06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1832)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jón Magnússon:

Jeg ætla mjer ekki að halda langa tölu að þessu sinni, enda álít jeg það ófyrirsynja að tefja tímann með máli þessu. Hv. flm. (JJ) mintist á það, að jeg hefði komið með frv. um að fella niður prentun þingtíðindanna. Það er alveg rjett, og jeg skal játa það, að jeg tel það alveg nauðsynlegt, þó eigi væri nema vegna þessa stöðuga, óþarfa og langa skrafs hv. 5. landsk. Hv. þm. talar svo mikið, að það er þjóðinni stór kostnaður.

Þá talaði hv. þm. um afskifti mín af þessu frávikningarmáli mentaskólans. Jeg skal bjóða hv. þm. að skoða till. mínar um það mál í stjórnarráðinu 1904, og geri jeg það óhræddur. Það er ennfremur misskilningur hjá hv. þm., að frávikning kennarans hafi verið af pólitískum ástæðum, því eins og öllum mun kunnugt, var maður þessi ekkert verulega kominn út í pólitík um það leyti; kom fyrst út í hana alvarlega 1908. Er því það, sem hv. þm. hefir sagt um þetta atriði, reykur einn. — Skal jeg svo eigi tefja tímann með því að vera að elta ólar við misskilning þm. og rangfærslur.