02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Stefánsson:

Jeg skal strax taka það fram, að jeg læt mjer nægja loforð hv. fjvn. um styrkinn til læknisráðningar og vænti þess, að hann komist í það horf, að viðunandi sje.

Það var fyrst hv. þm. V.-Sk. (JK), sem mintist á till. mínar og það á þann veg, að jeg get ekki stilt mig um að fara um það nokkrum orðum. Hefði hann gert það á viðeigandi hátt, þá hefði jeg ekki skift mjer af því. Hann gerði málið að tilfinningamáli, en mintist ekki á ástæður mínar. Sagði hann meðal annars, að jeg hefði ráðist að fátækum ekkjum og ljet með mörgum orðum í ljós hluttekningu sína til þeirra og vanþóknun á slíkri aðferð. En það er galli á um hluttekningarsemi hans, að hún nær ekki út yfir 18. gr. fjárlaganna, því vita má hann, að líkt stendur á um fleiri ekkjur. Og því hefði mátt vænta, að hann hefði bygt sín mótmæli á því, að þessi ekkja, sem hjer um ræðir, ætti rjett á að hafa einhver sjerstök forrjettindi. Á það benti hann þó ekki, enda er því ekki til að dreifa. Þá skil jeg ekki, hvað hann átti við, þegar hann var að tala um röggsemi mína í þessu máli. Það er þá líklega fyrir það, að hann hefir fundið til þess, að hann gæti ekki ráðist að rökum mínum.

Jeg óskaði nafnakalls um allar till. mínar. Þótti hv. þm. liggja í því einskonar hótun. Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna honum er svona illa við nafnakall. Mætti þó ætla, að honum kæmi það einmitt vel, til þess að fá tækifæri til að auglýsa sitt góða innræti.

Þá mintist hv. sami þm. á þingfararkaupsfrv. sitt í þessu sambandi og var eitthvað að geta sjer til um hvatir mínar í því máli. Jeg veit ekki, hvaðan honum er komin vitneskja um þær eða hvaða rjett hann telur sig hafa til að gera þær að umtalsefni. Jeg skal ekki gera þetta frekar að umtalsefni nú; tel rjettara að gera það þegar það mál kemur til umræðu, ef háttv. þm. vill þá endurtaka ummæli sín.

Annars held jeg, að ekki sje heppilegt að fara að gera mál að tilfinningamáli eða gera sjer ímyndanir um hvatir manna að ástæðulausu. Það er ekki altaf, sem tilfinningarnar fara með menn á rjetta leið, og þá eru þær vafasamur grundvöllur til að byggja niðurstöður sínar á. Og ekki síst hættir mönnum við að segja eitthvað, sem ósæmilegt er og betur væri ósagt látið.

Hvað þessum tillögum mínum viðvíkur, þá get jeg líka vísað til þess, sem hv. frsm. (ÞórJ) sagði um þær, og þó hann teldi sig ekki geta verið þeim fylgjandi, þá áleit hann þær í alla staði sæmilegar og á þann veg, að þær gætu vel komið til mála.

Jeg hefði haft ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við það, sem háttv. þm. Ak. (BL) sagði, en þar sem hann er ekki viðstaddur, þá get jeg eins slept því. Hann gerði till. mínar að umtalsefni á sama hátt og hv. þm. V.-Sk., en þó öllu hófsamlegar. Um það get jeg því látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt, en slept að minnast á önnur atriði.