hjer nú, verð jeg að greiða atkvæði á móti því, að frv. sje vísað til nefndar, en styð þá tillögu, að málið verði tekið út af dagskrá.