17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (1851)

71. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. bar jeg einnig fram hjer á síðasta Alþingi; það fann þá eigi náð fyrir augum þingsins. En nú hafa síðan farið fram nýjar kosningar um alt land, og auk þess hjer komnir til margir nýir fulltrúar; áleit jeg rjett að láta nú þetta mál koma aftur fram í þinginu og til atkvæða hinna nýkjörnu fulltrúa, þar eð fjöldi manna um land alt telur þetta mál, að ríkið taki að sjer einkasölu á einni aðalútflutningsvöru landsins, vera mjög mikilsvert mál. Það er þetta, sem um er að ræða, að ríkið taki að sjer og fari með fisksöluna; fiskurinn er aðalútflutningsvara landsmanna og langmestur hluti af þeim erlenda gjaldeyri, sem vjer eignumst, fæst fyrir þessar vörur. Þessvegna er það alls ekki þýðingarlaust mál, hvernig þessari verslun er varið og fyrir komið. Fyrir þennan erlenda gjaldeyri, er fengist hefir fyrir þessar vörur, sem íslenskir verkamenn hafa aflað, kaupum vjer, eða eigum að kaupa, nauðsynjavörur þær, er vjer þurfum; er því skiljanlegt, að þeir muni eigi vera svo fáir, sem óska þess, að þessi verslun fari sem best úr hendi, en einmitt á því hefir talsverður misbrestur verið undanfarin ár. Hefir þetta því orsakað það, að eigi hefir fengist það verð fyrir fiskinn, sem telja mátti vera rjett eða sanngjarnt. Nú hafa það einmitt verið einstakir menn eða fjelög, sem við þessa fiskverslun hafa fengist hingað til, og mikill hluti hennar hefir verið í höndum erlendra manna og fjelaga. Og vitanlega hefir um mjög litla eða enga samvinnu milli fiskútflytjenda verið að ræða. Hver hefir þar skarað eld að sinni köku og oft gert hvor öðrum stórskaða, sem svo hefir bitnað á öllum landsmönnum á eftir. Hin eina samvinna, sem um hefir verið að ræða milli þeirra, er sú — og það hafa þeir stundum gert — að mynda stóra hringi, samtök, sem hafa miðað að því, að þrýsta niður fiskverðinu hjá hinum smærri framleiðendum og græða þannig á þeim og halda verðinu óeðlilega háu gagnvart kaupendum. Frægastur af öllum þessháttar samtökum, var „Fiskhringurinn“ svokallaði, sem hjer starfaði fyrir nokkrum árum, og tapaði svo miljónum skifti, sem síðar var eftir gefið. Þeir menn, sem að slíkum samtökum standa, hafa eigi hag landsmanna fyrir augum, heldur hafa þeir aðeins viljað græða sem mest fyrir sjálfa sig og hluthafa sína, og þessvegna hafa þeir stundum bent bogann svo hátt, að hann hefir brostið, en skaðinn, sem af því hefir hlotist, hefir þá auðvitað komið jafnt í koll öllum landsmönnum. Það getur því engum blandast hugur um, að þetta er óheilbrigt ástand. Margir útgerðarmanna hjer hafa fundið þennan misbrest og reynt að koma á milli sín betra samkomulagi að því er fiskverslunina snerti. Kom þetta einna greinilegast í ljós 1921, er síldarútvegsmenn vildu láta Alþingi lögbjóða samtök um útflutning á síld. Nú hafa saltfisksútflytjendur hjer verið að athuga þetta mál undanfarið, aðallega fyrir frumkvæði Landsbankans, um skilyrði fyrir samvinnu sín á milli, og hafa þeir leitað til stjórnarinnar í þessu efni, að hún styrkti væntanlegan fjelagsskap fiskútflytjenda með lögum. En úr þessu hefir þó ekki orðið, mest fyrir samtakaleysi og sundurlyndi útflytjendanna sjálfra. Enda eru það og margir, sem vantrúaðir eru á það, að samtök slíkra manna mundu geta komið lagi á fiskverslunina. Meðferð fisksölunnar hefir oftlega verið vítt opinberlega í blöðunum, og einn af bankastjórum Landsbankans gerði sjerstaklega að umtalsefni fyrir tæpu ári síðan ólag það, sem væri á fiskversluninni; og þó hann ekki benti á ríkiseinkasölu sem úrlausn þessa máls, en æskti heldur eftir frjálsum samtökum manna á meðal, sem nú er þegar sýnt, að eigi munu geta tekist, þá styður þetta alt þessa tillögu mína og viðleitni til þess að koma betra skipulagi á fiskverslunina. Það sjá allir, að þegar fiskurinn með ríkiseinkasölunni er kominn á eina hendi, kemur ekki til þess, sem nú tíðkast, að einstakir útflytjendur bjóði fiskinn út í mörgu lagi og á mörgum stöðum í senn, og felli verðið hver fyrir öðrum. Framboðið verður jafnara við einkasöluna og fer eftir neysluþörf kaupenda, en verðið verður stöðugra. Mun þetta verða til þess að gera allan útveg áhættuminni en verið hefir undanfarið og því til stórra bóta fyrir þennan atvinnuveg. En sjerstaklega hygg jeg, að hinir smærri útgerðarmenn og framleiðendur muni njóta góðs af þessu skipulagi á versluninni. Munu þeir betur njóta þess raunverulega verðs, sem fyrir fiskinn fæst á erlendum markaði, og geta því fremur aukið útveginn; enda er það eðlilegast, að arðurinn af árlegu striti almennings skiftist jafnara niður með þjóðinni, en lendi ekki allur hjá fáeinum hákörlum, sem síður hafa verðskuldað hann að rjettu lagi.

Nú sem stendur er verslunarjöfnuður vor óhagstæður að menn ætla, en þar eð skýrslur vantar um þetta, verður þó eigi fullyrt neitt um það, en alllíklegt er þó, að inn- og útflutningur standist nokkurnveginn á, og er það álit margra, að verðfall hinnar íslensku krónu sje mjög óeðlilegt. Hafa margir þá trú, að þetta stafi af því, sem og á sjer stað víða annarsstaðar, að það fje, sem flutt er út úr landinu sem íslenskar afurðir, gangi alls eigi til þarfa landsmanna sjálfra. Það hefir því vaknað sú spurning hjá allmörgum, hvort vjer í raun og veru fáum aftur alt það fje, sem greitt er fyrir íslenskar afurðir á erlendum markaði, til okkar eigin afnota. Jeg minnist í þessu sambandi brjefs frá stjórn Landsbankans, sem hjer var nýlega lesið upp, og var þar vikið að ýmsum gjaldeyrisráðstöfunum, t. d., að fje, sem fæst fyrir innlendar afurðir, gangi til þarfa landsmanna sjálfra, að vörur verði eigi fluttar út þannig, að verð þeirra verði alt lagt inn í erlenda banka. Þetta hefir átt sjer stað undanfarið, og er lítt til bóta fallið á hag landsmanna, eða til þess að efla gengi peninga vorra. Með einkasölufyrirkomulaginu er komið í veg fyrir þetta, að fje sje flutt út úr landinu á þennan hátt, en ríkið fær sjálft gjaldeyri til umráða. Einnig kemur einkasalan í veg fyrir það, sem og hefir átt sjer stað hjer í gjaldeyrisvandræðunum, að erlendir fjesýslumenn hafa flutt inn erlendar vörur, en keypt innlendar afurðir hjer í staðinn og selt þær erlendis, og þannig tekið allan hagnaðinn af verði þeirra. Ennfremur er annað, sem eigi er minna vert, er leiðir af ríkiseinkasölunni, þ. e. ef hjer verða innleidd innflutningshöft aftur í einhverri mynd, að ekki verði þá brallað með erlendan gjaldeyri, eins og hjer var gert síðast, er innflutningshöftin voru lögð á, en bankarnir höfðu þá erlendan gjaldeyri mjög af skornum skamti. Hverfur þá og freisting útflytjenda — enda hafa þeir þá og siður tækifæri — til að „spekúlera“ í verði íslenskrar krónu, ef útflutningurinn er allur í höndum ríkisstjórnarinnar. Hvar, sem til er litið, sjest því eigi annað en hagnaður af þessu skipulagi fyrir ríkissjóð og alt landið. Þá er enn eitt atriði, og mjög þýðingarmikið í þessu máli, en það er markaðsleitin fyrir íslenskan saltfisk erlendis. Svo er til ætlast með þessu frv., að ríkið fái talsvert fje til umráða í þessu skyni, og verður það þá krafa af þingsins hálfu, að stjórnin geri alt, sem í hennar valdi stendur, í þessu efni. Hvað hefir verið gert í þessu efni undanfarið? Eiginlega ekkert nema það, sem gert hefir verið af ríkisins hendi. Og fiskútflytjendumir hafa alls ekki notfært sjer þær leiðbeiningar, sem að opinberri tilstuðlan hafa fram komið í þessu máli. Af Norðmanna hálfu hefir mikið verið unnið til að útvega nýja markaði, og þeir hafa, bæði ríkið og útflytjendur, miklu til þess kostað. En hjer hafa útflytjendur ekkert gert, enda brestur þá sennilega fje til þess. Með einkasölunni verður ríkinu trygt fje til þessara hluta, og ætti málinu þá að vera betur borgið.

Jeg geri ráð fyrir, að þá muni og frv. verða fundið það til foráttu, að erfitt muni veitast að finna þá menn, sem væru hæfir eða á annan hátt færir um að veita forstöðu slíkri stórverslun sem þessari. Jeg er ekki svo vantrúaður á þetta eins og háttv. andstæðingar mínir. Jeg er ekki vantrúaður á það, að til sje nóg af góðum og heiðarlegum mönnum, og jeg efast ekki um, að ríkið mundi geta grafið upp fjölda af slíkum mönnum til þess að fara með þessi störf og að þeir mundu vinna eins vel í þágu ríkisins og þeir ynnu fyrir sjálfa sig. Jeg geri því ekki svo mikið úr þessari grýlu, að ríkiseinkasalan sje eigi framkvæmanleg vegna skorts á hæfum mönnum. Ríkið hefir einmitt á undanförnum árum haft stórfeldan atvinnurekstur með höndum, landsverslun o. fl., og hefir haft þar mjög margt starfsmanna, og jeg veit eigi til, að nokkur hafi borið þeim mönnum, sem þar starfa, á brýn, að þeir hafi farið illa að ráði sínu eða hafi brugðist því trausti, sem þeim hefir verið sýnt með því að fela þeim þessi störf á hendur. Þá getur það verið, að einhverjir láti blekkjast af því, hversu útlitið er nú gott með söluhorfur á íslenskum fiski erlendis, og álíti, að ástandið sje nú svo ágætt, að engin ástæða sje til þess að gera ráðstafanir til ríkiseinkasölu á fiskinum og segi, að það megi ekki miða við það, sem skeð hafi á undanförnum árum. En þó þetta sje nú svo, og jeg óska, að það geti haldist sem lengst, getur þó svo farið, að hið háa verð breytist áður en varir til hins verra. Slíkar verðsveiflur eru því miður tíðar. Verðið getur fallið snögglega; og ef eitthvert afturkast yrði á fiskmarkaðinum, munu fiskútflytjendur eigi verða ófúsir á að leita í einhverju aðstoðar löggjafarvaldsins eða ríkisstjórnarinnar. Þessvegna ættu þeir ekki að láta blekkjast af hinu góða útliti í svipinn, en ættu að vera fúsari til þess að fá ríkinu í hendur aðalútflutningsvörur landsins og tryggja sig þannig gegn skakkaföllum, sem sýnilegt er af reynslunni, að þráfaldlega koma fyrir vegna skipulagsleysis á fisksölunni í einstakra manna höndum. Með þessu fyrirkomulagi á fiskversluninni væri og annað unnið, að menn losnuðu fyr undan því, sem víða um heim er kallað einveldi bankanna yfir peningamálunum. Ef þessi ríkiseinkasala yrði stofnuð, fengi ríkið nægan erlendan gjaldeyri til umráða, og þá gæti stjórnin, fyrir hönd þjóðarinnar, haft hönd í bagga með bönkunum um gengi íslensku krónunnar, að þeir ráði því ekki alveg upp á eigin spýtur, eins og undanfarið hefir átt sjer stað hjer. Þetta er enn ein ástæðan, sem ætti að gera það að verkum, að þetta frv. mitt fengi góðar undirtektir hjá háttv. deild, og vænti jeg því, að hún sýni þessu máli þann sóma, að samþ. það til 2. umr., og að lokinni þessari umræðu geri jeg það að till. minni, að frv. verði vísað til sjútvn. Það gæti að vísu orðið álitamál, hvort heldur það skyldi fara til fjhn. eða sjútvn., en jeg held jeg kjósi það heldur í hendur þeirri siðarnefndu.